Egill og aldagamla reglan

Lífið væri ákaflega einfalt fyrir suma spekinga, ef þeir gætu látið nýfundnar niðurstöður sínar ná yfir liðna atburði. Þannig væri t.d. hægt að varpa reglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa fyrir róða, teldu menn eftir á að vænlegt væri að ná í fé hjá hluthöfunum. Sú nýja regla mætti auðvitað ekki ná yfir alla hluthafa, aðeins þá sem teljast verri en hinir. Hvað með það þótt aldagamlar hugmyndir manna um réttarríki hafni afturvirkni laga? Það þarf reyndar ekki til, því allt eins má gera þá kröfu að dómarar dæmi eftir nýskilgreindri réttlætistilfinningu spekinga, en ekki eftir lögum. Að gefnu tilefni velti talsmaður minn, Ragnhildur Sverrisdóttir, þessu aðeins fyrir sér.

 

Pistill Ragnhildar Sverrisdóttur er svohljóðandi:

Egill Helgason tók á dögunum undir vangaveltur Ólafs Ísleifssonar um að stórundarlegt væri að ekki væri leitað til eigenda Landsbankans áður en reikningurinn fyrir Icesave væri sendur heimilum landsins. Agli er auðvitað vorkunn. Það er varla hægt að ætlast til að hann nái að forðast þá gildru að halda að hagfræðingurinn viti hvað hann syngur í fræðunum. Honum, rétt eins og Ólafi, var hins vegar bent á að þarna færu þeir villur vegar. Það hindrar Egil hins vegar ekki í að blogga aftur um málið í dag. „Það er talað um „takmarkaða ábyrgð“ eigenda hlutafélaga,“ ritar álitsgjafinn og sér ástæðu til að setja gæsalappir um hið framandi hugtak, sem þó er grundvallarregla í hlutafélagalögum og hefur verið lengi.

Um hlutafélög gilda núna lög 2/1995 og í þeim er hlutafélag skilgreint sem „félag þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins.“ Sama skilgreining hefur lengi verið við lýði. Í athugasemdum við stjórnarfrumvarp um hlutafélög, sem síðar varð að lögum nr 32/1978, segir: „Eitt aðaleinkenni hlutafélaga er tilhögun ábyrgðar. Lítilsháttar breytingar eru gerðar hér á orðalagi þessa atriðis [frá lögum nr 77/1921, innsk. RSv], en efnislega er að sjálfsögðu ekki um breytingar að ræða frá gildandi lögum. Reglan er orðuð hér þannig, að hlutafélag merkir í lögum þessum félag, þar sem enginn félagsmanna beri persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins.“

Reglan hefur sem sagt verið í lögum hér á landi allt frá því að hlutafélagalög voru fyrst sett hér árið 1921, en þau voru sniðin eftir þáverandi hlutafélagalögum Dana. Egill Helgason tekur að vísu fram í pistli sínum að stundum geti „takmörkuð ábyrgð verið réttlætanleg – því skal ekki á móti mælt,“ svo ekki setur hann sig alfarið gegn grundvallarreglunni sem vestrænar þjóðir hafa talið ómissandi svo lengi. En heldur svo áfram og segir þetta varla eiga við um stærstu eigendur íslensku bankanna og vísar til þess að eigendur bankanna fengu stærstu lánin úr bönkunum. „Takmörkuð ábyrgð getur ekki átt við í þessu tilviki,“ skrifar álitsgjafinn.

Hvernig sér hann framtíðina fyrir sér? Að sett verði ný lög um að fyrri lög nái ekki til hóps nafngreindra manna? Á þar að miða við huglægt mat Egils Helgasonar? Ætlar hann að miða við hversu mikið þeir „sem fengu stærstu lánin úr bönkunum“  skulda? Ekki var að sjá að það væri viðmið hans, þegar hann ritaði fyrri færslu sína um „takmarkaða ábyrgð“ og taldi sjálfgefið að ný regla hans næði til Björgólfs Thors. Hann hefur þá „gleymt“ að Björgólfur Thor gerði upp skuldir sínar við Landsbankann, líkt og aðra lánardrottna.