Endurvinnsla á rangfærslum

DV hefur lengi lagt stund á endurvinnslu frétta. Þegar blaðinu þykir spekin sem frá því streymir ekki hafa fengið nægilega athygli bíður það í nokkrar vikur eða mánuði, en birtir svo allt aftur – nema leiðréttingar sem áður voru komnar fram. Vegna fréttar í DV í dag vil ég enn og aftur ítreka það sem áður hefur komið fram að félög eða fyrirtæki mín tóku hvorki fyrr né síðar stöðu gegn íslensku krónunni.

 

Í dag ritar DV um sama málefni og í október á síðasta ári, þ.e. meinta stöðutöku bæði Landsbankans og helstu eigenda hans gegn íslensku krónunni. Þá var rangfærslum blaðsins svarað en það kom ekki í veg fyrir að blaðið endurtæki þær núna. Í fréttinni í dag ægir öllu saman og úr verður undarlegur grautur, enda er þrautin þyngri fyrir blaðið að sneiða sífellt framhjá staðreyndum. Hér er því rétt að rifja þær upp:

Félög eða fyrirtæki mín tóku hvorki fyrr né síðar stöðu gegn íslensku krónunni. Ýmis félög sem tengjast mér hafa lengi staðið í viðskiptum með gjaldeyri – bæði keypt og selt og þ.m.t. íslenskar krónur. Þau viðskipti hafa þjónað þeim tilgangi að mæta áhættu sem fylgir fjárfestingum í öðrum gjaldmiðlum en fyrirtækin kjósa helst að vinna með.  Þannig byggðu félög tengd mér eða Novator upp umtalsverða gengisvörn, einkum á árunum 2005 og 2006, til að verja eignir sínar á Íslandi gegn mögulegri lækkun krónunnar.  Á þessum tíma veiktist hins vegar gjaldmiðillinn ekki, heldur þvert á móti styrktist, og er því ljóst að umrædd viðskipti höfðu ekki áhrif til lækkunar krónunnar.

Á þeim tíma sem krónan veiktist sem mest, sér í lagi á árinu 2008, seldu félög tengd mér og Novator ekki krónur heldur þvert á móti keyptu þær og drógu úr umfangi áhættuvarna sinna.  Þetta sést með skýrum hætti á þessari mynd:

ISK-vidskipti-2007-2008

Af þessu ætti öllum – nema DV – að vera ljóst að gjaldeyrisviðskipti félaga sem tengjast mér voru alls ekki áhrifavaldar í gengisfalli krónunnar á árinu 2008.

Hvað Landsbankann varðar er rétt að benda á að bankinn veðjaði í raun á styrkingu krónunnar. Bankinn keypti krónur og veitti gjaldeyri út á markaðinn, svo ráðgjöf bankans var í samræmi við aðgerðir hans sjálfs. Ég og helstu samstarfsmenn mínir lýstum hins vegar þeirri skoðun okkar opinberlega að krónan myndi veikjast. Sú staðreynd, að þarna greindi á um veigamikið atriði, sýnir enn og aftur að ég réði ekki stefnu Landsbankans, eins og DV hefur ítrekað reynt að halda fram þrátt fyrir ótal sannanir fyrir hinu gagnstæða.

Þrátt fyrir að DV virðist hafa mikinn áhuga á stöðutöku gegn krónunni lætur blaðið undir höfuð leggjast að tilgreina hverjir það voru í raun, sem töldu sér sæmandi að ráðast af fullri hörku gegn krónunni. Það er rétt að rifja það upp, fyrir þá sem vilja fremur staðreyndir en DV-fréttir. Rannsóknarnefnd Alþingis kannaði gjaldeyrisviðskipti í aðdraganda hrunsins í þaula og fjallar um þau í 4. bindi, 13. kafla. Þar kemur fram að Kaupþing, helstu eigendur og stærstu viðskiptavinir bankans bera ábyrgð á hruni krónunnar. Í niðurstöðum sínum kemst rannsóknarnefndin svo að orði:

„Það vakti athygli rannsóknarnefndarinnar að á því tæpa tveggja ára tímabili sem hér var til skoðunar var Kaupþing stór nettó kaupandi gjaldeyris á millibankamarkaði á meðan Landsbanki Íslands veitti miklu magni gjaldeyris út á markaðinn. Eins og fram kemur í kaflanum var Kaupþing ekki eingöngu að kaupa fyrir eigin reikning heldur einnig í miklum mæli fyrir hönd stærstu viðskiptavina sinna.           

Frá því í nóvember 2007 og fram í janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meirihluti þess gjaldeyris var keyptur af Kaupþingi. Þetta vekur óneitanlega athygli sérstaklega í ljósi þess að viðskiptin voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja.“

Á meðan Landsbanki Íslands veitti miklu magni gjaldeyris út á markaðinn,“ segir rannsóknarnefndin í skýrslu sinni, þótt DV telji sig vita betur. Hér er einnig rétt að rifja upp ummæli Sturlu Pálssonar, forstöðumanns alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands, í yfirheyrslum fyrir rannsóknarnefndinni. Seðlabankinn hafði óskað eftir því við Fjármálaeftirlitið að það kannaði hegðun Kaupþings í gjaldeyrisviðskiptum, þ.e. mjög mikil kaup á gjaldeyri.  Sturla dró ekkert undan í lýsingununum:

 „Þeir ryksuguðu gjaldeyrismarkaðinn og svo þegar þeir eru búnir að því þá hætta þeir að kvóta inn á swap-markaðinn sem gerir það að verkum að í mars 2008 bara hrynur krónan og við stóðum náttúrulega algjörlega ráðþrota í málinu því að þegar þetta gerist fara CDS-in á bankann upp og það eru komnar alls konar áhyggjur af þeim þannig að erlendir aðilar sem eiga krónur þeir bara fara í panik að selja.“

Aðgerðir Kaupþings urðu sem sagt til þess að „í mars 2008 bara hrynur krónan“.

Loks er rétt að benda á, að Sigurjón Þ. Árnason viðraði áhyggjur sínar af þessari hegðan Kaupþings á fundi með bankastjórn Seðlabanka Íslands í mars 2008. Hann taldi Kaupþing hafa „sogað til sín allan gjaldeyri“ mánuðina á undan og að Kaupþing væri að búa til eigið fé en eyðileggja íslensku krónuna og markaði í leiðinni. Sjá nánar í 6. bindi rannsóknarskýrslunnar, bls. 147.

Þótt ekki standi steinn yfir steini í umfjöllun DV má fastlega búast við að rangfærslurnar birtist enn og aftur á síðum blaðsins að nokkrum vikum eða mánuðum liðnum. Þá verður réttum upplýsingum að sjálfsögðu komið á framfæri hér enn á ný.