Gamalt vín á gömlum belgjum

Viðskiptablaðið ritar að fátt sé um nýjar og bitastæðar upplýsingar í skýrslu Kroll frá 2006, en þá skýrslu gerði Kastljós RÚV að miklu umfjöllunarefni í síðustu viku. Viðskiptablaðið bendir réttilega á, að Kroll-nafnið eitt gefi slíkum fréttum vigt en segir jafnframt að skýrsla fyrirtækisins byggi að verulegu leyti á fréttum sem þegar höfðu birst í dagblöðum og tímaritum, staðfestum eða óstaðfestum.

 

Eins og ég hef þegar bent á var skýrsla Kroll, sem jafnan er nefnt „rannsóknarfyrirtæki“,   unnin að beiðni Barr Pharmaceuticals árið 2006, en þá börðust Barr og Actavis um lyfjafyrirtækið Pliva. Barr leitaði allra leiða til að fá fjárfestingarsjóði til liðs við sig, fremur en Actavis, og liður í því var samantekt á orðrómi og dylgjum, sem slúðrað hafði verið um í tengslum við bjórverksmiðju okkar félaga í Pétursborg. Viðskiptablaðið greinir frá þessum ummælum mínum og bætir við að „þótt áhugavert sé að lesa skýrsluna virðist staðreyndin þó vera sú að í henni sé fátt nýtt að finna sem ekki hefur komið fram áður.“ Sú staðreynd kom ekki í veg fyrir að Kastljós helgaði skýrslunni mikinn tíma.