„Einn er þó sá . . .“

Fréttablaðið birti fréttaskýringu um helgina, í tilefni þess að ár er liðið frá útgáfu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Í fréttaskýringunni er bent á þá staðreynd, að hver hafi vísað á annan og fáir gengist við ábyrgð. Þar sé ein undantekning á: „Björgólfur Thor Björgólfsson fagnaði útkomu skýrslunnar, gekkst við því sem hann nefndi augljós mistök sín og baðst afsökunar,“ skrifar Fréttablaðið.

Í fréttaskýringunni er eftirfarandi ritað: „Einn er þó sá maður sem hefur gengist við ábyrgð á sínum þætti hrunsins. Björgólfur Thor Björgólfsson fagnaði útkomu skýrslunnar, gekkst við því sem hann nefndi augljós mistök sín og baðst afsökunar. „Ég undirritaður, Björgólfur Thor Björgólfsson, bið alla Íslendinga afsökunar á mínum þætti í eigna- og skuldabólunni sem leiddi til hruns íslenska bankakerfisins. Ég bið ykkur afsökunar á andvaraleysi gagnvart þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki auðnast að fylgja hugboði mínu þegar ég þó kom auga á hættuna. Ég bið ykkur afsökunar,“ skrifaði Björgólfur tveimur dögum eftir útkomu skýrslunnar. Um leið gerði hann þó fyrirvara við ýmislegt sem kemur fram í henni og nú, ári síðar, er hann byrjaður að leiðrétta það sem hann segir augljósar villur, rangar ályktanir og hreinan uppspuna.

Þá segir í blaðinu: „Líkt og viðskiptin tekur Björgólfur skýrsluna föstum tökum. „Ég, eins og flestir aðrir, batt vonir við að skýrslan myndi marka nýtt upphaf og veita þjóðinni nauðsynlega viðspyrnu… Því miður hefur mér ekki orðið að ósk minni. Skýrslan hefur enn engin áhrif haft til góðs á íslenskt samfélag,“ skrifar hann og kveðst mjög ósáttur við vinnubrögð rannsóknarnefndarinnar. Þótt hans sé víða getið hafi hann ekki verið kallaður fyrir nefndina. Hyggst hann hrekja margt í skýrslunni á vef sínum btb.is á næstunni.“

Hér á vefnum eru þegar farnar að birtast greinar, þar sem farið er yfir þau atriði í skýrslu Rannsóknarnefndar, sem að mér snúa. Ég hvet lesendur til að kynna sér þau skrif.