Áhættuskuldbindingar oftaldar og innistæður í reiðufé ekki dregnar frá
Það er áberandi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hversu frjálslega er farið með tölur og skilgreiningar hugtaka eru á reiki. Ítrekað eru taldar til áhættuskuldbindinga minna skuldbindingar sem hafa ekkert með mig að gera og að auki eru inneignir mínar í lausafé á reikningum ekki dregnar frá í áhættuútreikningum eins og bankar gera alltaf við mat á áhættu af viðskiptavinum. Þá eru þrásinnis endurteknar rangfærslur um að lán hafi verið veitt einu fyrirtækja minna í september 2008 þegar í raun var um lokagreiðslu að ræða á láni sem var samið um nærri hálfu ári áður.
Í kafla 8.10.5 sem fjallar um Landsbann Luxembourg S.A. á bls. 196 segir:
Tafla 19 sýnir 20 stærstu lántakendur Landsbanki Luxembourg S.A. hinn 2. október 2008 en taflan byggist á gögnum sem fundust í tölvubréfi frá Landsbankanum í Lúxemborg til starfsmanns Landsbankans. Það sem vekur hvað mesta athygli þegar gögnin eru skoðuð er hversu stórar áhættuskuldbindingar tengdar Björgólfi Thor Björgólfssyni voru sem hlutfall af heildaráhættuskuldbindingum í Landsbanki Luxembourg S.A., eða um 23%. Björgólfur Thor var á þessum tíma annar eigandi Samson eignarhaldsfélags ehf., sem var stærsti hluthafi Landsbankans.
….
Séu einungis 20 stærstu skuldunautar Landsbanka Luxembourg S.A. skoðaðir má sjá að Björgólfur Thor Björgólfsson var þar með ríflega 58% hlutdeild en mynd 182 sýnir skiptinguna milli 20 stærstu skuldaranna. Stærsta einstaka lánið til félags sem tengist Björgólfi Thor nemur 153 milljónum evra og var til félagsins BeeTeeBee Ltd. Þetta lán var veitt 30. september 2008.
Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:
Í yfirlýsingu Björgólfs Thors og greinargerð um lánamál hans í íslenskum bönkum frá 19. apríl 2010 kemur fram að áhættuskuldbindingar Björgólfs Thors eru oftaldar og að innistæður hans í reiðufé í Landsbankanum í Lúxemborg, sem voru um 300 milljónir evra, koma ekki til frádráttar en telja verður líklegt að hann hafi verið einn allra stærsti innistæðueigandinn í þeim banka. Hefði innistæður verið dregnar frá útlánum hefði komið í ljós að skuldir umfram innistæður voru rétt um 5 milljónir evra og þar með hefði Björgólfur Thor lent í 18. sæti þessa lista en ekki efsta. Á þessum tíma var Björgólfur Thor þekktur alþjóðlegur fjárfestir sem bankar sóttust eftir að fá í lánaviðskipti. Hann taldi rétt að beina hluta sinna viðskipta til Landsbankans sem hann var annar stærsti hluthafinn í. Þá er endurtekin í skýrslu rannsóknarnefndar sú rangfærsla að Björgólfur Thor hafi fengið lán að fjárhæð 153 milljónir evra í lok september. Hið rétta er að um lánið var samið í mars og það greitt út í áföngum allt til septemberloka.
Jafnframt segir í undirkafla 8.10.5.1 um flutning áhættuskuldbindinga frá Landsbanka Luxembourg S.A. til Landsbanka Íslands segir á bls. 198:
Í aðdragandanum að falli bankanna var farið fram á að stórar áhættuskuldbindingar með ábyrgð móðurfélagsins yrðu fluttar að fullu til Landsbanka Íslands og kom beiðni um þá færslu frá forsvarsmönnum Landsbanki Luxembourg. Um var að ræða lán að samanlögðu virði 784 milljónir evra (794 milljónir áður en tekið er tillit til virðisrýrnunar). Þegar lántakendurnir eru flokkaðir niður á samstæðugrundvelli kemur í ljós að um 11 aðila er að ræða og má sjá þá í töflu 22.
Stærsti lántakandinn sem færslan náði til er Björgólfur Thor Björgólfsson, með um 225 milljónir evra, en þar á meðal var 153 milljóna evra lán sem veitt var í lok september 2008 og fjallað er um í kafla 8.8.
Athugasemdin við þessar grein er svohljóðandi:
Hér er endurtekin í skýrslu rannsóknarnefndar sú rangfærsla að Björgólfur Thor hafi fengið lán að fjárhæð 153 milljónir evra í lok september. Hið rétt er að um lánið var samið í mars og það greitt út í áföngum allt til septemberloka.
Í kafla 8.10.6 um ályktanir rannsóknarnefndar Alþingi segir jafnfram á bls. 199:
Ljóst er að Landsbankinn í Lúxemborg hafi að umtalsverðu leyti verið notaður til þess að fjármagna starfsemi fyrirtækja Björgólfs Thors Björgólfssonar. Þá er sérstaklega athyglisvert að stór hluti þessara skuldbindinga verður til rétt fyrir fall bankans.
Athugasemdir við þessari fullyrðingu eru eftirfarandi:
Rannsóknarnefndin endurtekur hér tortryggjandi ummæli um lán sem veitt var í tengslum við Actavis og samið var um í mars en nefndin segir að hafi verið veitt „rétt fyrir fall bankans“ sökum þess að það var afgreitt í áföngum frá vordögum og síðasti greiðsludagur var í lok september. Rannsóknarnefndin kýs að líta algjörlega framhjá þeirri staðreynd að Björgólfur Thor var einn allra stærsti innistæðueigandinn í Landsbankanum í Lúxemborg. Lán til hans voru í lang flestum tilvikum tryggð að fullu með veði í reiðufé eða öðrum tryggum eignum. Eins og fram kom í greinargerð Björgólfs Thors frá 19. apríl 2010 var útlánaáhætta Landsbankans í Lúxemborg vegna lána til hans í flestum tilvikum engin. Í ljósi þessa er óskiljanlegt hvers vegna rannsóknarnefndin reynir að sá fræjum tortyggni með því að tala um að Landsbankinn í Lúxemborg hafi „verið notaður“ á einhvern hátt. Í júlímánuði 2010 undirritaði Björgólfur Thor samkomulag um heildaruppgjör allra þessara skulda.
Rétt er að taka fram að hinn 21. júlí 2010 samþykkti dómstóll í Lúxemborg samkomulag milli þrotabús Landsbankans í Lúxemborg, Landsbanka Íslands, Seðlabanka Lúxemborgar og nokkurra stærstu kröfuhafa bankans sem tryggir innistæðueigendum, þar á meðal Björgólfi Thor, fullar heimtur innan nokkurra mánaða. Samkomulagið tryggir að innistæðueigendur fá sínar kröfur að fullu greiddar og mun sú greiðsla líklega eiga sér stað innan 6-12 mánaða.
Þessi niðurstaða náðist m.a. vegna þess að stærstu kröfuhafar bankans, Landsbanki Íslands og Seðlabanki Lúxemborgar og ýmis fyrirtæki víkja fyrir öðrum kröfuhöfum. Fyrir vikið fá þessir aðilar betri stjórn á rekstri þrotabúsins og tryggja að eignir verði seldar á sem hæstu verði. Þannig tryggir Landsbanki Íslands hagsmuni sína í heimtum þrotabúsins. Þá samþykktu aðrir stórir kröfuhafar, þar með talin öll félög tengd Björgólfi Thor sem voru í viðskiptum við bankann, að gefa að auki um 30% afslátt af sínum kröfum í þrotabúið, til að greiða fyrir samkomulaginu. Aflsátturinn sem Novator gaf var hærri fjárhæð en nemur skuldakröfum bankans á félagið.
Samkomulagið tryggir að Landsbanki Íslands getur hámarkað sínar heimtur úr þrotabúinu, auk þess sem innistæðueigendur munu fá greitt að fullu.