Eyjumenn fara bankavillt
Fjölmiðlar sögðu ítarlegar fréttir í gær af rannsókn sérstaks saksóknara og Serious Fraud Office í London á málefnum sem tengjast Kaupþingi. Þar vakti sérstaka athygli mína, að sumir reyndu að tengja málið við Landsbankann.
Þegar fréttir bárust af ítarlegum rannsóknum og húsleit hjá fólki og fyrirtækjum í Lúxemborg, þá var ljóst að þar beindist öll athygli rannsakenda að Kaupþingi. Enda sagði sérstakur saksóknari sjálfur í yfirlýsingu, sem hann sendi frá sér: „Aðgerðirnar varða rannsóknir sérstaks saksóknara á málum er tengjast Kaupþingi banka.“
Skýrara gæti það ekki verið. Hvað varð þá til þess að Eyjan kaus að skreyta frétt sína af málinu með mynd af skilti Landsbankans? Og hvers vegna var því skotið inn í fréttina, að margir þeir sem áður störfuðu fyrir Landsbanka eða Kaupþing í Lúxemborg búi þar og starfi enn þann dag í dag? Kemur það frétt um rannsókn á Kaupþingi á einhvern hátt við, að fyrrum starfsmenn Landsbanka búi hugsanlega enn í Lúxemborg?
Eyjan sá sig að vísu um hönd og skipti um mynd þegar leið á daginn, enda hafði myndavalið vakið furðu. Athugasemdin um búsetu fyrrum starfsmanna Landsbankans stendur hins vegar enn. Hvað gengur Eyjunni til með „fréttaflutningi“ af þessu tagi?