Forseti Alþingis neitar birtingu

Forseti Alþingis hefur svarað erindi
mínu frá 12. apríl sl., þar sem ég óskaði eftir að athugasemdir mínar við
skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis yrðu birtar á undirvef Alþingis um
skýrsluna, www.rna.althingi.is.
Forseti hafnar þeirri ósk minni, með vísan í að aldrei hafi staðið til að birta
umræður eða athugasemdir um skýrsluna á vefslóðinni. Alþingi hefur þar með
ákveðið að leggja ekki sitt af mörkum til að tryggja upplýsta umræðu um
skýrsluna.

Ákvörðun forseta Alþingis veldur mér vonbrigðum, enda gekk mér það eitt til að leiðrétta villur, rangar ályktanir og hreinan uppspuna um ýmis mál, sem mér tengjast. Ég taldi þörf á að vekja sérstaka athygli á þeirri staðreynd að rannsóknarnefnd Alþingis, sem Alþingi fól að leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna og tengdra atburða, óskaði aldrei eftir að heyra mína hlið mála. Þrátt fyrir það vísar nefndin oft til orða annarra um mig og ályktar út frá þeim. Ég vonaðist einnig til að birting athugasemda minna á vef Alþingis yrði hvatning til annarra að setja fram ígrundaðar skoðanir á vinnu rannsóknarnefndarinnar og efni skýrslunnar.

Vefur Alþingis greinir frá starfi þingsins og þar koma fram allar umræður á þingi, þar er ekki eingöngu að finna lagafrumvörp heldur greinargerðir sem skýra efni laganna, forsendur þeirra  og tilgang og í greinargerðum með nefndarálitum fylgja gjarnan umsagnir þeirra sem málið snertir. Allt er þetta birt í þágu upplýstrar umræðu.  Hvað varðar þennan þátt í starfi Alþingis, þ.e. skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem Alþingi fól hið mikilvæga hlutverk að leita sannleikans, þá eru engar umræður, engin álit, engar umsagnir.             

Einstaklingarnir þrír, sem Alþingi skipaði í rannsóknarnefndina, ákváðu að þeir myndu ekki taka þátt í neinni umræðu um skýrsluna að lokinni kynningu hennar. Sú ákvörðun veldur því að enginn stígur fram fyrir skjöldu og axlar ábyrgð á efni skýrslunnar í almennri umræðu. Engar umræður kvikna, ekkert gagnsæi ríkir um vinnubrögðin og engra umsagna er leitað. Þegar haft er í huga, að fræðasamfélagið hefur sýnt skýrslunni tómlæti, þá þýðir þetta að hún verður aldrei grunnur að upplýstri umræðu og markar ekki nýtt upphaf.

Athugasemdir mínar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hafa nú allar verið birtar hér á vefnum, fyrir þá sem telja mikilvægt að leitinni að sannleiknum um fall íslensku bankanna og tengda atburði verði fram haldið.