Endurteknar rangfærslur og skrítnar ályktanir
Danskur sérfærðingur Jørn Astrup Hansen, skrifar viðauka við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar endurtekur hann rangfærslur um að Samson hafi fengið lán í Landsbankanum í september 2008 þegar lánið hafði verið veitt Eimskip mörgum árum áður en þarna voru eigendur Samson að ganga í ábyrgð fyrir láni þar sem eldri ábyrgðir dugðu ekki lengur. Þá dregur sérfræðingurinn undarlega ályktun um að fall aðeins eins félags undir minni stjórn eða föður míns hefði „…örugglega dregið ekki aðeins Landsbankann heldur einnig Glitnir með í fallinu.“ Erfitt er að átta sig á þessum fullyrðingum því þær eru órökstuddar. Það blasir t.d. við að erfitt er að sjá hvernig fall félags á borð við Nova – sem var á mínu forræði, eða fall Árvakurs, sem var á forræði föður míns, hefðu bæði fellt Landsbankann og Glitni.
Jørn Astrup Hansen, segir í Viðauka 7 sem birtur er með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eftirfarandi á bls. 306:
Í apríl 2008 var það mat Camels rating að útlán Landsbankans til tengdra aðila hafi numið 11,3% af öllum útlánum og andvirði 84,8% af áhættugrunni bankans (CAD). Tölurnar eru mun hærri en þær tölur sem Landsbankinn gaf sjálfur upp í hálfsársuppgjöri 2008. Camels bendir sérstaklega á mjög stór útlán til Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar. Í september 2008 brast stíflan. 5. september 2008 veitti stjórn Landsbankans Samson eignarhaldsfélagi ehf. lán sem nam hvorki meira né minna en 168 milljónum sterlingspunda.
Og ennfremur segir Hansen á bls. 316:
Á sama hátt voru skuldbindingar Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og félaga undir stjórn þeirra feðga orðnar það miklar að fall aðeins eins þeirra hefði örugglega dregið ekki aðeins Landsbankann heldur einnig Glitni með í fallinu.
Athugasemdir við skrif J.A. Hansen eru eftirfarandi:
Enn á ný er endurteknar rangfærslur um að Samson eignarhaldsfélagi ehf. hafi fengið lán í september 2008. Hið rétta er að bankinn hafði lánað þessa fjármuni fáeinum árum fyrr til Eimskips sem þegar þarna var komið við sögu átti í miklum erfiðleikum. Í september ganga eigendur Samson í ábyrgð fyrir láninu til Eimskips og bættu þar með stöðu bankans. Eigendur Samson áttu mikilla hagsmuna að gæta í Eimskip og í Landsbankanum og því tóku þeir á sig auknar ábyrgðir. Það er fjarri öllum sannleika sem gefið er í skyn að þeir hafi á þessum tíma verið að fá lánsfé út úr Landsbankanum.
Þá dregur danski hagfræðingurinn J. A. Hansen hér undarlega ályktun, sérstaklega í ljósi þess að við útgáfu skýrslunnar var fyrir löngu ljóst að hagur Björgólfs Thors, Björgólfs Guðmundssonar, félaga í þeirra eigu og tengdum þeim var alls ekki svo samofinn að fall eins leiddi af sér fall annarra.
Rétt er að skuldbindingar Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og félaga tengdum þeim voru miklar. Af þeirri staðreynd einni getur hagfræðingurinn danski ekki dregið þá ályktun að fall „aðeins eins þeirra“ hefði „örugglega“ dregið Landsbankann og Glitni með sér í fallinu.
Í fyrsta lagi horfir hann fram hjá eignum sem standa á bak við skuldir. Hugsanlegt fall þessara einstaklinga hefði ekki haft áhrif á undirliggjandi eignir. Persónulegt gjaldþrot Björgólfs Guðmundssonar hafði engin fjárhagsleg áhrif á þau rekstrarfélög sem hann eða eignarhaldsfélög honum tengd voru hluthafar í.
Í öðru lagi voru Björgólfur og Björgólfur Thor aðeins tengdir viðskiptaböndum í gegnum Samson og Samson Global Holding en að auki átti hvor um sig miklar eignir í öðrum félögum sem ekki tengdust á neinn þann hátt að fall „eins þeirra“ myndi leiða til bankahruns á Íslandi.
Í þriðja lagi er síðan rétt að benda á að orðalag í fylgiskjalinu er ónákvæmt þegar talað er um að fall „aðeins eins þeirra“ gæti leitt til hruns Landsbankans og Glitnis. Þau orð má skilja á þann veg að fall eins félags t.d. í eigu Björgólfs Thors hefði getað sett af stað þá atburðarás sem hér er lýst. Þessu fer víðs fjarri. Á þessum tíma hefðu ýmis félög í eigu Björgólfs Thors getað fallið án þess að það hefði nokkur áhrif á Björgólf Guðmundsson, Landsbankann og hvað þá Glitni.