Bandaríska nefndin vann fyrir opnum tjöldum

Rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings, sem falið var að kanna ástæður fjármálakreppunnar haustið 2008, er talin hafa unnið afar gott starf en hún skilaði niðurstöðum sínum fyrr á þessu ári.  Þegar vinnubrögð hennar eru borin saman við vinnulag rannsóknarnefndar Alþingis sem fjallaði um sömu kreppu kemur í ljós að sú bandaríska vann fyrir opnum tjöldum og þá hafði hún heimild til að leyta gagna sem trúnaður ríkti um en hins vegar var nefndarmönnum  ekki heimilt að létta þeirri leynd og opinbera þau gögn sem trúnaður ríkti um. Þetta er ekki fyrsta rannsóknarnefndin um hrun fjármálamarkaða sem sett hefur verið á laggirnar í Bandaríkjunum. Árið 1932 var skipuð nefnd sem rannsakaði hrunið á Wall Street 1929 og í kjölfar hennar voru gerðar margvíslegar breytingar á umfjörð fjármálalífsins sem flestir telja að hafi verið til bóta.

 

Rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings, sem var falið að kanna ástæðu núverandi kreppu, var undir forsæti Phil Angelides, fyrrum fjármálaráðherra Kaliforníu. Nefndin var stundum kölluð „nýja Pecora nefndin“, eftir frægri rannsóknarnefnd sem sett var á laggirnar árið 1932. Hlutverk þeirrar nefndar var að rannsaka ástæður hrunsins á Wall Street árið 1929, sem markaði upphaf Kreppunnar miklu. Bandaríkjamenn hafa því reynslu af kreppunefndum og kunna að draga lærdóm af niðurstöðum þeirra. Þá er athyglisvert, að rannsóknarnefndin kaus að vinna fyrir opnum tjöldum og hélt fjölmarga fundi vítt og breitt um Bandaríkin, þar sem fjallað var um afmörkuð mál. Þeir fundir voru öllum aðgengilegir á netinu.

Í kjölfar Pecora-rannsóknarinnar á síðastu öld settu Bandaríkjamenn sér m.a. lög, þar sem kveðið var á um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, sem og lög um fjármálaeftirlit, auk annarra lagabálka. Sú lagasetning tryggði heilbrigt fjármálakerfi næstu hálfa öldina, að mati hagfræðingsins og Nóbelsverðlaunahafans Paul Krugman. Í pistli í New York Times í janúar í fyrra sagði Krugman að það hefði ekki verið fyrr en lexía Kreppunnar miklu var gleymd og eftirlit gert óvirkt sem fjármálakerfið varð á ný hættulega óstöðugt.  Í ljósi sögunnar er því sannarlega ástæða til að fylgjast vel með hvernig Bandaríkjamenn bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar um núverandi kreppu og draga lærdóm af viðbrögðum þeirra.

Bandaríska rannsóknarnefndin hélt fundi og hringborðsumræður fyrir opnum tjöldum. Þannig gátu Bandaríkjamenn – og raunar allir sem aðgang höfðu að netinu um allan heim – fylgst með embættismönnum og bankamönnum, fræðimönnum og forsvarsmönnum fyrirtækja rökræða ástæður kreppunnar. Frásagnir af þessum fundum var að finna í fjölmiðlum, eftir fréttamati hvers og eins, en allir fundir nefndarinnar voru sendir út í heild á heimasíðu hennar, þar sem jafnframt var hægt að fylgjast með hvernig starfið sóttist. Á starfsári nefndarinnar hélt hún fjölda slíkra opinna funda m.a. um lánshæfismatsfyrirtæki, áhættusækni og spákaupmennsku, fyrirtæki sem njóta stuðnings hins opinbera, veðlán, lánastarfsemi og tryggingar, hvernig ætti að koma í veg fyrir stórslys af þessu tagi í framtíðinni o.s.frv.  Oft vöktu þessir opnu fundir nefndarinnar mikla athygli, urðu tilefni umræðu og jafnvel deilna á opinberum vettvangi, en upplýstu einnig og skýrðu fyrir þjóðinni hvaða vanda hún stóð í raun frammi fyrir og hvers vegna. Þannig var hægt að leggja mat á viðfangsefni nefndarinnar jafn óðum og nefndarmenn hafa án efa fengið margar góðar ábendingar um álitaefni sem taka þyrfti á.

Flugeldar og fleyg orð

Bandaríska þingið hafði sjálft yfirheyrt ýmsar persónur og leikendur í fjármálaheiminum í beinni útsendingu um ástæður hrunsins, án þess að komast nærri því að ná jafn góðum árangri og rannsóknarnefndin. Af fréttum af yfirheyrslum þingsins má ráða að þar hafi menn fremur lagt áherslu á flugeldasýningar og fleyg orð. Joe Nocera, pistlahöfundur New York Times, hrósar Rannsóknarnefndinni fyrir góð tök á yfirheyrslum sínum og ber þær saman við yfirheyrslur þingsins. Hann ritar að í yfirheyrslum nefndarinnar hafi verið  bornar fram skynsamlegar spurningar, nefndin hafi neitað að láta vitnin gabba sig og hógvær beinskeytni hennar hafi borið meiri árangur en tylftir reiðilegra skammaryrða. Nefndarmenn hafi kannski ekki fengið öll þau svör sem þeir leituðu eftir, en þeir hafi í raun og sann verið að leita svara, í stað þess að stæra sig frammi fyrir myndavélum. Þeir hafi borið með sér að taka tilgang verkefnisins alvarlega, en á slíkt hafi skort í flestum yfirheyrslum í Washington um fjármálavandann. Af pistli Joe Nocera er ljóst, að vinnubrögð nefndarinnar eru kærkomin nýlunda og til fyrirmyndar.

Einblínt á aðalatriðin

Nefndin var sett á laggirnar með lögum í maí 2009. Hún hafði heimild til að stefna mönnum til sín til yfirheyrslu og afla allra þeirra gagna sem þurfti, þar á meðal gagna sem alla jafna ríkir leynd um. Þessi háttur var hafður á til að nefndin gæti aflað sér allra þeirra gagna sem hugsanlega gátu upplýst mál, en hins vegar var nefndinni sjálfri ekki heimilt að aflétta leyndinni og upplýsa um einstök atriði í skýrslu sinni. Þessi vinnubrögð höfðu í för með sér, að í skýrslu nefndarinnar rötuðu eingöngu málefnalegar upplýsingar um orsakir hrunsins. Þar var dregið stórum og skýrum dráttum, en ekki einblínt á einstök flókin viðskipti eða jafnvel fjárhag einstaklinga. Fréttaflutningur varð fyrir vikið málefnalegri, þ.e. fjallaði um ástæður hrunsins sjálfs.

Nefndin átti að skila skýrslu sinni í desember 2010, en það dróst í nokkrar vikur, fram í janúar á þessu ári. Samkvæmt lögum um nefndina var nefndarformanninum skylt að koma fyrir bankanefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings og fjármálaþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar til að bera vitni um niðurstöður nefndarinnar. Hinn 10. maí sl. kom Phil Angelides fyrir 22 manna bankanefnd öldungadeildarinnar. Áhugi þingmanna í nefndinni reyndist ekki meiri en svo að af 22 nefndarmönnum mættu aðeins 7 á fundinn með formanni Rannsóknarnefndarinnar.

Þótt vissulega verði forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum Bandaríkjamanna við skýrslu rannsóknarnefndarinnar má ekki gleyma að þar í landi hafa menn þegar gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Svokölluð Dodd-Frank lög setja skýrari reglur um fjármálastofnanir og eftirlit með þeim og auka vernd viðskiptavina. Lögin voru sett áður en skýrsla rannsóknarnefndarinnar lá fyrir, en Phil Angelides hefur lýst ánægju sinni með þetta skref. Á fundi hans með bankanefnd öldungadeildarinnar kom m.a. fram það sjónarmið að sú lagasetning hefði orðið vandaðri, hefði þingið beðið niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar.