Enginn reiðari Björgólfi Thor en ég sjálfur

Í síðustu viku birti danska viðskiptablaðið Börsen við mig viðtal sem var tekið í tengslum við erindi sem ég hélt á ráðstefnu í Kaupmannhöfn miðvikudaginn 7.september á vegum Börsen og Norrænu ráðherranefndarinnar. Í viðtalinu kemur blaðamaðurinn víða við og svara ég spurningum hans eftir föngum. Aðspurður svara ég því m.a. að mér er vel ljóst að margir eru reiðir útí mig á Íslandi vegna aðildar minnar að bankaþenslunni og hruninu en þó er enginn reiðari Björgólfi Thor en ég sjálfur.

Í viðtalinu kemur m.a. fram að í aðdraganda hrunsins hafi nær allir gert sér grein fyrir veikleikunum í íslenska fjármálakerfinu í ljósi þeirra aðstaðna sem voru á alþjóðamörkuðum en hins vegar hafi flestir talið varnirnar öflugri en þær reyndust vera. Einnig kemur fram að ég er í mörgum meginatriðum sammála niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar þó svo ég gagnrýni hana fyrir ýmsa þætti hennar þar sem ég veit betur. Ég er sammála skýrslunni um að bankarnir lánuðu fámennum hópi á Íslandi of háar fjárhæðir. Ég segi í viðtalinu að ég hafi á sínum tíma haft grun um að áhættan af últánum væri samþjöppuð en að ég hafi alls ekki gert mér grein fyrir því hversu samþjöppuð hún var. Þá kemur fram í viðtalinu gagnrýni mín á feril einkavæðingar bankanna þar sem ég held því fram að ekki hafi átt að einkavæða Landsbankann og Búnaðarbankann samtímis og þá áttu stjórnvöld að gera hærri kröfur um eigið fé í viðskiptunum til að tryggja fjársterkari kaupendur. Einnig tala ég um sýndarviðskiptin sem stunduð voru þegar íslenskir aðilar með fullar hendur lánsfjár keyptu hver af öðrum á tilbúnu verði til að búa til gerfihagnað. Þá fjallar blaðið um skuldauppgjör mitt þar sem ég held því til haga að þrátt fyrir miklar skuldar mínar og minna félaga þá hafi ég átt eignir á móti. Hægt er að lesa viðtalið í Börsen hér.