Fulltrúi ríkisins með marga hatta

Í skýrslu siðanefndar  þar sem fjallað er um innbyrðis traust og vantraust er greint frá þeirri fullyrðingu Tryggva Þórs Herbertssonar að ég hafi verið alveg kaldur gagnvart hugmyndinni um að sameina banka síðla sumars 2008. Þar er ekki tekið tillit til þess að fulltrúi ríkisstjórnarinnar er með fleiri hatta en einn. Fram til 1.ágúst 2008 var hann forstjóri Aska Capital og þegar hann hittir mig á hann ennþá hagsmuna að gæta þar enda var fyrsta hugmynd hans á umræddum fundi að Landsbankinn ætti að taka yfir Aska Capital. Siðanefndin hefði getað horfti til þess í þessari umfjöllun að fulltrúi ríkisins var að ganga erinda annarra en ríkisins og að það var ekki vel til þess fallið að auka eða skapa traust.

 

Í kafla 1.4 um stefnumótun og smæð samfélagsins er í skýrslu siðanefndar fjallað um tengsl, traust og vantraust. Þar segir á bls. 105:

Aftur eru hugmyndir um mögulega sameiningu viðraðar í lok sumars og þá af Tryggva Þór Herbertssyni sem forsætisráðherra hafði falið verkefnið.Tryggvi ræddi við ýmsa, þar á meðal Björgólf Thor Björgólfsson, en hann er „alveg kaldur gagnvart þessari hugmynd“ og þá sá hann að þetta var vonlaust.

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Eins og fram hefur komið þá var þessi leið óraunhæf án aðkomu lánardrottna.

Öll ummæli Tryggvar Þórs Herbetssonar þarf að skoða í ljósi stöðu hans haustið. Fram til 1. ágúst 2008 hafði hann gegnt stöðu  forstjóra Aska Capital og síðar hefur komið í ljós að hann naut áfram hlunninda frá því fyrirtæki þegar hann starfaði í nafni forsætisráðherra og jafnframt átti hann mikilla hagsmuna að gæta vegna Askar. Sem dæmi má nefna að þegar hann kom á fund Björgólfs Thors til að ræða hvort hægt væri að sameina Landsbanka og Glitni og hafði til þeirra viðræðna að sjálfsögðu umboð frá ríkisstjórninni, byrjaði hann fundinn á því að stinga upp á að Landsbankinn tæki Askar Capital yfir. Hann nefndi líka margoft að ekki ætti að reyna að sameina Landsbankann og Straum, sem hafði verið skoðað ítarlega, heldur væri miklu nær að taka sænska fjárfestingarbankann Carnegie inn í þá jöfnu. Milestone, sem átti Askar Capital, var jafnframt stór hluthafi í Carnegie og hafði verið frá hausti 2007. Landsbankinn hafði hins vegar selt sinn hlut í þessum sama fjárfestingarbanka vorið 2005. Þetta varð til þess að Tryggva Þór Herbertssyni var ekki treyst þar sem hann virtist ganga erinda Milestone og Askar Capital.

Þegar Glitnir var fallinn, lýsti Tryggvi Þór Herbertsson því yfir við hvern sem heyra vildi, að Landsbankinn færi næstur. Tveir nafnkunnir einstaklingar höfðu þetta eftir honum í votta viðurvist. Á sama tíma sagði Tryggvi Þór á fundum með forsvarsmönnum Landsbankans að hann væri „þeirra maður“. Í kjölfar þessa fór Björgólfur Thor fram á það við forsætisráðherra, Geir H. Haarde, að hann fyndi einhvern annan til að fylgjast með þessum viðræðum. Guðlaugur Þ. Þórðarson, þáverandi heilbrigðisráðherra, fékk það hlutverk að einhverju leiti og talaði a.m.k. einu sinni við Björgólf Thor.