Frétt Telegraph kemur á óvart
Komið hefur fram í fréttum að sérstakur saksóknari á Íslandi er að rannsaka málefni tengd Landsbankanum, þar á meðal meinta markaðsmisnotkun, og fyrrum stjórnendur bankans hafa verið yfirheyrðir vegna þess. Það er varla nema eðlilegt að Special Fraud Office (SFO) í London styðji við þá rannsókn, ef frétt Telegraph í gær er rétt. Það kemur hins vegar á óvart, ef SFO telur eitthvað óupplýst um afdrif þeirra fjármuna, sem voru lagðir inn á Icesave-reikningana. Í athugun sem slitastjórn Landsbankans lét gera og DV hefur fjallað um kom fram að ekkert athugasvert er við ráðstöfun á innlánum bankans.
Fjármálaeftirlit Breta, FSA, var í nánu sambandi við stjórnendur Landsbankans sumarið 2008 og þar til bankinn féll um haustið og fylgdist náið með rekstri útibús bankans í London. FSA hefði ekki komist hjá því að koma auga á óeðlilega fjármagnsflutninga, hefðu þeir átt sér stað. Þá kannaði Rannsóknarnefnd Alþingis aðdraganda falls bankanna í þaula, en í skýrslu hennar eru ekki tilgreind nein dæmi um ólögmæta fjármagnsflutninga frá útibúinu í London eða dótturfélagi Landsbankans í Bretlandi, Heritable Bank. Í frétt á Vísi.is í dag kemur jafnframt fram, að millifærslur af Icesave-reikningunum hafi ekki verið sjálfstætt rannsóknarefni hjá embætti sérstaks saksóknara hér á landi.
Enn meiri furðu sætir þessi frétt Telegraph þegar haft er í huga, að þegar hefur verið upplýst hvert fé af Icesave-innlánsreikningum rann. DV greindi frá niðurstöðum rannsóknar slitastjórnar Landsbankans og Deloitte í London 25. febrúar sl. Það kom fram að ekkert benti til að „Icesave-peningarnir hafi verið notaðir í eitthvað misjafnt, til að mynda háar lánveitingar til eigenda Landsbankans eða þekktra, stórra viðskiptavina hans“. Blaðið vísaði í yfirlýsingu mína og föður míns frá 2009, í kjölfar frétta um að Icesave-fé hefði verið notað í frekari lánveitingar til stærstu eigenda bankans. Við bentum á, að stærsti hluti innlána okkar í Landsbanka væri eldri en Icesave-innlánin. Og DV staðfesti að þetta væri rétt, samkvæmt niðurstöðu rannsóknar slitastjórnar bankans og Deloitte. Blaðið klykkti út með að segja að „ekkert misjafnt, siðlaust eða ólöglegt, hefur fundist í athuguninni á því hvað varð um Icsave-fjármunina.“
Af einhverjum ástæðum fóru þessar upplýsingar ekki eins hátt og rangar upphrópanir um að fé af innlánsreikningum hefði runnið í vasa örfárra manna. Þar staðfestist enn, að sannleikurinn á erfitt uppdráttar.