Hrun krónunnar óháð falli bankanna

Hrun krónunnar hefur lítið með útrás og fall íslensku bankanna að gera. Krónan var fallin áður en bankarnir féllu. Efnahagur heimilanna skemmdist þannig ekki vegna þess að bankarnir féllu heldur vegna þess að gjaldmiðill þjóðarinnar, krónan, féll. Þetta er álit Jóns Helga Egilssonar, verkfræðings og stundakennara við Háskóla Íslands. Jón Helgi, sem stundar doktorsnám í peningamálahagfræði, segir skýrt að hrun íslensku krónunnar 2008 hafi lítið með útrás og fall íslensku bankanna að gera. Viðskiptablaðið hefur eftir honum að á Íslandi hafi verið rekin vaxtamunarstefna sem gerði landið háð vaxtamunarviðskiptum og vegna almennrar áhættufælni í heiminum þá hafi þau viðskipti dregist snögglega saman. Menn hafi farið með fjármuni sína í öruggari hafnir – og Íslendingar neyddust til að horfast í augu við að stöðugur viðskiptahalli er óstöðugt jafnvægi.

 

Hrun krónunnar óháð falli bankanna

Hrun krónunnar hefur lítið með útrás og fall íslensku bankanna að gera. Krónan var fallin áður en bankarnir féllu. Efnahagur heimilanna skemmdist þannig ekki vegna þess að bankarnir féllu heldur vegna þess að gjaldmiðill þjóðarinnar, krónan, féll. Þetta er álit Jóns Helga Egilssonar, verkfræðings og stundakennara við Háskóla Íslands. Jón Helgi, sem stundar doktorsnám í peningamálahagfræði, segir skýrt að hrun íslensku krónunnar 2008 hafi lítið með útrás og fall íslensku bankanna að gera. Viðskiptablaðið hefur eftir honum að á Íslandi hafi verið rekin vaxtamunarstefna sem gerði landið háð vaxtamunarviðskiptum og vegna almennrar áhættufælni í heiminum þá hafi þau viðskipti dregist snögglega saman. Menn hafi farið með fjármuni sína í öruggari hafnir – og Íslendingar neyddust til að horfast í augu við að stöðugur viðskiptahalli er óstöðugt jafnvægi.

Styrkur krónunnar tekinn að láni

Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Jón Helgi: „Við gátum þá ekki lengur fjármagnað umframneyslu okkar með þessum hætti. Í hruninu 2008 gerðist tvennt. Einkabankar fóru á hausinn og gjaldmiðillinn hrundi. Hið fyrrnefnda er nokkuð sem við verðum að sætta okkur við og í raun það sem við viljum að geti gerst í kapítalísku hagkerfi. Efnahagur fyrirtækja og heimila skemmdist ekki vegna falls þeirra heldur vegna falls krónunnar.“

Jón Helgi bendir jafnframt á að krónan hafi fallið árið 2001 og þá hafi engir bankar komið nærri. Sömu undirliggjandi ástæður hafi legið að baki þá og á hrunárinu 2008. Þá segir hann það einnig ljóst að stöðutökur banka og annarra gegn íslensku krónunni skýri ekki fall hennar.

„Hér var kerfisbundið búið að viðhalda vaxtamun við önnur ríki í mörg ár. Að einhverjir hafi tekið stöðu gegn krónunni vegna þess að þeir töldu hana of sterka er ekki ástæða fyrir hruni hennar – ástæða fyrir hruni hennar er að styrkur hennar var tekinn að láni og lánveitendur vildu fá lán sín greidd til baka. Undirliggjandi ástæða var peningastefnan sem var rekin í formi vaxtamunar sem átti að laða fjármagn að til að styrkja gengið umfram eðlilegt jafnvægi. Slíkt fjármagn er ekkert annað en lán á óhagstæðum kjörum til að búa til falskt gengi – lán sem þarf að greiða til baka og veldur hruni á gjalddaga. Þessi stefna er því miður rekin enn í dag, enda sömu menn sem hafa í raun stýrt þessum málum síðastliðin 15 ár.“

Auðsæld á röngum forsendum

Greining Jóns Helga Egilssonar er hárrétt og sífellt fleiri sem átta sig á að gjaldmiðillinn og peningastefna eiga stærsta sök á þeim vanda sem við er að glíma. Ég benti meðal annars á þetta í erindi, sem ég hélt í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Þar sagði ég m.a. að auðsældin á Íslandi hafi byggst á röngum forsendum. Stjórnvöld héldu gengi krónunnar allt of háu, sem þýddi að verðlag var lægra en það hefði átt að vera í raun. Fjármagn var ódýrt, en það var blekking. Gamla fiskveiðiþjóðin stundaði ofveiðar á fjármagnsmörkuðum.  Þegar yfir lauk var fall krónunnar miklu þyngra högg fyrir samfélagið en fall bankanna.