Enn talar Þór á Leiti

Þingmaðurinn Þór Saari heldur uppteknum hætti og varpar fram ósannindum og dylgjum í þeirri von að ganga í augun á kjósendum sínum. Gróusögur þingmannsins munu koma honum í koll, enda ljóst að kjósendur geta ekki tekið mark á þeim sem byggja afstöðu sína á slíkum grunni.

Andstæðingar Icesave-samningsins, sem þjóðin kýs um 9. apríl nk, hafa sett myndband á netið þar sem níu manns tíunda rök sín gegn samningnum. Einn þessara níumenninga er þingmaðurinn Þór Saari. Hann byrjar svar sitt á að segja að honum þyki fráleitt að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almenning í landinu. Svo bætir þingmaðurinn við:

„Þetta er ekki byrði sem almenningur á að bera, ég tala nú ekki um í svona tilfelli, þar sem Landsbankinn var sennilega rekinn sem einhvers konar glæpafyrirtæki og Björgólfsfeðgar eiga einfaldlega að borga þetta.“

Háttvirtur þingmaðurinn telur sig greinilega ekki þurfa að færa rök fyrir máli sínu, þegar hann sakar menn um glæpi. Í þessu tilviki er ljóst, að þingmaðurinn telur mig og föður minn hafa notið ávaxtanna af „einhvers konar glæpafyrirtæki“ og í þeim orðum hans að við eigum „einfaldlega að borga þetta“ felst auðvitað að við berum ábyrgð á þessum meintu glæpum.

Ærumeiðandi fullyrðingar af þessu tagi eru engum sæmandi og það kemur sérstaklega á óvart að þær séu ættaðar frá manni, sem situr á Alþingi Íslendinga. Þór Saari kærir sig hins vegar kollóttan og dreifir óstaðfestum gróusögum og rakalausum fullyrðingum að vild, eins og áður hefur verið sagt frá á þessari síðu. Með endalausum upphrópunum og rangfærslum gerir þingmaðurinn sig hins vegar smám saman ómarktækan með öllu.