Er opið samfélag það sama og leyfi til að bera út ósannindi?

Í sjónvarpsþættinum Sjálfstætt fólk nýverið óð þingmaðurinn Þór Saari á súðum og hikaði ekki við að bera út óhróður um mig án þess að halda til haga neinum staðreyndum eða bera fyrir sig áreiðanlegar eða gagnsæjar heimildir. Það hvarflaði að mér hvort barátta hans fyrir upplýstu og opnu samfélagi væri barátta fyrir því að fá að rægja menn útí bæ óáreittur. Ég hélt alltaf að krafan um gagnsæi væri m.a. krafa um umræðu sem byggði á trúverðugum og rekjanlegum heimildum.

 

Þingmaðurinn Þór Saari lét móðan mása um ýmis mál í þættinum Sjálfstætt fólk sunnudaginn 13. febrúar sl. á Stöð 2. Þingmaðurinn var ekki alltaf jafn vandur að virðingu sinni þegar hann varpaði fram fullyrðingum. Til að ljá slúðrinu sannindablæ vitnaði hann í háttsetta huldumenn, sem í næstu setningu voru reyndar orðnir að einum manni.

Í viðtalinu vék Þór Saari máli sínu að spillingu í stjórnmálum og sagði svo, orðrétt:

„Forsætisráðherra státar sig af því að Björgólfsfeðgar heimsæki hann stundum oft í viku ef þeir eru á Íslandi, eins og Geir Haarde gerði. Fyrir sko þremur árum hitti ég háttsetta breska menn í breska fjármálaráðuneytinu og þeir sögðu bara, við létum rannsaka þessa menn á sínum tíma, þegar að þeir keyptu Landsbankann og voru að setja upp útibú hér í Bretlandi. Og við vitum það að þeir voru bara í viðskiptum við vafasöm öfl í Rússlandi.

Og ég sagði að það hefði nú verið mikið talað um þetta hérna á Íslandi á sínum tíma en ekkert komið út úr því og hann sagði, það kom ekkert út úr því hjá ykkur af því að þið rannsökuð það ekki. Við einfaldlega skoðuðum málið.

Þannig að, þetta er svona, í öðrum löndum er þetta kallað bara gjörspilling, sko. En hér svona tipla menn svolítið á tánum í kringum þetta.“

Þingmaðurinn er ekki að tíunda staðreyndir, heldur slúðra um hluti sem hann telur líklega til vinsælda hjá kjósendum sínum. Hann ýkir verulega svör Geirs Haarde, sem hafði eitt sinn á orði að hann notaði gjarnan tækifærið og spjallaði við mig þegar ég væri á landinu. Það var raunar ekki oft. Faðir minn var búsettur hér á landi, en þrátt fyrir þá nánd var hann enginn heimagangur í forsætisráðuneytinu.

Þingmaðurinn dylgjar svo um einhverja rannsókn á vegum breska fjármálaráðuneytisins um viðskiptasögu okkar feðga. Hann lætur fyrst eins og hann hafi rætt við fleiri en einn mann í ráðuneytinu og báðir/allir voru þeir háttsettir. Síðar hefur hann svo ummæli eftir einum manni.

Það er full ástæða til að kalla eftir nánari upplýsingum frá þingmanninum, sem er í krossferð gegn spillingu og kallar á opið og upplýst samfélag. Sá sem kallar eftir Nýja Íslandi getur ekki leyft sér að varpa fram órökstuddu slúðri og rógi.

Þór Saari þarf að skýra mál sitt.