Enn unnið að uppsetningu

Rúmri viku eftir að búnaði í gagnaver Verne Global var skipað upp í Helguvík er enn unnið að því að koma honum fyrir í gagnaverinu á Ásbrú. Gagnaverið tekur til starfa í byrjun næsta árs. Víkurfréttir í Reykjanesbæ fylgjast að vanda vel með gangi mála, eins og fjölmiðillinn hefur gert frá upphafi.  Í gær var birt mynd á fréttavef blaðsins sem sýnir enn einn flutningabílinn flytja aðföng í gagnaverið.

Búnaður sá, sem nú er verið að koma fyrir í gagnaverinu, er frá breska framleiðandanum Colt.  Fyrirtækið heldur úti sérstakri vefsíðu um verkefnið. Þar er að finna upplýsingar um tækjabúnaðinn og  flutning hans til Íslands. Þá hefur fyrirtækið látið vinna nokkur stutt myndbönd, þar sem m.a. er varpað ljósi á hvers vegna Ísland er ákjósanlegur staður fyrir gagnaver og hvers vegna fyrirtæki hafa hug á að fjárfesta á Íslandi. Á vefsíðunni er einnig fjöldi ljósmynda, sem gefa ágæta innsýn inn í uppbyggingu gagnaversins.

Fjárfestingarfélag mitt, Novator, átti frumkvæði að stofnun eignarhaldsfélagsins Verne Holdings. Stærstu hluthafarnir nú eru vel þekktir erlendir fjárfestingarsjóðir, General Catalyst Partners og Wellcome Trust.