Ekki lesið rétt úr fundargerðum

Þegar rannsóknarskýrslu Alþingis greinir frá 180 milljóna evru lánveitingu Straums vegna kaupa minna á Actavis Group sumarið 2007 eru nefndarmenn ekki að lesa fundargerðir lána- og fjárfestinganefndar bankans rétt. Hið rétta er að bankinn fjárfestir fyrir 80 milljónir evra en lánar sem nemur 100 milljónum evra.

 

Í kafla 8.12.3.4. í skýrslu rannsóknarnefndar á bls 217-218 segir:

Sumarið 2007 kemur þó til stór lánveiting vegna kaupa Björgólfs á Actavis Group eða alls um 16,3 milljarðar króna (180 milljónir evra). Þetta lán var jafnframt stærsta stóra áhættuskuldbinding Straums. Meðfylgjandi er úr fundargerð lánanefndar Straums frá 16. ágúst 2007:

„Lána- og fjárfestingarnefnd hefur samþykkt að taka þátt sem nemur 180 millj. EUR af heildarfjárhæð 1,2 milljarða EUR víkjandi láni með uppsöfnuðum vöxtum í tengslum við yfirtöku Novator Pharma Holding 1 hf. á Actavis Group hf. Skilmálum og kjörum er lýst í lánarnefndarkynningu.

Samkvæmt 24. grein alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna IAS telst lánið lán til venslaðra aðila vegna tengsla Björgólfs Thors við lántakann og lánveitandann.“

Lánið var eingreiðslulán til 11 ára með 15% vöxtum sem greiðast áttu uppsafnaðir á lokagjalddaga. Í febrúar 2008 voru gerðar skilmálabreytingar þannig að sá hluti sem var með uppsöfnuðum vöxtum (PIK lán) var lækkaður en millilagslán var hækkað í staðinn. Á fylgiblaði kemur fram að rekstraráætlun er talin vera óraunsæ (e. aggressive) og ólíklegt að hægt verði að endurgreiða lánið á gjalddaga miðað við það, sjá fundargerð frá 4. febrúar 2008:

„Þann 27. ágúst 2007 lauk fjárfestingarfélag Björgólfs Thors, Novator, yfirtöku á Actavis Group, skráðu íslensku lyfjafyrirtæki með markaðsverðmætið 3 milljarðar EUR. Í fyrstu var ætlunin að fjármagna 5,6 milljarða EUR yfirtökuna með 4,5 milljarða EUR lánapakka (að meðtöldu víkjandi láni með uppsöfnuðum vöxtum), sem svarar til 10,7 x EBITDA skuldsetningar og 19,9% eiginfjárhlutfalls, byggt á áætluðum hagnaði fyrir afskriftir og skatta 2007 að fjárhæð 420,1 millj. EUR. Á þeim tíma tók Straumur þátt í víkjandi láni sem nemur 100 millj. EUR gegn 1,5% fyrirframgreiddri þóknun. Restin af fjármögnuninni var í höndum Deutsche Bank og Landsbanka.Vegna núverandi markaðsaðstæðna hefur ekki tekist að selja lánið eins og gert var ráð fyrir. Þess vegna hafa lánveitendur ákveðið að endurskoða lánastrúktúrinn og verðlagningu í þeirri von að gera lánið meira aðlaðandi fyrir fjárfesta. Meginmunurinn á milli nýja strúktúrsins og þess fyrri eru minnkandi hlutföll af víkjandi láni og láni á öðrum veðrétti, og hefur þeim verið skipt út fyrir millilagslán.Vaxtaálag hefur auk þess verið hækkað á öllum lánum.“

Athugasemdir við þennan kafla eru þessar:

Það er ekki rétt að Straumur hafi lánað 180 milljónir evra. Rannsóknarnefndar Alþingis les ekki rétt úr upplýsingum í fundargerðum lána- og fjárfestinganefndar Straums.  Í fyrri tilvitnun úr fundargerð segir: „Lána- og fjárfestinganefnd hefur samþykkt að taka þátt sem nemur 180 millj. EUR …“ Þetta þýðir ekki að Straumur hafi lánaði 180 milljónir evra því eins og fram kemur réttilega í síðari tilvitnuninni þá er lánsfjárhæðin 100 milljónir evra og að auki ákvað fjárfestingarbankinn að fjárfesta í félaginu fyrir aðrar 80 milljónir evra og stjórnendur bankans tóku báðar þessar ákvarðanir án nokkurrar aðkomu Björgólfs Thors að málinu.

Straumur var fyrir yfirtöku Novators á Actavis einn af stærri hluthöfum í félaginu og fékk greiddar um 160 milljónir evra fyrir sinn hlut við yfirtöku. Þetta staðfesta gögn Straums og fyrrum starfsmenn ef eftir því verður leitað. Straumur kom ekkert við sögu í endurfjármögnun hlutafjáraukningar í Actavis árið 2008.