Endurtekið efni

Bloggarinn Lára Hanna tekur saman nokkur sjónvarpsviðtöl við mig og birtir á vef sínum með afar einhliða skýringum og endurteknum staðlausum óhróðri um mig. Talsmaður minn, Ragnhildur Sverrisdóttir, svaraði þessu endurtekna efni bloggarans á vefsíðu hansog segir m.a.: “ Ósannaðar fullyrðingar geta aldrei orðið ævarandi blettur á mannorði þeirra sem þurfa að sitja undir þeim. Þær segja meira um þá sem slengja þeim fram.“

 

Svar Ragnhildar Sverrisdóttur er svohljóðandi:

 

Ágæta Lára Hanna.

Ég fæ ekki séð að þessi upprifjun þín á áður birtum pistli bæti nokkru nýju við, nema fleiri óstaðfestum dylgjum og heldur ógnvekjandi upphrópunum. Mér finnst þú a.m.k. fara offari þegar þú býsnast yfir að Björgólfur Thor gangi óáreittur um götur borgarinnar og tel mig raunar vita að þú sért ekki að kalla eftir samfélagi þar sem menn þurfa að óttast um öryggi sitt þótt aðrir séu ósáttir við þá af einhverjum ástæðum. 

Margt fróðlegt hefur þú ritað og kallað eftir nánari og vandaðri umfjöllun fjölmiðla. Undir það get ég tekið. En um leið verður að gera þá kröfu til þín að þú temjir þér sjálf þau vönduðu vinnubrögð sem þú kallar eftir, en dragir ekki ályktanir af ályktunum annarra. Niðurstaðan verður þá ansi oft víðsfjarri sannleikanum. Þú vísar til dæmis í ummæli ónafngreinds „heimildarmanns fréttastofu“ um að „umtalsverður hluti innlána af Icesave-reikningum Landsbankans hafi farið í lánveitingar til félaga sem tengjast fyrrum eigendum Landsbankans“. Og í tilefni af þessum ósönnuðu ummælum ónafngreinds manns  spyrð þú hvort ekki sé „rétt að álykta að það fé sem Björgólfur Thor er að braska með bæði hér á landi og erlendis í dag sé að minnsta kosti að hluta til sú skuld sem hefur klofið þjóðina í herðar niður og deilt er harkalega um?“ Grunnur þessarar ályktunar þinnar er auðvitað mjög veikur, það hlýtur þér að vera ljóst. 

Það er rétt, að á sínum tíma svaraði ég ekki athugasemd þinni við athugasemd mína, enda hefði ég þá farið að endurtaka mig, sjálfsagt öllum til ama sem hingað rata inn. Fyrst þú kallar eftir því, þá er það hins vegar alveg sjálfsagt. Ég neita því enn og aftur að Björgólfur Thor beri „fulla ábyrgð á Icesave“, eins og þú orðar það. Allt frá hruni hefur ítrekað komið fram, að Björgólfur Thor tók ekki ákvarðanir um rekstur bankans, á borð við hvar leitað var fanga með innlán og sannarlega beitti hann sér ekki fyrir gríðarlegum útlánum til t.d. Baugs, svo eitt dæmi sé nefnt. En fyrst þú nefnir ábyrgð hans, þá er rétt að ítreka að hann hefur sjálfur viðurkennt ábyrgð sína á þætti sínum í skulda- og eignabólunni sem leiddi til hruns íslenska bankakerfisins og beðist afsökunar á að hafa ekki lánast að grípa í taumana þegar færi gafst. Hann hefur líka viðurkennt, að hann hefði betur beint lántökum sínum í ríkari mæli til erlendra banka, sem voru raunar helstu lánardrottnar hans. Hins vegar hefur hann nú gert upp allar skuldir sínar og félaga í sinni eigu við Landsbankann. Það uppgjör styrkir að sjálfsögðu bankann, enda var sérstaklega sagt af því í fréttum hve mikið heimtur bankans hefðu aukist við það uppgjör. Ætli ábyrgð á stöðu Landsbankans hvíli ekki fremur hjá þeim sem tóku þar milljarðalán sem þeir voru aldrei borgunarmenn fyrir?

Enn nefnir þú meint tengsl við rússneska glæpamenn. Ég er alls ekki „feimin“ við að ræða þau mál, sem ég kalla réttilega „sögusagnir um glæpsamlegt athæfi“ því auðvitað er þetta ekkert annað. Sjálf viðurkennir þú að ekkert sé sannað í þessum efnum, en um leið kallar þú eftir að dylgjurnar séu afsannaðar. Það er ekkert annað en gamalkunna rógsaðferðin „Let the bastards deny it“. Ósannaðar fullyrðingar geta aldrei orðið ævarandi blettur á mannorði þeirra sem þurfa að sitja undir þeim. Þær segja meira um þá sem slengja þeim fram.

Hið sama gildir þegar þú nefndir gagnaver Verne. Þar kallar þú eftir því að ég sýni fram á að aðrir eigendur séu ekki leppar Björgólfs Thors eða Novators. Aftur er sömu aðferðinni beitt, „let the bastards deny it“. Hefur þú einhverjar þær upplýsingar í höndum sem réttlæta þessar dylgjur?

Allt frá hruni hafa sömu staðhæfingarnar verið endurteknar æ ofan í æ. Margar þeirra eru alrangar, en leiðréttingar virðist þó seint ætla að ná fram að ganga. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að við hættum að reyna að koma þeim leiðréttingum á framfæri. 

Með góðum kveðjum,

Ragnhildur Sverrisdóttir