Brengluð mynd spéspegils

Sigrún Davíðsdóttir, pistlahöfundur Ríkisútvarpsins, fer mikinn í Speglinum í gær.  Hún fjallar þar enn á ný um lán sem var veitt til eins af félögum mínum vorið 2008 og dregið á fram á haustið. Gefur hún í skyn að þarna hafi verið um óeðlilega lánafyrirgreiðslu að ræða. Þar tekur hún ekki fram, fremur en fyrri daginn, að skuldarinn reyndist borgunarmaður fyrir láninu. Slíkar upplýsingar varpa að líkindum of skýru ljósi á „óeðli“ lánafyrirgreiðslunnar.

 

Í umfjöllun pistlahöfundar RÚV er öllu snúið á haus. Eins og margoft hefur komið fram þá lenti Actavis í verulegum rekstrarerfiðleikum snemma árs 2008.  Áætlanir stjórnenda félagsins stóðust engan veginn, auk þess sem félagið átti við gæðavandamál að stríða.  Það kom í minn hlut sem stærsta hluthafa félagsins að taka á þessum vandamálum, sem ég gerði með því að semja við lánardrottna, leggja félaginu til aukið fé og endurskipuleggja stjórnendateymi þess. Rétt er að fram komi að á þessum tíma var félagið í raun komið í þrot, ef ekki hefði komið til aukið fé inn í reksturinn.  Óþarfi er að fjölyrða um hvaða afleiðingar slíkt þrot hefði haft fyrir íslenskt samfélag, enda um eitt stærsta félag landsins að ræða. 

Þar sem ég átti ekki laust fé til að setja inn í rekstur Actavis var mér nauðugur einn kostur að fá það að láni.  Landsbankinn, sem hafði einnig mikilla hagsmuna að gæta í Actavis, samþykkti að veita mér lán, en að sjálfsögðu með því fororði að tryggingar væru öruggar og kjör öll í samræmi við reglur bankans. Ég lagði verðmætustu eign mína að veði, farsímafélag mitt í Póllandi.  Auk þess voru veitt veð í Actavis sjálfu, sem og persónuleg ábyrgð mín.  Það er því óhætt að segja að ég hafi tjaldað öllu sem til var í þeirri viðleitni minni að bjarga Actavis, enda um gífurlega hagsmuni að ræða fyrir mig persónulega, sem og íslenskt samfélag.

Pistlahöfundur RÚV tilgreinir sérstaklega að félagið Givenshire Equities hafi gengist í ábyrgð upp á 18 milljarða króna til að ábyrgjast skuldir Grettis og bætir við: „Landsbankinn var því að hjálpa Gretti fram á það síðasta.“ Hvernig pistlahöfundurinn fær þetta út er hulin ráðgáta. Landsbankinn var þarna að auka tryggingar sínar vegna láns, sem þegar var til staðar, til félags í eigu föður míns. Með því að leggja fram veð lagði ég allt í sölurnar til að styðja við föður minn og Landsbankann á erfiðum tímum og mér þykir með ólíkindum að reynt sé að gera það tortryggilegt.

Sigrún pistlahöfundur víkur síðan máli sínu að grein sem ég hef vitnað til eftir Halldór Kristjánsson fyrrum bankastjóra Landsbankans, um að bankinn hafi átt verulegt lausafé og skuldabréf sem voru hæf til endurhverfra viðskipta. Pistlahöfundur bætir við að „giska miklu betri og áreiðanlegri“ úttekt sé að finna á stöðu Landsbankans í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og segir þá sögu „heldur óglæsilegri“.

Hér eru auðvitað engin rök færð fyrir einu eða neinu.  Hvaða atriði eru „óglæsilegri“ í rannsóknarskýrslunni?  Ég hef ekki séð neitt sem bendir til þess að Halldór hafi ekki farið með rétt mál.  Það er ábyrgðarhluti að setja fram athugasemdir af þessu tagi án þess að greina sérstaklega frá hvað átt sé við og hvar þetta sé að finna í skýrslunni.

Í niðurlagi pistilsins segir höfundurinn, um lánið vegna Actavis: „Björgólfur Thor telur lánið 2008 ekki óeðlilega fyrirgreiðslu. Hann rekur reyndar ekki sjálfur hvernig frekari skuldum og skuldbindingum var dembt inn í Lúx-félög hans.“

Dembt inn í Lúx-félög mín? Hvað felst í þessu? Mjög skilmerkilega hefur verið greint frá því hvaða skuldbindingar var um að ræða í Lúxemborg og jafnframt hefur komið skýrt fram að á móti flestum þessum skuldbindingum var reiðufé. Öll lánin í Lúxemborg hafa verið gerð upp, að fráskildu 3 milljóna evru láni, sem stendur til að greiða á næstu 3 árum.  Hvers vegna rekur pistlahöfundurinn ekki þær upplýsingar, sem hann telur sýna aðra mynd? Hvers vegna er ekkert sagt um afdrif þessara lána?

Skýringanna er kannski að leita í síðustu setningu pistilsins: „Það verður látið hlustendum eftir að meta hvort fyrirgreiðslur Landsbankans við Björgólf Thor, stærsta hluthafa bankans, voru óeðlilegar eða ekki.“ Þegar pistillinn allur hefur verið lesinn er augljóst að hvaða niðurstöðu hlustandinn á að komast.

Ég hef ítrekað fjallað um eigin ábyrgð og beðist afsökunar á því sem miður fór.  Ég ætla hins vegar ekki að sitja þegjandi undir því að aðgerðir mínar í aðdraganda hrunsins séu gerðar tortyggilegar. Þær  miðuðu eingöngu að því að bjarga viðkomandi íslenskum eigum og fólu í sér aukna skuldsetningu fyrir mig persónulega og framlagningu veða í öðrum óskyldum eignum.  Sigrún Davíðsdóttir ætti að einbeita sér að þeim sem gerðu þveröfugt og tóku til sín bæði eignir og fjármuni.

Ríkisútvarpið hefur nú ítrekað birt pistla eftir Sigrúnu, þar sem ráðist er á mig með dylgjum og hálfkveðnum vísum og því alltaf sleppt, sem varpað gæti jákvæðu ljósi á ákvarðanir mínar. Hvort það er gert vegna þess að pistlahöfundurinn skilur einfaldlega ekki umrædd mál, eða vegna þess að hann kýs að leggja þau upp með þessum hætti læt ég lesendum eftir að meta. Ég er hættur að undrast að fjölmiðill í eigu almennings fari fram með þessum hætti, en ég mun ekki hætta að leiðrétta rangfærslur.