Athugasemdir við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sendar forseta Alþingis

Þann 12. apríl 2011 sendi Björgólfur Thor Björgólfsson forseta Alþingis athugasemdir sínar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en þá ár liðið frá birtingu hennar. Í skýrslunni er víða fjallað um mál sem varða Björgólf Thor og birt eru  án allra fyrirvara ummæli manna um hann án þess að honum hafi nokkru sinni verið gefið tækifari á að útskýra þau mál sem að honum snúa eða svara ásökunum í hans garð. Hann óskað eftir því við Alþingi að athugasemdirnar verði birtar á undirvef Alþingis um rannsóknarnefndina og skýrslu hennar. Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hafnaði þeirri ósk með bréfi þann 5. maí 2011. Þar kom fram að aldrei hefði staðið til að birta umræður eða athugasemdir um skýrsluna á tilvitnaðri vefslóð. Engu að síður eru birt á þeirri vefslóð andmæli þeirra einstaklinga sem hefðu getað gerst brotlegir í opinberu starfi en þau eru ekki birt í skýrslunni sjálfri. Þá lét forseti þjóðþingsins hafa eftir sér í viðtalið við Fréttablaðið vegna þessarar ákvörðunar að vefur Alþingi væri ekki bloggsíða og leggur hann þar með að jöfnu blogg og andmæli einstaklinga við ásökunum og ósannindum sem opinberir aðilar bera á þá.  Á undirvefjum þessarar síðu er að finna samatektina í áföngum þar sem einstaka efnisþáttum er gerð full skil. Athugasemdir Björgólfs Thors við skýrslu rannsóknarnefndar eru í heild sinn hér. Bréfið til forseta Aþingis er svohljóðandi:

 

Forseti Alþingis

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir

Skrifstofa Alþingis

150 Reykjavík

Lundúnum 12. apríl 2011

Hæstvirtur forseti Alþingis.

Í skýrslu rannsóknarnefndar þeirrar, sem Alþingi fól þann 17. desember 2008 að rannsaka aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna, er all oft vikið að mér, Björgólfi Thor Björgólfssyni, fyrirtækjum á mínum vegum, viðskiptum mínum, athöfnum mínum og ummælum. Umfjöllun um mig skiptir tugum blaðsíðna í umræddri skýrslu. Af ástæðum mér ókunnar sá  rannsóknarnefnd Alþingis ekki ástæðu til að ræða við mig eða kalla eftir upplýsingum frá mér eða sjónarmiðum mínum til að varpa sem skýrustu ljósi á þann hluta aðdraganda falls íslensku bankanna sem að mér sneri. Í meðfylgjandi samantekt er ítarlega fjallað um mörg af þeim efnisatriðum er mig varða og skýrsla rannsóknarnefndar fjallar um og þar kemur í ljós, því miður, að í skýrslunni er ekki allt sannleikanum samkvæmt, oft er farið rangt með einfaldar staðreyndir og þá er einnig að mannorði mínu vegið með staðhæfingum og ósannindum sem rannsóknarnefndin reyndi ekki að sannreyna áður en hún birti skýrslu sína opinberlega í nafni Alþingis.

Tilgangur laga nr. 142 frá árinu 2008 var að skipa nefnd sem  „leiti sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða“. Hvað varðar minn þátt í umræddum aðdraganda var sannleikans ekki leitað og því lauk rannsóknarnefndin ekki því verkefni sem Alþingi fól henni. Nú hefur rannsóknarnefndin hætt störfum og afhent Alþingi skýrslu sína – bæði í prentuðu máli sem Alþingi hefur gefið út og að auki er hún birt með fylgigögnum á undirvef Alþingis.

Í því ljósi að rannsóknarnefnd Alþingis leysti augljóslega ekki af hendi það metnaðarfulla verkefni sem Alþingi  fól  henni  óska ég eftir því að meðfylgjandi athugasemdir mínar við skýrslu rannsóknarnefndar verði birtar á áðurnefndum undirvef Alþingis. Á þann hátt sýnir Alþingi í verki að leitin að sannleikanum um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna árið 2008 sé löggjafarsamkomu íslensku þjóðarinnar kær og undirstrikar þann vísdóm að leitin að sannleikanum heldur alltaf áfram og getur ekki verið bundin við útgáfu einnar skýrslu – þótt mikil sé að vöxtum.

 

Virðingarfyllst,

Björgólfur Thor Björgólfsson