Margendurteknar rangfærslur

 

Í skýrslu rannsóknarnefndar er margendurtekið að Landsbankinn hafi veitt félagi í minni eigu lán að andvirði 153 milljóna evra þann 30. september 2008. Þessi staðhæfing er röng og það breytir ekki hversu oft staðhæfingin er endurtekin hún öðlast ekki sannleiksgildi við það. Rannsóknarnefndin skoðar málið ekki til hlítar. Lánið var veitt í mars og á heimildina var dregið jafnt og þétt. Vissulega var síðasta greiðslan há og þar er rétt að hún var innt af hendi 30. september enda var bankinn skuldbundinn til þess. Hafa skal í huga að á þeim degi lágu ekki fyrir hinar afdrifaríku afleiðingar sem yfirtaka ríkisins hafði á lausafjárhag allra íslensku bankanna.

 

Í kafla 20.4.2 um ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis eftir umfjöllun um fall Landsbankans segir á bls. 157:

 30. september 2008 veitti Landsbankinn félagi í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar lán að andvirði 153 milljóna evra. Ekki verður því séð að helstu eigendur bankans hafi haft hug á eða getu til að veita bankanum það aukna fé sem þörf var á til þess að rekstri hans yrði haldið áfram. (20.4.2)

Athugasemdir við þessar línur eru eftirfarandi:

Eins og ítrekað hefur komið fram þá er fullyrðing um lánveitingar 30. september algerlega rangar. Þetta lán var veitt fyrr á árinu, dregið á það jafnt og þétt, en vissulega var hæsta greiðslan síðast, En lánið var ekki veitt 30. september 2008.

Í 21. kafla um orsakir falls bankanna segir í undirkafla 21.2.1.2 um skuldsetningu eigenda bankanna á bls. 184 segir einnig:

Björgólfur Thor var með þó nokkur lán hjá móðurfélagi Landsbankans en jafnframt var hann langstærsti skuldari Landsbankans í Lúxemborg eins og sést á mynd 8. Eins og fram kemur í kafla 8.12 námu heildarskuldbindingar Björgólfs Thors og félaga sem tengdust honum við Landsbanka Íslands tæpum einum milljarði evra í október 2008. Stór hluti lánveitinga til Björgólfs Thors og tengdra aðila var vegna lyfjafyrirtækisins Actavis, ýmist beint til félagsins eða til félaga sem áttu hlut í félaginu. Í kafla 8.8 er fjallað um víkjandi lán sem bæði Landsbankinn og Straumur-Burðarás veittu vegna yfirtöku fjárfesta á Actavis um mitt ár 2007, en Björgólfur Thor átti rúmlega 80% í félaginu sem keypti Actavis. Lánin voru mjög áhættusöm og báru vexti í samræmi við það. Árið 2008 veitti Landsbankinn jafnframt 153 milljóna evra lán til BeeTeeBee Ltd., félags í eigu Björgólfs, til þess að veita sem víkjandi lán inn í yfirtökustrúktúr Actavis og uppfylla þannig kröfu Deutsche Bank um aukið eigið fé í félaginu. Lánið var veitt 30. september en þá var Seðlabanki Íslands búinn að gera tilboð í 75% hlut Glitnis og lausafjárerfiðleikar Landsbankans, sérstaklega í erlendum gjaldeyri, fóru hratt vaxandi.

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi: 

Enn á ný er endurteknar rangfærslur um lánveitingar 30. september og fullyrt að það hafi verið veitt eftir að Seðlabanki Íslands hafði gert tilboð í 75% hlutafjár í Glitni. Þetta er rangt. Lánið var veitt í mars 2008 og á það dregið jafnt og þétt og var síðasta greiðslan við lok þriðja ársfjórðungs, þ.e. í septemberlok.

Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, gerði ágæta grein fyrir stöðu bankans á þessum tíma, í grein sem birt var í Morgunblaðinu 10. febrúar 2010. Þar segir m.a.:

„Landsbankinn greip til umfangsmikilla aðgerða til að bregðast við lausafjárkreppunni allt árið 2008. Þannig minnkaði efnahagsreikningurinn um 4% fyrri helmingi ársins 2008, bankinn breytti langtímaeignum í eignir til endurhverfra viðskipta og dreifði innlánakerfi sínu, bæði landfræðilega og með því að auka bundin innlán. Bankinn jók gjaldeyrisvogun eiginfjár í góðri sátt við Seðlabankann og aðalfundur bankans 2008 samþykkti að enginn arður yrði greiddur út og útgáfu breytilegs skuldabréfs upp á 500 milljónir evra til að afla lausafjár.

Landsbankinn átti því verulegt lausafé í íslenskum krónum og skuldabréfum sem hæf voru til endurhverfra viðskipta þegar útflæði hófst af innlánsreikningum erlendis fyrstu daga október 2008. Ekki var fært að skipta þessum fjármunum yfir í erlendan gjaldeyri til að mæta því útflæði þegar á reyndi. Jafnframt var bankinn á lokastigi undirbúnings að breyta stórum erlendum lánasöfnum í lausafé hina örlagaríku daga í byrjun október 2008. Þá átti Landsbankinn verulegar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum hjá íslenskum fagfjárfestum. Þetta fjármagn hefði allt verið tiltækt á fáum dögum við eðlilegar aðstæður, en enginn banki getur mætt meiriháttar áhlaupi á innlán og það vissu allir markaðsaðilar. Um þessa upplýsingagjöf var ekki uppi neinn misskilningur hjá markaðsaðilum.“

Þá tók Halldór J. Kristjánsson fram í grein sinni að Landsbankinn skuldaði Seðlabanka Íslands ekki neina fjármuni, hvorki í krónum né í öðrum gjaldmiðlum, þegar leitað var lausafjárstuðnings í erlendri mynt 5. október 2008. „Vænt endurheimtuhlutfall krafna á hendur Landsbankanum er meðal þess sem best verður meðal íslenskra banka. Ályktanir um gæði eigna út frá því sem verður til greiðslu skuldabréfakrafna, erlendra vogunarsjóða og banka, eru rangar vegna þess að rétthærri kröfur eins og innlán voru hlutfallslega hærri hjá Landsbankanum en öðrum íslenskum bönkum.“

Í ljósi þessara ummæla Landsbankastjórans er rétt að benda á, að tveir af þremur bönkum, sem báðu um aðstoð frá ríkinu, þ.e. Glitnir og Kaupþing, fengu slíka aðstoð. Þriðji bankinn, Landsbankinn, fékk ekkert. Það var þó sá banki sem bað um minnst og skuldaði jafnframt ekkert, að því er fram kemur í grein Halldórs.