Athugasemdir við skýrslu rannsóknarnefndar sendar Alþingi

Í gær sendi ég forseta Alþingis athugasemdir mínar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en nú er ár liði frá birtingu hennar. Í skýrslunni er víða fjallað um mál sem mig varða og birt eru  án allra fyrirvara ummæli manna um mig án þess að mér hafi nokkru sinni verið gefið tækifari á að útskýra þau mál sem að mér snúa eða svara ásökunum í minn garð. Ég hef óskað eftir því við Alþingi að athugasemdir mínar verði birtar á undirvef Alþingis um rannsóknarnefndina og skýrslu hennar. Ég mun birta athugasemdir mínar í heild sinni þegar mér hefur borist svar frá forseta Alþingis. Fram að því mun ég birta samatektina í áföngum þar sem einstaka efnisþáttum verða gerð full skil.

 

Nú er ár liðið frá því rannsóknarnefnd Alþingis birti niðurstöður sínar í viðamikilli skýrslu um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna. Eins og fram kom hér á vefnum sama dag og  skýrslan kom út var ég strax undrandi á hve heildarniðurstaðan var skýr en jafnframt sagðist ég vera hissa yfir sumu af því sem fram kom í skýrslunni og varðaði mig einkum í ljósi þess að nefndarmenn leituðu ekkert til mín með upplýsingar eða skýringar. Í framhaldinu sá ég ástæðu til þess að biðjast afsökunar á mínum þætti í þeirri eigna og skuldabólu sem leiddi til hruns íslenska bankakerfisins. Þá sendi ég viku síðar yfirlýsingu varðandi lán mín og fyrirtækja minna í íslensku bönkunum og leiðrétti ég þar rangfærslur sem birtust í skýrslunni varðandi mín lánamál. Í það ár sem liðið hefur frá birtingu skýrslunnar hef ég ekki viljað taka þátt í opinberri umræðu um einstök atriði hennar þó svo þar komi fram margt sem ég hefði getað útskýrt og leiðrétt ef nefndin hefði séð ástæðu til að tala við mig eða óska eftir upplýsingum frá mér. Ég hef hins vegar látið vinna fyrir mig samantekt á öllum þeim atriðum í skýrslunni sem mig varðar og hef ég sett fram athugasemdir við staðhæfingar, rangfærslur og óburðugar ályktanir jafnframt því sem ég birti upplýsingar og skýringar á þeim atriðum sem mig varðar og eru til umfjöllunar í skýrslu rannsóknarnefndar. Þessa samantekt hef ég sent forseta Alþingis og óskað eftir að þær fáist birtar á undirvef Alþingis um skýrslu nefndarinnar. Bréf mitt til forseta Alþingis er svohljóðandi:

 

Forseti Alþingis

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir

Skrifstofa Alþingis

150 Reykjavík

Lundúnum 12. apríl 2011

Hæstvirtur forseti Alþingis.

Í skýrslu rannsóknarnefndar þeirrar, sem Alþingi fól þann 17. desember 2008 að rannsaka aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna, er all oft vikið að mér, Björgólfi Thor Björgólfssyni, fyrirtækjum á mínum vegum, viðskiptum mínum, athöfnum mínum og ummælum. Umfjöllun um mig skiptir tugum blaðsíðna í umræddri skýrslu. Af ástæðum mér ókunnar sá  rannsóknarnefnd Alþingis ekki ástæðu til að ræða við mig eða kalla eftir upplýsingum frá mér eða sjónarmiðum mínum til að varpa sem skýrustu ljósi á þann hluta aðdraganda falls íslensku bankanna sem að mér sneri. Í meðfylgjandi samantekt er ítarlega fjallað um mörg af þeim efnisatriðum er mig varða og skýrsla rannsóknarnefndar fjallar um og þar kemur í ljós, því miður, að í skýrslunni er ekki allt sannleikanum samkvæmt, oft er farið rangt með einfaldar staðreyndir og þá er einnig að mannorði mínu vegið með staðhæfingum og ósannindum sem rannsóknarnefndin reyndi ekki að sannreyna áður en hún birti skýrslu sína opinberlega í nafni Alþingis.

Tilgangur laga nr. 142 frá árinu 2008 var að skipa nefnd sem  „leiti sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða“. Hvað varðar minn þátt í umræddum aðdraganda var sannleikans ekki leitað og því lauk rannsóknarnefndin ekki því verkefni sem Alþingi fól henni. Nú hefur rannsóknarnefndin hætt störfum og afhent Alþingi skýrslu sína – bæði í prentuðu máli sem Alþingi hefur gefið út og að auki er hún birt með fylgigögnum á undirvef Alþingis á slóðinni http://www.rna.althingi.is/.

Í því ljósi að rannsóknarnefnd Alþingis leysti augljóslega ekki af hendi það metnaðarfulla verkefni sem Alþingi  fól  henni  óska ég eftir því að meðfylgjandi athugasemdir mínar við skýrslu rannsóknarnefndar verði birtar á áðurnefndum undirvef Alþingis, – http://www.rna.althingi.is/. Á þann hátt sýnir Alþingi í verki að leitin að sannleikanum um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna árið 2008 sé löggjafarsamkomu íslensku þjóðarinnar kær og undirstrikar þann vísdóm að leitin að sannleikanum heldur alltaf áfram og getur ekki verið bundin við útgáfu einnar skýrslu – þótt mikil sé að vöxtum.

 

Virðingarfyllst,

Björgólfur Thor Björgólfsson

Samantekt þessi verður birt í heild sinni innan tíðar hér á vefnum www.btb.is. Fram að því verður hún birt í áföngum þar sem einstaka efnisþáttum verða gerð full skil.