Fræðileg gagnrýni óskast

Árni Páll Árnason,  efnahags- og viðskiptaráðherra, hélt ræðu á ársfundi Seðlabanka Íslands í síðustu viku. Þar gagnrýndi hann skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sagði: „Rannsóknarnefnd Alþingis stillti orsökum falls íslensku bankanna upp í 68 mismunandi atriðum án orsakasamhengis, án alþjóðlegs samanburðar og án greiningar á sögulegu samhengi.“ Pistlahöfundurinn Óðinn vekur sérstaka athygli á þessu í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins og lýsir þeirri von sinni að frumkvæði ráðherrans leiði til gagnrýninnar umræðu um skýrsluna. Eins og fram hefur komið hef ég hafið að birta athugasemdir mínar við skýrslu nefndarinnar. Vona ég að það framlag nýtist við slíka umræðu.

 

Óðinn skrifar að Árni Páll Árnason sé fyrstur stjórnmálamanna til að gagnrýna skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Svo ritar Óðinn:

„Nú er liðið ár síðan Rannsóknarnefndin kynnti skýrslu sína og þessi fyrsta tilraun til að ræða efni hennar á gagnrýnan hátt verður að teljast til nokkurra tíðinda, jafn mikilla tíðinda og æpandi þögn hins svokallaða fræðasamfélags um ýmsar umdeilanlegar ályktanir og kenningar skýrsluhöfunda. Óðinn átti von á að höfundar skýrslunnar yrðu krafðir skýringa, eins og tíðkast í háskólasamfélaginu, á því hvernig niðurstöðurnar væru fengnar, aðferðafræðin rædd (t.d. að yfirheyrslur hafi ekki verið opinberar og að andmælaréttur hafi verið takmarkaður, skýrslan er hvorki sambærileg við dómsúrskurð né ritrýnda fræðigrein) og að fræðimenn settu fram mismunandi tilgátur um þann mikla efnivið sem er að finna í skýrslunni. Fram til þessa hefur því miður verið unnið lítið úr þessum efnivið og fáir aðrir en skýrsluhöfundar tjáð sig um efni hennar. Gagnrýni Árna Páls markar hugsanlega tímamót í þessum efnum og ætti að verða fræðimönnum hvatning.“