Hringavitleysa í yfirlýsingum
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómi kröfu Róberts Wessman um 4,6 milljarða árangursþóknun vegna starfa sinna sem forstjóri Actavis. Niðurstaðan byggðist á að kröfugerð Róberts væri óskýr og því var ekki um efnisdóm að ræða. Af hálfu Róberts verður úrskurðinum áfrýjað til Hæstaréttar.
Fréttavefurinn Vísir.is var fyrstur með frétt af frávísuninni í gær. Þar kom jafnframt fram að félag í minni eigu, BeeTeeBee, hefur höfðað mál gegn Róbert Wessman vegna 1,2 milljarða skuldar og Actavis hefur höfðað mál gegn honum vegna 300 milljón króna skuldar. Síðar um daginn sagði Vísir svo frétt af því að Róbert hefði ákveðið að áfrýja frávísunarúrskurðinum til Hæstaréttar. Haft var eftir Árna Harðarsyni, lögmanni Róberts, sem reyndar flutti þetta mál ekki fyrir dómi og gegnir því fremur hlutverki talsmanns Róberts, að vont væri að missa þann tíma sem færi í áfrýjun úrskurðarins og hugsanlega nýja stefnu í málinu, „þar sem við óttumst að Novator, félag Björgólfs sem stefnt var í málinu, fari í þrot áður en við fáum efnisdóm.“
Síðar sama dag hélt Árni því fram í viðtali við Vísi að Róbert gæti gert upp allar sínar skuldir, fengi hann greidda þá fjármuni sem hann telur sig eiga inni hjá félögum mínum. Þar eru menn komnir í undarlegan hring, þ.e. að halda því fram að félag sé rétt að verða gjaldþrota, en ætla samt að sækja þangað allt það fé sem þarf til að greiða upp eigin skuldahít.
Löglærður talsmaður Róberts leyfir sér svo að halda því fram að ég hafi komið verðmætustu eign minni í Actavis „í skjól“ og að ég hafi „fært eignarhaldið til Tortóla í gegnum nokkur eignarhaldsfélög“. Ætti lögmanninum þó að vera ágætlega kunnugt um að fjárhagsleg endurskipulagning Actavis á síðasta ári var árangur vel heppnaðra samninga við alla kröfuhafa - þar á meðal Deutsche Bank, sem var þeirra stærstur.