Jón Ásgeir var síður fréttnæmur á Stöð 2 og Bylgjunni en á RÚV

Í athugun CreditInfo á umfjöllun ljósvakamiðla fyrsta árið eftir hrun um nokkra nafngreinda einstaklinga sem voru í forystu fjármálafyrirtækja í aðdraganda þess 2008 kemur í ljós að Stöð 2 fjallaði hlutfallslega minna um Jón Ásgeir Jóhannesson en aðra úr hópi þeirra sem fjölmiðlar fjölluðu mest um. Auk hans voru það ég – Björgólfur Thor Björgólfsson, Björgólfur Guðmundsson, Sigurður Einarsson og  Hreiðar Már Sigurðsson sem ljósvakamiðlar beindu kastljósi sínu mest að. Áberandi er hversu minni umfjöllun Stöðvar 2 um Jón Ásgeir er en af öllum ljósvakafréttum um hann er framlag Stöðvarinnar 27%. Samsvarandi hlutfall Stöðvar 2 í umfjöllun um aðra er frá 33% og upp í 38%. Þá er eftirtektarvert að Stöð 2 virðist hafa haft talsvert meiri áhuga á fréttum um mig og Björgólf Guðmundsson en Sjónvarpið.

 

Í athugun þessari, sem var framkvæmd að minni ósk, kannaði CreditInfo umfjöllun ljósvakamiðla frá því 6. október 2008 og til sama dags ári síðar. Hafa skal í huga að þetta var á þeim tíma sem upplýsingar rannsóknarnefndar Alþingis voru ekki opinberar og umfjöllun prentmiðla og annarra fjölmiðla byggðar á staðfestum og óstaðfestum upplýsingum og leka innan úr bönkunum eða skilanefndum þeirra.

Niðurstöður þessarar athugunar eru afgerandi. Jón Ásgeir Jóhannesson var síður fréttnæmur á ljósvakamiðlum 365 miðla ehf. en á RÚV. Aðeins 38% allra ljósvakafrétta um Jón Ásgeir birtust á Stöð 2 og Bylgjunni en 62% á RÚV, – útvarpi og sjónvarpi. Í mínu tilfelli voru hins vegar 50% allra frétta um mig í útvarpi eða sjónvarpi birtar í miðlum 365 miðla ehf. Hafa þarf í huga að útsendingatímar RÚV voru fleiri en hjá Stöð 2 vegna þess að virka daga eru tveir fréttatímar í ríkissjónvarpinu. 48% frétta um Björgólf Guðmundsson voru á Stöð 2 og Bylgjunni og 46% frétta um Sigurð Einarsson og Hreiðar Má Sigurðsson.

Heildarfjöldi frétta:

Umfjöllun um: RUV Útvarp Stöð 2 RUV Sjónvarp Bylgjan Samtals
Jón Ásgeir Jóhannesson 73 52 47 22 194
Björgólfur Thor Björgólfsson 50 56 29 24 159
Björgólfur Guðmundsson 50 53 33 22 158
Sigurður Einarsson 24 28 24 12 88
Hreiðar Már Sigurðsson 18 27 21 6 72

 

Hlutdeild hvers ljósvakamiðils:

 Mynd-D-Ljosvaki-2008o2009

Ástæða er til að skoða sérstaklega sjónvarpsfréttir en áhrifamáttur þeirra er verulegur. Áhugi Stöðvar 2 á mér og föður mínum, Björgólfi Guðmundssyni, virðist mjög mikill. Fyrir hverjar tíu fréttir sem birtast á RÚV Sjónvarpi um annan hvorn okkar birtast 19,3 á Stöð 2 um mig og 16 um Björgólf Guðmundsson. Stöð 2 sýnir Jón Ásgeir ekki sama áhuga ef marka má þessa könnun.

Hlutfall fjölda frétta – samanburður á RUV Sjónvarpi og Stöð 2

  RUV – Sjónvarp Stöð 2
Björgólfur Thor 1 1,93
Björgólfur Guðmundsson 1 1,6
Sigurður Einarsson 1 1,27
Hreiðar Már Sigurðsson 1 1,28
Jón Ásgeir Jóhannesson 1 1,11

 

 

Samanburður við prentmiðla og sambærilega rannsókn á umfjöllun prent- og ljósvakamiðla árið 2010

CreditInfo athugaði einnig umfjöllun prentmiðla á sama tímabili og einnig umfjöllun bæði prent- og ljósvakamiðla í sex mánuði um og eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt í apríl 2010. Þegar fyrst eru bornar saman kannanir fyrir og eftir skýrslu rannsóknarnefndar sést að umfjöllun um einstaklinga tengda Landsbankanum minnkar og umfjöllun um einstaklinga tengda Glitni og Kaupþingi eykst eftir að fréttir miðlanna byggja fremur á upplýsingum skýrslunnar en fréttaleka frá skilanefndum eða öðrum sem höfðu aðgang að upplýsingum úr gömlu bönkunum. Pálmi Haraldsson hefur leyst Björgólf Guðmundsson af hólmi í hópi þeirra fimm sem flestar fréttir eru sagðar af árið 2010.

Helsta niðurstaða rannsóknanna á bæði prent- og ljósvakamiðlunum bæði rannsóknartímabilin er hins vegar án efa að fjölmiðlar 365 miðla ehf. fjalla hlutfallslega minna um Jón Ásgeir en aðra í hópi hinna svokölluðu útrásarvíkinga. Framlag Stöðvar 2, Bylgjunnar og Fréttablaðsins til heildarumfjöllunar um Jón Ásgeir er hlutfallslega minna en framlag þessara sömu fjölmiðla til umfjöllunar um aðra einstaklinga. Sérstaklega er áberandi hversu miklu meiri áherslu Stöð 2 hefur lagt á aðra en Jón Ásgeir í hópi þeirra sem voru áberandi í fjármálalífinu fyrir hrun en RÚV Sjonvarp – einkum og sér í lagi á mig.

Eignarhald á ljósvakamiðlum og fréttastjórnir

Jón Ásgeir Jóhannesson tengist rekstrarfélagi Stöðvar 2 og Bylgjunnar, 365 miðlum ehf. Hann var aðaleigandi félagsins allan þann tíma sem rannsókn Creditinfo náði yfir Aðrir af þeim athafnamönnum sem mest var fjallað um koma ekki nærri rekstri ljósvakamiðla svo vitað sé. Óþarfi ætti að vera að geta þess að RÚV er í eigu ríkisins eða Ríkisútvarpsins ohf. og fer fjármálaráðherra með 100% eignarhlut í félaginu. Á rannsóknartímabilinu var Óskar Hrafn Þorvaldsson fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar og Óðinn Jónsson fréttastjóri RUV.