Í skjól fyrir hverjum?
Í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi voru þau ummæli höfð eftir Árna Harðarsyni, samstarfsmanni Róberts Wessman, að ég hafi komið Actavis „í skjól“ á aflandseyju í gegnum net aflandsfélaga. Þar kvað við sama stef og á vef Vísis fyrr um daginn. Ekki fylgdi sögunni hvers vegna hefði átt að vera nauðsyn að koma félaginu í eitthvert skjól eða fyrir hverjum.
Í fréttinni var sagt að Róbert og hans menn væru ósáttir, „því eignarhaldið hefði farið út úr Novator Pharma, sem Róbert var hluthafi í. Hann hafi því farið á mis við mikla fjárhagslega hagsmuni og borið skarðan hlut frá borði,“ eins og þar sagði. Hið rétta er að félagið Salt Generics, sem var vissulega í eigu Róberts, átti hlut í Novator Pharma. Salt Generics er hins vegar ekki lengur í eigu Róberts og hefur ekki verið um langa hríð, eins og hann eða talsmaður hans hefðu getað upplýst Stöð 2 um. Glitnir, sem er einn stærsti kröfuhafi Róberts, fer nú með forræði félagsins og var endurskipulagning Actavis gerð í fullu samkomulagi við félagið og Glitni.
Þegar fulltrúi Róberts reynir að gera það tortryggilegt, að keðja eignarhaldsfélaga sé að baki Actavis, þá er það einnig gegn betri vitund. Að baki fyrirtækinu, sem er eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims, hefur ávallt verið keðja félaga. Svo var einnig á meðan Róbert Wessman var forstjóri þess. Það er ekkert óeðlilegt við slíka uppbyggingu á fjölþjóðlegu fyrirtæki. Grunnatriðið við þetta fyrirkomulag er að það er sett upp að kröfu og í samvinnu við lánadrottna félagsins, þ.m.t. Deutsche Bank og íslensku bankana. Tilgangurinn er að tryggja forgangsröðun fjármögnunar og er alsiða í alþjóðlegum fjármögnunarsamningum. Þessu var ágætlega lýst í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Kröfuhafar félaga ráða að sjálfsögðu þessari uppbyggingu, enda leitast þeir við að tryggja hag sinn sem best. Það er því fásinna að láta eins og eigendur setji upp eitthvert net fyrirtækja, sjálfum sér til hagsbóta, í trássi við hagsmuni kröfuhafa. Varla ímynda Róbert og hans menn sér að uppbygging eins stærsta samheitalyfjafyrirtækis heims sé með þessum hætti til þess eins að ýfa skap þeirra?