Gerólík meðferð kallar á opinbera rannsókn

 „Sú gerólíka meðferð sem Straumur fékk annars vegar og VBS og Saga Capital hins vegar kallar á opinbera rannsókn,“ ritar Björn Jón Bragason, sagnfræðingur. Hann ritar einnig að mikil sé ábyrgð þeirra stjórnmálamanna og embættismanna sem seildust í vasa skattgreiðenda eftir tugum milljarða króna og létu renna til gjaldþrota fjármálastofnana á sama tíma og framsæknum, alþjóðlegum banka var neitað um fyrirgreiðslu vegna tímabundinna lausafjárerfiðleika og hann loks færður undir skilanefnd.

 

Björn Jón Bragason sagnfræðingur og laganemi ritar pistil á vef Pressunnar, þar sem hann vekur athygli á því hróplega ósamræmi sem var á milli þeirrar afgreiðslu sem VBS fjárfestingarbanki fékk annars vegar og Straumur-Burðarás hins vegar. Annars vegar var fjármálafyrirtæki, sem var með réttu komið í þrot, en hins vegar fyrirtæki sem átti í tímabundnum lausafjárvanda og gat sýnt skýrt fram á lausn hans innan tíðar, fengi það aðstoð til að komast yfir versta hjallann.

Björn Jón þekkir vel til mála, enda vann hann sagnfræðilega úttekt á falli Straums. Í pistli sínum á Pressunni rifjar Björn Jón upp að VBS hafi fengið 26,4 milljarða króna lán hjá ríkissjóði og Saga Capital 19,7 milljarða. Þá ritar hann: „Þessi lán voru veitt á afar hagstæðum kjörum eða til sjö ára með tveggja prósenta vöxtum á sama tíma og markaðsvextir voru um tólf prósent. Í ljósi hinna góðu kjara er ekki óvarlegt að tala um ríkisstyrk til viðkomandi fjármálastofnana. Vaxtamismuninn tekjufærðu bankarnir, en alls nam tekjufærslan rúmum sextán milljörðum króna. Við þetta varð eiginfjárstaða VBS skyndilega jákvæð og líf bankans framlengt, en aldrei var greitt af umræddu láni. Svo fór loks vorið 2010 að Fjármálaeftirlitið tók bankann yfir.“

Morgunblaðið vakti einnig athygli á þessum lánum til VBS og Saga Capital í frétt sl. laugardag og vísaði í þau ummæli fjármálaráðherra að með lánveitingunni hefði verið reynt að tryggja hagsmuni ríkisins með því að breyta kröfum þess í lán með veðum.

Í pistli sínum bendir Björn Jón á að auk þessara lána til VBS og Saga Capital hafi fimm litlir sparisjóðir með neikvætt eigið fé fengið eiginfjárframlag frá ríkissjóði vorið 2009. Um líkt leyti hafi Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hins vegar verið tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu og Straumur-Burðarás að auki. „Straumur glímdi við tímabundinn lausafjárskort, en eigið fé hinna bankanna var neikvætt.“

Harðasta úrræði beitt

Þá ritar Björn Jón: „Þar sem stjórnvöld neituðu að koma Straumi til bjargar töldu stjórnendur bankans skynsamlegast að óska eftir greiðslustöðvun. En í stað þess að leyfa bankanum að fara þá leið, sem hefði komið kröfuhöfum hans best ákváðu stjórnvöld að beita allra harðasta úrræði neyðarlaganna og færa bankann undir skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins. Sú ákvörðun var illa ígrunduð og tekin í skyndingu að því er virðist. William Fall, forstjóri Straums, taldi sér ekki sætt við þessar aðstæður, enda óvíst hvort ákvörðun stjórnvalda stæðist lög. William er nú einn af æðstu stjórnendum Royal Bank of Scotland.

Fall Straums hafði víðtækar afleiðingar fyrir íslenskt atvinnulíf. Til að mynda gerði yfirtaka ríkisins á bankanum úti um mikla endurreisnaráætlun bankans hér innanlands, sem nefnd var Project Phoenix. Áform voru uppi um að verja 500 milljónum evra til þessa verkefnis. Svein Harald Øygard, þáverandi seðlabankastjóri, hefur greint frá því í viðtali við undirritaðan að brotthvarf Straums sem banka í fullum rekstri hafi aukið á erfiðleika fjármálakerfisins og torveldað lausnir aðkallandi vandamála.“