Bankastjóri gætti hagsmuna bankans ekki einstakra hluthafa
Ábyrgðarsamningur frá 30.september 2008 þar sem Landsbankinn tók veð í einu Novator félagi hefur verið notaður til að sýna fram á óeðlilega fyrirgreiðslu bankans til stærstu hluthafa. Svo var ekki. Rannsóknarnefnd rýnir ekki til botns í skilmálum og kemur því ekki auga á þá augljósu niðurstöðu að í umræddum samningi bætir Landsbankinn stöðu sína, fær tryggari veð á tímum mikillar óvissu en viðskiptamaðurinn, sem var ég, veikti stöðu sína og jók áhættu sína. Þetta dæmi sýnir að bankastjórarnir gættu hagsmuna bankans í viðskiptum við mig – öfugt við það sem haldið hefur verið fram í fjölmiðlum, sem er að ég hafi ráðið því sem ég vildi í starfsemi bankans og verið einhverskonar skuggastjórnandi.
Í kafla 8.8.3.4 um lán Landsbankans fyrir veðkalli Deutsche Bank vegna fjármögnunar kaupa á Actavis segir á bls. 177:
Samkvæmt ábyrgðarsamningi dagsettum 30.september 2008 tók Landsbankinn veð í Novator Telecom Poland S.a.r.l.fyrir láninu. Því til viðbótar fékk Landsbankinn Björgólf Thor til að leggja fram ábyrgð Givenshire Equities S.a.r.l. félagsins fyrir skuldbindingum Björgólfs Guðmundssonar vegna sjálfskuldarábyrgðar á skuldbindingum Grettis Eignarhaldsfélags. Givenshire Equities S.a.r.l. hélt utan um eignarhlut Björgólfs Thors í Samson eignarhaldsfélaginu. Sigurjón Þ. Árnason lýsti þessu svo í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis:
„Þá endar það þannig að það er þarna í síðustu vikunni, eitthvað svoleiðis, þá endar það þannig að við lánum Björgólfi Thor af okkar pening til þess að hann geti staðið við ákveðna hluti í Actavis, gegn því að hann láti okkur fá veð í seinni hlutanum í, láti pabba sinn fá veð, sem sagt, til þess að láta okkur fá þannig að Landsbankinn sé kominn með 100% veð í Samson-eignarhaldsfélagi. [….] [n] æsta verkefni þá í tengslum við það er auðvitað að finna nýja eigendur til þess að taka allt draslið yfir.“
Hið 153 milljóna evra lán til BeeTeeBee Ltd. var flutt ásamt öðrum lánum frá Lúxemborg til Landsbankans á Íslandi í byrjun október.
Athugasemdir við þennan kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru þessar:
Hér má sjá af vitnisburði annars bankastjóra Landsbankans, Sigurjóns Þ. Árnasonar, að Landsbankinn er að vernda hagsmuni sína gagnvart stærstu eigendum sem jafnframt voru viðskiptavinir. Tryggingarnar sem bankinn tók voru öruggar og bankinn treysti betur útlán sín og veð vegna Actavis. Björgólfur Thor tók aukna áhættu í þessum viðskiptum. Hér er þriðja dæmið um að Björgólfur Thor er að auka áhættu sína og veita bönkum auknar tryggingar á þeim óvissutíma sem ríkti haustið 2008. Það vekur undrun að í rannsóknarskýrslunni skuli ekki dregið fram með skýrum hætti að hér er verið að treysta stöðu bankans.
Annars kemur niðurlagið í þessari frásögn Sigurjóns bankastjóra Björgólfi Thor á óvart. Hann var á þessum síðustu dögum septembermánaðar að leggja til ný veð til að styðja við viðskiptafélaga sinn og föður, Björgólf Guðmundsson, og að treysta veð útlána Landsbankans í góðri samvinnu við bankastjórana, – að hann hélt. Raunar er einnig á öðrum stað í skýrslunni haft eftir Sigurjóni bankastjóra að hann hafi rætt við Kjartan Gunnarsson, varaformann bankaráðs Landsbankans um að þessi samningur opnaði leiðina fyrir nýja eigendur að bankanum.
Björgólfur Thor kann ekki skýringar á þessum vitnisburði Sigurjóns Þ. Árnasonar. Orð bankastjórans bera þess glöggt vitni að hann er ekki með hagsmuni stærsta hluthafans í huga fyrst hann leitar að leiðum til að fá nýja eigendur að bankanum. Enda er það ekki hlutverk bankastjórans að gæta hagsmuna stærstu eigenda umfram aðra eigendur. Þarna kemur skýrt í ljós að – öfugt við staðlausar getgátur fjölmiðla, að bankastjórarnir unnu sjálfstætt og voru ekkert handbendi einhverra skuggastjórnenda. Eins hafnaði Sigurjón hugmyndum um sameiningu Landsbankans við hinn virta sænska fjárfestingabanka Carnegie, sem Björgólfur Thor var hins vegar áhugasamur um. Eftir sameiningu Burðaráss og Landsbankans 2005 varð Landsbankinn stærsti einstaki hluthafinn í þeim banka og var þá sameining þessara tveggja banka raunhæfur möguleiki. Slík sameining hefði mögulega ógnað stöðu Sigurjóns sem aðalbankastjóra og kann það að útskýra afstöðu hans að hluta en einnig ber að virða það að honum þótti sænski bankinn of dýru verði keyptur. Sameiningarhugmyndin var hins vegar úr sögunni eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn í Carnegie í apríl 2006 með góðum hagnaði. Eins lagðist Sigurjón ávallt gegn hugmyndum um sameiningu Landsbankans við Straum sem Björgólfur Thor hélt talsvert á lofti en William Fall, forstjóri Straums, hefði alltaf orðið aðalbankastjóri sameinaðs banka og því yfirmaður Sigurjóns.
Frá þessu er greint hér til að sýna að átök voru á milli stjórnenda og helstu eigenda Landsbankans á árunum 2003 til 2008. Þar var barátta um stefnu og áhrif eins og eðlilegt er og reglur banka gera ráð fyrir. Það er mikill misskilningur, sem oft verður vart við í umræðu fjölmiðla um Landsbankann á þessum árum, að þar hafi hver verið að gera öðrum greiða. Svo var ekki. Hér kemur fram hjá Sigurjóni að hann var að skoða sviðsmyndir með aðra eigendur að bankanum en Samson og ljóst er að Björgólfur Thor var á sama tíma að leita leiða til að draga úr áhrifum Sigurjóns á stjórn og stefnu bankans.
Þá er rétt að benda á að lánakjör félaga Björgólfs Thors voru í engu betri en annarra viðskiptavina bankans – jafnvel þvert á móti. Hafa ber í huga að Björgólfi Thor var alls ekki ljós skuldastaða annarra viðskiptavina Landsbankans eða viðskiptaskilmálar. Sú staðreynd blasir við í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að Landsbankinn krafði helstu eigendur bankans um traustari veð og persónuábyrgðir umfram kröfur hans á hendur öðrum lánþegum bankans, eins og t.d. Baugi og tengdum félögum, sem eins og fram hefur komið skulduðu mun meira í Landsbankanum en félög tengd Björgólfi Thor. Er það enn ein staðfesting þess að viðskipti félaga Björgólfs Thors við Landsbankann voru á skýrum faglegum forsendum.