Blogg eða réttur til andmæla?
Fréttablaðið hefur eftir forseta Alþingis, sem hefur neitað að birta athugasemdir mínar við skýrslu rannsóknarnefndar þingsins á vef þingsins sjálfs, að vefur Alþingis sé ekki bloggsíða heldur upplýsingasíða fyrir þjóðþingið. Hvergi nefnir forseti þau grundvallarmannréttindi, sem tryggja að maður fái að svara þeim ásökunum, sem á hann eru bornar á opinberum vettvangi.
Í Fréttablaðinuí dag vísar forseti Alþingis til þess, að ég hafi birt athugasemdir mínar hér á mínum eigin vef og gefur þannig í skyn að hver og einn verði að reka sinn eigin fjölmiðil, hafi hann tök á, til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Raunar vísar forseti til þess, að nóg sé af öðrum síðum á netinu til að ræða efni skýrslunnar og gera athugasemdir. Það er í sjálfu sér rétt, að nóg pláss er á netinu. Hins vegar þykir mér eðlilegt að þeir, sem kynna sér efni skýrslunnar á opinberum vef sjálfs Alþingis geti fundið þar á sama stað þær rökstuddu athugasemdir, sem lagðar hafa verið fram. Það að gera lítið úr athugasemdum mínum með því að kalla þær „blogg“ sýnir einnig skilningsleysi á alvarleika þeirra rangfærslna sem fram koma í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Ég vil einnig benda á, að á vef Alþingis er ekki eingöngu að finna það efni sem birtist í prentaðri útgáfu skýrslunnar, heldur ýmsir viðaukar aðrir. Þar á meðal eru birtar skriflegar athugasemdir eftirtalinna einstaklinga: Geirs H. Haarde, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Björgvins G. Sigurðssonar, Davíðs Oddssonar, Ingimundar Friðrikssonar, Eiríks Guðnasonar, Bolla Þórs Bollasonar, Baldurs Guðlaugssonar, Jónínu S. Lárusdóttur, Áslaugar Árnadóttur og Jónasar Fr. Jónssonar. Allir þessir aðilar voru kvaddir fyrir rannsóknarnefndina til skýrslutöku, en þar að auki var andmælaréttur þeirra virtur og þeim boðið að gera athugasemdir við niðurstöður rannsóknarnefndarinnar.
Ég var aldrei kvaddur til skýrslutöku og fékk því aldrei tækifæri til að skýra þau fjölmörgu atriði, sem að mér lúta í skýrslu nefndarinnar. Mér var ekki boðið að senda inn athugasemdir áður en skýrslan kom út. Og nú hefur forseti Alþingis komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sé rétt að birta athugasemdir mínar á sama stað og allar þær röngu ályktanir, villur og hreinan uppspuna um ýmis mál, sem mér tengjast. Ef fjölmiðill fer með rangt mál í umfjöllun sinni um tiltekið málefni þá þykir sjálfsagt að sá fjölmiðill leiðrétti þá umfjöllun. Þetta virðist hins vegar ekki eiga við um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og er greinilegt að forseti Alþingis ætlar að gera sitt til að gagnrýnin umfjöllun um skýrsluna verði sem minnst. Að minnsta kosti er ljóst að forseti Alþingis telur mig ekki hafa rétt til að gera athugasemdir við skýrsluna með áberandi hætti.