Í hjólförum hruns

Ár er liðið frá því að rannsóknarnefnd Alþingis skilaði af sér skýrslu sinni um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Af því tilefni óskaði ég eftir að Fréttablaðið birti eftir mig grein þar sem ég greini frá þeirri skoðun minnni að hún hafi því miður ekki markað nýtt upphaf og veitt þjóðinni þá viðspyrnu sem margir vonuðust eftir. Við værum enn í hjólförum hrunsins. Þá greini ég einnig frá því að ég hef sent forseta Alþingis samantekt með athugasemdum frá mér við skýrslu rannsóknarnefndar en þar er að finna rangfærslur er mig varðar og ummæli um mig sem mörg hver eru röng og fáránleg. Ég óska eftir því við forseta Alþingis að athugasemdir mínar verði birtar á undirvef Alþingis um rannsóknarskýrsluna sökum þess að þrátt fyrir að nefndin fjalli ítarlega um mig og mín málefni í skýrslunni sá hún ekki ástæðu til að ræða við mig.

 

Greinin í Fréttablaðinu í morgun er svohljoðandi:

Í hjólförum hruns

Eftir Björgólf Thor Björgólfsson

 

Ár er liðið frá því að rannsóknarnefnd Alþingis skilaði af sér skýrslu sinni um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Ég fagnaði skýrslunni og bað íslensku þjóðina jafnframt afsökunar á mínum þætti í hruni íslenska fjármálakerfsins.

Ég, eins og flestir aðrir, batt vonir við að skýrslan myndi marka nýtt upphaf og veita þjóðinni nauðsynlega viðspyrnu. Sú hefur því miður ekki orðið raunin. Ég kannast ekki við að nokkur annar, sem kemur við sögu í skýrslunni, hafi gengist við ábyrgð sinni eða viðurkennt að hafa haft nokkur áhrif á gang mála með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi. Þetta á jafnt við um einstaklinga sem stofnanir samfélagsins: Stjórnmálin, stjórnsýsluna, fjölmiðlana, viðskiptalífið, háskólasamfélagið. Flestir þeir sem hafa tekið þátt í samfélagsumræðunni hafa hrifsað til sín það eitt úr skýrslunni sem hentar þeirra málstað. Þeir, sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif á hvert umræðan leitar, hafa látið óheillaþróunina afskiptalausa. Á meðan brennur upp öll skynsemi og réttsýni.

Að hluta má rekja þetta til veikrar stöðu stofnana samfélagsins, sem komu laskaðar undan hruni. Vissulega er verkefnið stórt, en þar dugar ekki að hafa vilja til að gera vel, ef forsendur eru rangar. Þessum stofnunum hefur ekki  auðnast að læra af reynslunni. Forystumenn þeirra hafa horfið inn í hóp gagnrýnenda, hallmælt öllum öðrum en sjálfum sér og borist undan straumi ímyndaðs almenningsálits, eins og það birtist á samskiptasíðum netsins. Ábyrgðarleysið er mikið – og það eftir hrun! Slíkt ábyrgðarleysi er næstum skiljanlegt þegar afleiðingar eru ekki ljósar. En ábyrgðarleysi í rústunum, við uppbygginguna, er óskiljanlegt.

 Alþjóðleg fjármálakreppa skall á okkur í kjölfar stærstu lána- og eignabólu sögunnar. Fjármálakreppan varð að gengiskreppu vegna gagnleysis krónunnar;  að bankakreppu og lánakreppu vegna veikrar stöðu bankanna eftir alltof hraðan og illa grundaðan vöxt; að atvinnukreppu vegna heiftarlegs samdráttar í framleiðslu, neyslu og fjárfestingu; að stjórnmálakreppu vegna vangetu stjórnmálanna til að taka á vandanum; að stjórnlagakreppu vegna ósættis og sundurlyndis.

Hins vegar er langt í frá að þetta ábyrgðarleysi forystumanna einkenni almenning. Einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki semja um mál sín og leysa þau af þrautseigju. Þeirra hlutskipti á að njóta meiri virðingar. Það tryggir að efnahagslífið réttir smám saman úr sér, þrátt fyrir stöðnun umræðunnar.

 Aldrei kallaður fyrir nefndina

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis varð ekki það upphaf sem ég vonaðist til. Ég var sammála þeirri heildarmynd sem nefndin dró upp en ég var  ekki sammála allri efnisumfjöllun hennar eða niðurstöðum og ég var mjög ósáttur við vinnubrögð hennar í því er sneri að mér. Mín er víða getið í skýrslunni en ég var þó aldrei kallaður fyrir nefndina. Yfirlýsingar annarra um mig – margar rangar og sumar ótrúlega heimskulegar – voru birtar án andmæla. Fyrir ári taldi ég það allra hag að láta þetta kyrrt liggja. Ég taldi mikilvægara að þjóðinni tækist að gera skýrsluna, þó gölluð væri, að upphafsreit uppbyggingar en að ég sendi frá mér leiðréttingar við rangfærslur viðmælenda nefndarinnar og skýrsluhöfunda sjálfra.

Því miður hefur mér ekki orðið að ósk minni. Skýrslan hefur enn engin áhrif haft til góðs á íslenskt samfélag.

Ég sé því enga ástæðu til að sitja lengur á leiðréttingum mínum á augljósum villum, röngum ályktunum og hreinum uppspuna. Ég mun birta athugasemdir mínar á vef mínum, btb.is, til fróðleiks fyrir áhugamenn um það sem sannara reynist. Ég hef jafnframt óskað eftir því við forseta Alþingis að athugasemdir mínar verði birtar á vef rannsóknarnefndar Alþingis.

Um leið ítreka ég afsökunarbeiðni mína. Íslenskt viðskiptalíf og samfélag þróaðist hratt árin fyrir hrun og sú þróun var til óheilla. Ég var í aðstöðu til að sjá hættumerki og ég sá sum þeirra, en mér auðnaðist ekki að bregðast við; í sumu gerði ég of lítið, í öðru of seint og í sumu alls ekki neitt. Ef ég og aðrir áhrifamenn í viðskiptum og stjórnmálum hefðum vaknað fyrr og okkur hefði auðnast að vinna saman hefði okkur án vafa tekist að minnka skaðann. En það tókst okkur ekki. Og á því ber ég mína ábyrgð.

Andstyggð umræðunnar

Eftir að ég sendi frá mér afsökunarbeiðnina fyrir ári sneri ég mér að því að semja við lánardrottna og gera upp skuldir mínar. Engin mál mér tengd eru til meðferðar hjá ákæruvaldi eða neinum eftirlitsaðila, að því ég best veit. Þau íslensku fyrirtæki sem ég á hlut í eru öll í góðum rekstri og í sóknarhug.

Samt er það svo að nafn mitt má ekki birtast opinberlega án þess að fram stígi menn sem furða sig á að ég skuli ekki sitja bak við lás og slá, dæmdur fyrir einhver óhæfuverk sem þeir nefna ekki en virðast þó fullvissir um. Og þetta á ekki aðeins við mig, og ekki aðeins þá sem kallaðir hafa verið útrásarvíkingar, heldur má nánast allt það fólk sem hættir sér til einhverra verka á Íslandi þola þessa óværu. Sú andstyggð smitast í alla umræðu á Íslandi. Þótt flestir fjölmiðlar leggi áherslu á þá frumskyldu sína að upplýsa almenning, þá virðast aðrir fremur vilja ala á andstyggðinni en hampa sannleikanum.

Því miður virðast margar helstu stofnanir samfélagsins enn stefnulausar og rekast undan eigin hugmyndum um almenningsálit, í stað þess að leggjast á eitt til að leysa vandann. Það væri hryggilegt ef saga ábyrgðarleysis endurtæki sig.

Margir hafa skoðanir á því sem ég segi og enn fleiri vilja helst ekkert ef mér vita. Sjálfur á ég engan annan kost en að vera samkvæmur sjálfum mér og tjá mig um þau mál sem á okkur  brenna. Í kjölfar þessarar greinar bíður mín eflaust hin gamalkunna hrina fúkyrða. Ég neita hins vegar að læðast með veggjum, heldur áskil mér rétt til skýra málstað minn. Ég vona að þær skýringar komi að gagni, bæði til að upplýsa það sem úrskeiðis fór, en þó miklu fremur til að koma í veg fyrir að mistökin verði endurtekin.