Neikvæðni í garð Landsbankans – ásakanir um blekkingar
Víða verður í bók fyrrum fjármálaráðherra vart við tortryggni og neikvæðni í garð Landsbankans og fulltrúa þeirra en eins og að framan er greint er skilningur meiri á sjónarmiðum fulltrúa Kaupþings, trúnaður við Kaupþingsmenn er meiri samhliða trú á styrk og stöðu Kaupþings umfram önnur fjármálafyrirtæki. Í bókinni er vart að finna ástæður eða atvik sem réttlæta að ráðherra og stjórnvald í raun mismuni málsaðilum og taki eins augljósa stöðu með einum frekar en öðrum.
Í bók Árna Mathiesen kemur fram að strax um Glitnishelgina blæs köldu í garð Landsbankans. Mér var ekki kunnugt um þennan vanda Glitnis fyrr en á sunnudeginum 29. september 2008 en ég ætla að bankastjórar Landsbankans hafi haft veður af honum degi fyrr. Landsbankamenn setjast yfir afleiðingar af vanda Glitnis á sunnudeginum. Ég fæ símtal rétt undir hádegi og er kallaður til fundar í Landsbankanum eftir hádegi með báðum bankastjórunum, helstu stjórnendum og formanni og varaformanni bankaráðs. Bæði stjórnendur bankans og ég höfðum fyrr á árinu rætt við stjórnvöld um sameiningu Landsbankans, Straums og Glitnis með fjárframlagi ríkisins annað hvort á formi víkjandi láns eða eigin fjár[1]. Stjórnendur Landsbankans lögðu fram á fundinum hugmynd að því hvernig við þessar aðstæður mætti sameina þessa banka. Á þeirri stundu var eiginfjár staða Straums talin sterk og þá var lausafjárstaða Landsbankans á þessum tíma talin örugg og því voru þessir tveir bankar sameinaðir taldir traustir og á þeim forsendum var tillaga um sameiningu send til stjórnvalda. Fyrir hönd stjórnar Straums féllst ég á að senda þessa tillögu til þess að koma samtali af stað. Um þessa tillögu hefur fjármálaráðherra þetta að segja:
„Um þetta leyti fara að berast einkennileg tilboð frá Landsbankanum um sameiningu Glitnis og Landsbankans, þar sem ríkið átti að borga brúsann og hlutur Landsbankans að vera ansi góður, svo ekki sé meira sagt, en hlutur eigenda Glitnis eyðast út. Menn voru bara alveg gáttaðir!“ (Bls. 21.)
Bókaritari ráðherra hefur síðan þetta að segja:
Sagt er að hákarlar finni blóðlykt úr tuga mílna fjarlægð ef særð skepna er í sjónum. Það mátti reyna að ná þessari bráð og Landsbankamenn voru ekki þeir einu. Inn á fundinn bárust fleiri hugmyndir um framtíð Glitnis, meðal annars yfirmáta flókin tillaga frá Milestone. (Bls. 22.)
Tillögu Landsbankans svaraði formaður bankastjórnar Seðlabankans með háði og án raka eða umræðu[2]. Ekkert heyrðist frá ríkisstjórn. Ekkert gagntilboð, engin tillaga um að setja viðræður í ferli en frá sjónarhóli Landsbankans var tilboðið einna helst sett fram til að undirstrika vilja bankans til að koma að lausn mála. Viðleitni Landsbankans og Straums til að þróa aðrar lausnir á vanda Glitnis en þá sem Seðlabankinn lagði til var tortryggð og hædd. Erfitt er að gera sér grein fyrir því af hverju þeir sem réðu ferðinni í ríkisstjórn og í Seðlabankanum efuðust um vilja og ásetning Landsbankans og Straums til að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að ríkið yfirtæki Glitni því bankamenn sáu í hendi sér að það hefði í för með sér verulega rýrnun eigna í íslenska kerfinu.
Í framhaldinu átti ég ásamt Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjóra Landsbankans, fund með stjórnarformanni Glitnis, Þorsteini Má Vilhjálmssyni, aðaleiganda Glitnis, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, og forstjóra FL Group, Jóni Sigurðssyni. Þar áttu sér ekki stað neinar efnislegar viðræður en almennt var rætt um sameiningu og skilyrði varðandi skipan stjórnar. Ég óskaði eftir hugmyndum eða tilboði frá Glitni sem barst ekki. Landsbankinn sendi síðan aðra tillögu til stjórnvalda um sameiningu bankanna þriggja með aðkomu ríkisins. Aldrei barst neitt svar eða önnur viðbrögð við því tilboði. Fyrrum fjármálaráðherra svarar því ekki í bók sinni af hverju tillögunni er ekki svarað, af hverju stjórnvöld settu ekki fram hvaða forsendur væru fyrir sameiningu af þeirra hálfu eða af hverju stjórnvöld setja ekki sameiningaviðræður í ferli og leggja til forystu til slíkrar vinnu. Árni Matt birtir hins vegar úr tölvupósti samráðherra og vinar, Össurar Skarphéðinssonar, en pósturinn er meðal gagna sem opinberuð voru í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis:
„Sameining LÍ og Glitnis er líklega til umræðu í nótt. Landsbankamenn fóru hins vegar að sofa! Þeir höfðu áður sent tilboð inn í SÍ, sem gróflega fól í sér að 200 milljarðar yrðu settir í sameinaðan banka af ríkispeningum, og þar að auki lánaður allur gjaldeyrisvarasjóðurinn og meira til – 3 milljarðar evra. Það var óaðgengilegt, og þótti undarlegt tilboð af hálfu LÍ. Það var sett fram án samráðs við Glitni.“ (Bls. 22.)
Af þessu má ljóst vera að fjármálaráðherra átti enga aðild eða kann enga skýringu á af hverju stjórnvöld kanna ekki til hlítar aðra möguleika á úrlausn vanda Glitnis en þann sem Seðlabankinn hefur lagt til og vill fá ríkisstjórn til að fallast á. Upplýsingar í pósti iðnaðarráðherra um að Landsbankamenn séu farnir að sofa eru væntanlega frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni komnar því Landsbankamenn sváfu ekki mikið þessa nótt. Skoða ber því póst iðnaðarráðherra í ljósi þess hverja hann var að tala við þetta kvöld og þessa nótt. Hins vegar sendi Jón Ásgeir mér sms-skeyti um nóttina þar sem hann óskaði eftir að hitta mig. Á þeirri stundu leit ég þannig á að öll spil væru á hendi Seðlabankans og ríkisstjórnar og því fátt sem Glitnir og Landsbankinn gætu gert upp á eigin spýtur. Ég sá því ekki ástæðu til að rjúka upp til funda fyrr en viðbrögð fengjust frá stjórnvöldum.
Víðar er að finna í bók Árna Mathiesen, fyrrum fjármálaráðherra, neikvæð viðhorf til Landsbankans og ásakanir um óheilindi hans og okkar sem vorum að reyna að bjarga því sem bjargað varð:
„Ég held þeir hljóti að hafa vitað allan tímann og gert sér grein fyrir að sú leið sem þeir ræddu, að sameinast Kaupþingi og yfirtaka Glitni, væri algjörlega óraunsæ.“ (Bls. 33.)
Bókaritari segir síðan:
Yngvi Örn Kristinsson svaraði fyrir hönd landsbankamanna og punktaði Árni hjá sér eftir honum: „5 mia evra inn í kerfið ekki [hægt að] opna ef það er ekki klárt.“ Í lok fundarins er þetta síðan skrifað eftir Börgólfi Thor: „Það er til eigið fé.“ Hvað átti hann við? Var hann að blekkja ráðherrana með því að slá um sig? Hvaða eigið fé? Þessar spurningar lágu í loftinu, en kannski hefur ráðherrunum þótt, þegar þarna var komið sögu, ástæðulaust að ganga eftir svörum. Ljóst væri orðið að engin innistæða væri fyrir fullyrðingum af þessu tagi. (Bls. 41-42.)
Árni og bókaritari hans halda því fram að ég og fulltrúar Landsbankans höfum gert okkur grein fyrir óraunsæi okkar hugmynda og að engin innistæða hafi verið fyrir fullyrðingum okkar. Hér er því haldið fram að við höfum verið að blekkja yfirvöld. Það er ekki rétt.
Við lestur þessara tilvitnana skýrist að fjármálaráðherra skildi ekki tilboð Landsbankans og Straums um yfirtöku á Glitni. Það tilboð grundvallaðist á að sameina fyrst Landsbankann og Straum. Sameining Landsbankans og Straums var alltaf lykillinn frá okkar bæjardyrum að sameiningu við Glitni eða Kaupþing. Þetta kom fram á fundi mínum með Geir H. Haarde í ágústmánuði og þetta kom skýrt fram í tillögum sem sendar voru frá Landsbankanum helgina áður til stjórnvalda og þau svöruðu ekki.
Áður en stjórnvöld tóku yfir Glitni og áður en lánhæfismat ríkisins og allra bankanna lækkaði tveimur dögum síðar var eiginfjárstaða Straums afar sterk og nam eiginfjárhlutfall bankans 25.4% í hálfsársuppgjöri 2008, lang hæst íslenskra banka. Á sama tíma var lausafjárstaða Landsbankans talin sterk vegna þess hve fjármögnun hans byggði mikið á almennum alþjóðlegum innlánum en ekki á heildsölulánum á fjármálamörkuðum sem þá voru botnfrosnir. Við lítið breyttar aðstæður var Landsbankinn að fullu fjármagnaður fram eftir árinu 2010. Eiginfjárhlutfall bankans var hins vegar veikt. Því var sameining Landsbankans og Straums talin ákjósanleg og í raun forsenda þess að þessir bankar gætu tekið þátt í frekari umbreytingum á íslenskum fjármálamarkaði. Sameinaður banki hefði samkvæmt því sem við blasti þá tiltölulega örugga fjármögnun og með eiginfjárhlutfall um 12,6% í samanburði við 10,3% eiginfjárhlutfall Landsbankans, eða nærri eða 50% fyrir ofan lágmarksviðmið alþjóðlegra bankareglna.
LÍ | Straumur | LÍ + Straumur | |
Vegnar eignir* | 3.098.125 ISK million** | 547.724 ISK million | 3.645.849 ISK million |
Tier I – eigið fé | 252.507 ISK million | 126.820 ISK million | 379.327 ISK million |
Tier I – eiginfjárhlutfall | 8,2% | 23,2% | 10,4% |
Tier II – eigið fé | 319.600 ISK million | 139.122 ISK million | 458.722 ISK million |
Eiginfjárhlutfall | 10,3% | 25,4% | 12,6% |
*Eignir á sk. áhættugrunni. **Tölur miðast við hálfsársuppgjör frá miðju ári 2008 hjá LÍ og Straumi. EUR/ISK 124,38
Þegar ég sagði ráðherrum að við hefðum eigið fé átti ég við eigið fé í Straumi og/eða sameinuðum banka. Ég reiknaði með að fjármálaráðherra vissi af því að verið væri að tala um að sameinaðir Landsbanki og Straumur myndu taka yfir Glitni líkt og kom skýrt fram í tveimur tilboðum sem send voru stjórnvöldum um helgina. Við lestur bókar Árna Matt lítur út fyrir að hann hafi annaðhvort ekki kynnt sér forsendur tilboða Landsbankans um yfirtöku á Glitni eða að hann hafi ekki skilið hvaða þýðingu það hafði fyrir eiginfjárstöðuna að sameina Landsbankann og Straum. Það hefði skipt öllu.
Það er grátlegt að fyrrverandi ráðherra virðist hafa komist að niðurstöðu sinni um að engin innistæða væri fyrir orðum Landsbankamanna um að það hafi verið til eigið fé án þess að skilja tillögurnar að fullu. Á sama tíma tekur ríkisstjórnin ákvörðun um að lána Kaupþingi 500 milljónir evra byggt á því að „einhverjir peningar“ voru að koma inn í Kaupþing án þess að útskýra það frekar hvaða peninga var þarna um að ræða.
Beinum og óbeinum ásökunum fyrrverandi ráðherra um að ég og fulltrúar Landsbankans hafi verið að beita blekkingum er vísað á bug. Við vorum eftir bestu getu og með öllum ráðum og af fullum heilindum að reyna að bjarga þeim verðmætum Landsbankans og Straums sem hægt var að bjarga. Tækifærin til að rýna í tillögur og ræða mögulegar lausnir við stjórnvöld eða fulltrúa þeirra voru fá en þegar þarna var komið sögu héldu þau á öllum þráðum máls í sínum höndum. Það er ekki hægt að ásaka okkur um blekkingar þegar hvorki var vilji til að fara í saumana á okkar tillögum eða skilningur á efni og innihaldi þeirra.
[1] Í skýrslu RNA er vísað í minnisblað Landsbankans til ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands í febrúar 2008 þar sem talað er um að taka á lausafjárvandanum með myndarlegum hætti og lagt til að ríkið tryggi fjármögnun Landsbankans til fimm ára og bankinn yfirtaki einnig Glitni (Skýrsla RNA, 6. bindi, kafli 19.3.5, bls 125.) og einnig kemur fram að bankastjóri Landsbankans á viðræður við Seðlabankann um yfirtöku á Glitni í mars mánuði (Skýrsla RNA, 6. Bindi, kafli 19.3.6 bls. 147.) Ég átti síðan fund með Geir H. Haarde í ágúst þar sem ég lagði fram kynningu á forsendum og aðferðum við slíka yfirtöku. Ítrekað kom fram hjá mér og bankastjórum Landsbankans að forsenda yfirtöku/sameiningar væri fjárframlag ríkisins því það vantaði eigið fé í kerfið. Í viðtali við Markaðinn á Stöð 2 í apríl 2008 svara ég spurningu fréttamanns um sameiningu Glitnis og Landsbanka og Straums á þá leið að kröfuhafar ráði för.
[2]Úr skýrslu RNA, 7. bindi, kafli 20.2, bls. 45: „Ég get fengið ríkisstjórnina og bankastjórnina til að samþykkja þetta með einu skilyrði, þessa hugmynd ykkar. Hann [Halldór J. Kristjánsson]var mjög kátur og sagði: Hvað er það? Það er að ég […] komist í stjórn Blómavals. Þá sagði hann: Er þetta svona vitlaust? Já, þetta er svona vitlaust. Og svo lagði ég á.“ Davíð Oddsson um fyrri tillögu Landsbanka Íslands hf. 28. september 2008, sbr. skýrslu Davíðs fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 12. ágúst 2009, bls. 57.