Eitt skipti eða tvö verða „iðulega“ í höndum rannsóknarnefndar

Samson-hópurinn gat þess í einu bréfi til Framkvæmdanefndar um einkavæðingu á árinu 2002 að eigendur félagsins hefðu reynslu af viðskiptum á alþjóðavettvangi m.a. við sölu á bjórverksmiðju í Rússlandi til Heiniken International og við einkavæðingu á lyfjaverksmiðjum í Búlgaríu. Þá er vísað til þessarar sömu reynslu í svari við fyrirspurn Framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Í meðförum rannsóknarnefndar Alþingis er sagt að „iðulega (sé) skírskotað“ til þessarar reynslu. Þettu heita ýkjur og ónákvæmni sem eiga væntanlega að þjóna niðurstöðu nefndarinnar. Þá vísar rannsóknarnefndin aðeins til reynslu af bjórverksmiðju en ekki til viðskipta tengdum alþjóðlegu lyfjafyrirtæki sem var ekki síður mikilvæg.

Í 1. bindi, 6. kafla um einkavæðingu og eignarhald stóru bankanna þriggja segir í undirkafla  6.3.6.1. – Áhersla á þýðingu „erlends fjár“ í samningaviðræðum, á bls.  271:

Í bréfaskiptum Samson-hópsins við FnE [Framkvæmdanefnd um einkavæðingu, innsk.] og önnur stjórnvöld vegna söluferlisins á Landsbankanum var iðulega skírskotað til upplýsinga um umsvif hópsins í viðskiptum erlendis, nánar tiltekið í tengslum við eignarhald og rekstur þeirra á bjórverksmiðjunni Bravo í Rússlandi og sölu þeirrar verksmiðju árið 2002 til stórfyrirtækisins Heineken. Í fyrsta bréfi hópsins til FnE, dags. 27. júní 2002, var t.a.m. sérstaklega skírskotað til þess að hópurinn hefði aflað sér mikillar reynslu í viðskiptum og var um það m.a. vísað til „[uppbyggingar] á bjórverksmiðjunni Bravo í Rússlandi“. Eftir að hugsanlegum viðsemjendum um Landsbankann hafði verið fækkað í þrjá afhenti FnE eftirstandandi bjóðendum samhljóða bréf, dags. 28. ágúst 2002, með spurningum sem lutu að þeim viðmiðum sem stjórnvöld gerðu þá ráð fyrir að leggja til grundvallar við söluna, sbr. umfjöllun hér að framan. Í svari Samsonar, dags. 2. september s.á., var komist svo að orði varðandi fjármögnun kaupverðsins að „heildarsamningurinn“ við sölu á eign þeirra í Rússlandi hefði verið „metinn á“ 400 milljónir bandaríkjadala, sbr. nánari tilvitnun hér til hliðar. Fyrir liggur einnig tölvubréf, dags. 6. september 2002, frá þeim forstöðumanni HSBC sem stýrði ráðgjöf bankans fyrir íslensk yfirvöld, Edward Williams, til starfsmanns FnE þar sem Williams lýsir samtali sem hann átti við Björgólf Thor Björgólfsson um tilboð Samsonar. Samtalið virðist hafa verið liður í athugun HSBC á bjóðendum í bankann.Williams hefur eftir Björgólfi þær upplýsingar varðandi fjármögnun sem vitnað er til hér til hliðar, þ. á m. að hann, en þar er væntanlega átt við Samson-hópinn, gæti fjármagnað kaupin alfarið með eigin fé en kysi að gera það ekki vegna þess að það minnkaði ávöxtun af fjárfestingunni.

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Þegar rannsóknarnefnd Alþingis segir að í bréfaskiptum Samson við Framkvæmdanefnd um einkavæðingu (FnE) hafi „iðulega (verið) skírskotið til upplýsinga um umsvif hópsins í viðskiptum erlendis“ vísar hún til tveggja tilvísana og þar af er hin síðari svar við spurningum FnE. Erfitt er að skilja af hverju eingöngu tvö skipti í fjölda bréfa verða „iðulega“ í rannsóknarvinnu nefndarinnar.  Í fyrsta bréfi Samson til FnE segir: „Kjölfestufjárfestir hefur aflað sér mikillar reynslu í viðskiptum, bæði í gegnum uppbyggingu á bjórverksmiðjunni Bravo í Rússlandi og með því að vera leiðandi aðili í samruna Pharmaco hf. við búlgarska lyfjarisannn Balkanpharma. Í tengslum við áðurgreinda starfsemi sína hefur kjölfestufjárfestir staðist áreiðanleikakönnun hjá International Finance Corporation, sem er hluti Alþjóðabankans í Washington DC., Deutsche Bank, European Bank of Research and Development (EBRD), Capital Research & Management, sem er stærsta sjóðastýringafyrirtæki heims og verðbréfafyrirtækið Merrill Lynch. Kjölfestufjárfestir hefur því góð tengsl við hið alþjóðlega fjármálahagkerfi.“  Hér má lesa um aðdraganda þess að bréfið var sent og bréfið í heild sinni. Ekki er ljóst af hverju rannsóknarnefnd Alþingis sér ástæðu til að draga aðeins fram í skýrslu reynslu Björgólfs Thors og félaga að uppbyggingu bjórverksmiðju þegar fjallað er um reynslu af alþjóðlegum viðskiptum. Varðandi fjármögnun kaupanna þá lá það alltaf ljóst fyrir að eigendur Samsonar gátu fjármagnað kaupin á hlut ríkisins í Landsbanka Íslands alfarið með eigin fé. Annað mál var að þeir höfðu takmarkaðan áhuga á að binda svo mikinn hluta af sínu fé í einni fjárfestingu og þeirri afstöðu sinni héldu þeir alls ekki leyndri fyrir seljendum, þ.e. íslenska ríkinu, og tilgreindu um fyrirhugaða lánsfjármögnun strax í upphafi viðræðna.

Ennfremur segir í þessum kafla skýrslunnar á bls. 272:

Samkvæmt framangreindu var á ýmsum stigum söluferlisins beint eða óbeint skírskotað til þess af hálfu Samsonar að söluandvirði vegna eignasölu erlendis væri hópnum tiltækt sem eigið fé og yrði af kaupum hópsins á Landsbankanum hygðist hann nýta hluta þeirra fjármuna sem eigið fé til greiðslu á þriðjungi kaupverðsins. Ríkið fengi þannig umtalsverðan hluta þess greiddan með erlendum gjaldeyri. Umfjöllun í bréfum Samsonar sýnir að af hálfu félagsins var lögð veruleg áhersla á þessi sjónarmið gagnvart ríkinu sem seljanda bankans.

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Eigendur Samsonar lögðu á það áherslu að þeir hefðu fjárhagslega burði til að kaupa hlut í Landsbankanum og að eigið fé þeirra í viðskiptunum kæmi erlendis frá og væri því viðbót við íslenska hagkerfið. Hafa skal í huga að eigendur Samsonar höfðu engin áhrif á þá ákvörðun stjórnvalda að óska aðeins eftir því að ríflega þriðjungur væri lagður fram sem eigið fé og að þau settu ekki fram neina kröfu um að kaupverð kæmi allt erlendis frá – aðeins að greitt yrði í bandaríkjadollurum. Stjórnvöld hefðu getað óskað eftir hærra eiginfjárframlagi eða sett kröfu um erlendan uppruna fjárins. Það gerðu þau ekki. Í þessum bréfaskiptum lögðu eigendur Samson áherslu á að þeir gætu reitt fram fjármuni í erlendum gjaldeyri sem voru þá utan íslenska hagkerfisins og í fyrsta bréfinu til FnE er það sett sem ein af forsendum viðskiptanna að þeir megi greiða kaupverðið í bandaríkjadollurum.

Eigendur Samson hafa opinberað öll sín bréfasamskipti við stjórnvöld vegna kaupanna á 45,8% hlut í Landsbanka Íslands. Um feril einkavæðingar má lesa í þaula hér.