Ekki skuldajafnað milli óskyldra aðila

Fréttatíminn greinir í dag frá dómsmáli sem félag í minni eigu, BeeTeeBee Ltd., höfðaði gegn Róberti Wessman til innheimtu skuldar. Í fréttinni er sagt að Róbert líti svo á að gengið hafi verið frá láninu með skuldajöfnun gegn kröfu Róbert í öðru máli. Þetta er rangt. Engin skuldajöfnun hefur átt sér stað og stendur ekki til.

Um tvö dómsmál er að ræða. Annars vegar höfðaði BeeTeeBee Ltd. mál gegn Róberti Wessman til innheimtu á tæplega 1,2 milljarða skuld samkvæmt lánasamningi frá 2005. Lánið rann til félags í eigu Róberts, Burlington Worldwide Ltd. Róbert var ábyrgur fyrir láninu og þegar árangurslaust reyndist að innheimta skuldina hjá félaginu var nauðsynlegt að höfða mál á hendur honum. Það mál var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í september í fyrra og bíður þar úrlausnar dómara.

Hitt málið snýst um málshöfðun Róberts Wessman á hendur tveimur félögum, Novator Pharma S.à.r.l. og Novator Pharma Holding. Róbert krefst þar greiðslu á 4,6 milljarða árangursþóknun, sem hann telur sig eiga rétt á frá því að hann var forstjóri Actavis. Það mál var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í október á síðasta ári og bíður þar úrlausnar dómara.

Þessi mál verða útkljáð fyrir dómstólum. Flestum ætti að vera ljóst, að ekki kemur til álita að skuldajafna kröfum í málunum. Um er að ræða óskyld mál sem eru auk þess á milli ólíkra aðila. Frumskilyrði skuldajöfnunar er að kröfur séu á milli  sömu aðila, að þær séu sambærilegar og báðar gildar. Þessi skilyrði eiga ekki við.