Hver er lærdómurinn?

Egill Helgason er furðu lostinn og spyr þeirrar spurningar hvaða lærdóm hægt sé að draga af því að eitt mest deilumál íslenskra stjórnmála, Icesave, var ys og þys útaf engu. Eignir þrotabús Landsbankans duga fyrir skuldbindingum vegna þessara innlánareikninga og málið hverfur af sjálfu sér. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þeir sem best þekktu til – bankastjórar Landsbankans, sannfærðu mig um í upphafi að eignir bankans myndu duga og hélt ég þeirri skoðun fram m.a. í sjónvarpsviðtali í október 2008 og ítrekaði fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans þá skoðun í öðru sjónvarpsviðtali í nóvember sama ár.  Á það hlustuðu hvorki stjórnmálamenn né samverkamenn þeirra á fjölmiðlum landsins. Það virtist þjóna stöðu þeirra í uppgjöri við hrunið að halda lífi í Icesave-grýlunni.

 

Þegar þessi vefur var opnaður síðasta sumar birti ég á undirvef um Icesave m.a. eftirfarandi:

Icesave innlánareikningar Landsbankans hafa sett mikinn svip á alla umræðu á Íslandi um eftirmál hruns íslenska bankakerfisins. Ein helsta ástæða þess er að endanleg niðurstaða málsins lá ekki strax fyrir líkt og með yfirtöku ríkisins á Glitni, setningu neyðarlaga eða með gjaldþroti Seðlabankans þar sem almenningur, sérfræðingar, stjórnmálamenn og fjölmiðlar stóðu frammi fyrir orðnum hlut. Icesave varð farvegur fyrir stjórnmálamenn og flokka, álitsgjafa og fræðimenn fyrir nær alla umræðu um áhrif fjármálahrunsins á íslenskt samfélag og um nær allt það sem afvega fór á uppgangsárunum. Icesave sem upphaflega dreifði áhættu og jók öryggi varð í kjölfar hrunsins táknmynd alls hins versta í tengslum við útþenslu íslensku bankanna.

Þessi orð standa.

Hvað síðan varðar lærdóminn sem hægt er að draga af Icesave þá er þetta fyrir mér enn eitt dæmið um það þegar stjórnmál og fjölmiðlar búa til hænu úr einni fjöður. Hvor fyrir sig reynir að hrópa sem hæst til að ná athygli fjöldans því þannig telja þeir sig þjóna honum. Það getur verið athyglisvert verkefni fyrir sagnfræðinga að skoða hvaða stjórnmálaöflum Icesave-grýlan hefur þjónað best. Einnig má spyrja sig hvort einhver önnur öfl hafi haft af því hag að halda Icesave í umræðunni þar sem það veitti öðrum uppgjörsmálum hrunsins verulegt skjól. 

Ég er sannfærður um að þegar upp verður staðið og öll kurl komin til grafar verður Icesave ekki eina eftirmál hrunsins þar sem menn á borð við álitsgjafann Egil Helgason verða furðu lostnir og spyrja sig hvernig samfélagsumræðan gat farið svona langt frá kjarna málsins.