Bankastjórar gerðu tillögur

Eyjan greindi um helgina frá málatilbúnaði slitastjórnar og skilanefndar gamla Landsbankans er varðar meinta bótaskyldu þeirra einstaklinga sem sátu í bankaráði bankans haustið 2008 vegna afgreiðslu bankans á þremur tilgreindum málum mánudaginn 6. október 2008 þar á meðal vegna viðskipta bankans við Straum-Burðarás þar sem ég var formaður stjórnar. Frásögn Eyjunnar byggir að því er virðist á bréfi slitastjórnar og skilanefndar til bankaráðsmanna þar sem skorað er á þá að láta uppi afstöðu þeirra til meintrar bótaskyldu. Þó virðist fjölmiðillinn gera meira úr mínum þætti samkomulags sem náðist á milli Landsbankans og Straums um kaup þess síðarnefnda á erlendum eignum Landsbankans en efni standa til. 

 

Í skrifum Eyjunnar er m.a. fjallað um samninga um kaup Straums á erlendum eigum Landsbankans. Í bréfi slitastjórnar og skilanefndar segir að Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, hafi m.a. sent mér minnisblað um viðskiptin dagana 16. og 17. september. Ekki er frekar upplýst um hvernig hugmyndir þróuðust. Í frétt Eyjunnar segir hins vegar að hálfum mánuði síðar, eða 30. september 2008 hafi bankaráð Landsbankans samþykkt tillögu sem Sigurjón og ég hafi „lagt drög að“.

Það er mikill munur á því að fá minnisblað frá bankastjóra Landsbankans tveimur vikum fyrr og svo hinu, að leggja drög að samkomulaginu sem kynnt var. Hið rétta er að bankastjórar Landsbankans, Sigurjón Þ. Árnason og Halldór Kristjánsson, og forstjóri Straums, William Fall, áttu veg og vanda af gerð þessa samkomulags. Þar sem ákvörðunin var mikilvæg fyrir bæði fyrirtæki var stjórnarmönnum beggja haldið upplýstum um gang mála. Ég lagði því ekki drög að samkomulaginu, en mér var kunnugt um það.