Ágreiningur FME og Landsbankans var leystur með samkomulagi

Rannsóknarnefnd lætur í veðri vaka að Landsbankinn hafi brotið reglur um stórar áhættuskuldbindingar þegar bankinn taldi ekki að áhættan af lánum til Actavis fram til sumars 2007 og áhættan af lánum til mín vær ein og sama áhættan og að bankinn hafi ekki látið segjast vegna athugasemda FME. Þetta er fjarri lagi. Hið rétta er að lagalegur ágreiningur var uppi á milli bankans og FME um skilgreiningar á sameiginlegri áhættu lána. Ágreiningur var ekki leiddur til efnislegra lykta, FME beitti aldrei refsiákvæðum sem eftirlitsstofnunin hefði getað gert og FME kaus að ljúka málinu með samkomulagi við bankann sem fólst m.a. í að bankanum var heimilað að beita sínum skilningi á lagaákvæðinu við skýrsluskil í mars 2007 gegn því að gera það ekki aftur. Þá stefndi hins vegar í að forsendur breyttust vegna yfirtöku félaga minna á Actavis. Rannsóknarnefnd Alþingis tortryggir hér eðlileg vinnubrögð þar sem álitamál eru leyst með samkomulagi.

Í 2.bindi, 8.kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um útlán íslensku bankanna. Í kafla 8.6.5.5.1 er fjallað um Landsbankann er í fyrsta undirkafla 8.6.5.5.1.1. fjallað um lán til Actavis og segir þar af ágreiningi um hvort sama áhættan sé af lánum til Actavis og Björgólfs Thors. Þar segir á bls. 127:

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins, dags. 22. mars 2007, voru gerðar alvarlegar athugasemdir við framkvæmd reglna um stórar áhættur. Í fyrsta lagi voru gerðar athugasemdir við það hvernig Landsbankinn skilgreindi fjárhagslega tengda aðila í nokkrum tilvikum, í öðru lagi taldi Fjármálaeftirlitið að bankinn hefði vantalið áhættur sem voru yfir 10% af eigin fé bankans, í þriðja lagi var misræmi í tölum í skýrslugjöf bankans, í fjórða lagi að skilyrði fyrir frádrætti frá stórum áhættum hefði ekki verið fullnægt í öllum tilvikum og í fimmta lagi hefði skort nafngreinanlegar upplýsingar um fyrirgreiðslur. Fjármálaeftirlitið fór fram á það í ofangreindu bréfi að þessar niðurstöður yrðu kynntar fyrir stjórn Landsbankans og að gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir til að bæta úr þeim atriðum sem athugasemdir voru gerðar við. Bankinn átti að gera grein fyrir stöðu mála eigi síðar en 20. apríl 2007. Með bréfi dags. 30. apríl 2007 bárust svör frá Landsbankanum. Í því bréfi var túlkun Fjármálaeftirlitsins á framkvæmd reglna um stórar áhættur mótmælt um nokkur þýðingarmikil atriði. Stærsti ágreiningurinn fjallaði um hvort skilgreina ætti Actavis Group hf.sem aðila fjárhagslega tengdan Björgólfi Thor Björgólfssyni og tengdum aðilum. Af hálfu Landsbankans var á því byggt að slíkt ætti ekki að gera en Fjármálaeftirlitið hafði komist að gagnstæðri niðurstöðu. Ekkert framhald varð að öðru leyti á þessu máli fram í september 2007 þegar Actavis Group hf. var tekið yfir og endurfjármagnað. Málið féll þá niður af hálfu Fjármálaeftirlitsins, en þá voru liðin tæplega tvö og hálft ár frá því að ofangreind úttekt hófst af hálfu stofnunarinnar. Allan þann tíma voru stórar áhættur gagnvart Björgólfi Thor og tengdum aðilum umfram hámark samkvæmt reglum um stórar áhættur, ef tekið var mið af túlkun Fjármálaeftirlitsins á yfirráðum og fjárhagslega tengdum aðilum í skilningi reglna nr. 216/2007 og sambærilegu ákvæði eldri reglna nr. 531/2003.Af minnisblaði Fjármálaeftirlitsins nr. 2 kemur fram að haldinn hafi verið innanhúsfundur hjá stofnuninni hinn 29. mars 2007 þar sem sérstaklega var fjallað um skuldbindingar Björgólfs Thors og tengdra aðila. Í minnisblaðinu kemur fram að Fjármálaeftirlitið telji engar forsendur til að breyta þeirri skoðun sinni að skilgreina bæri áhættu á Actavis Group hf. með áhættu á Björgólf Thor og tengda aðila. Á hinn bóginn kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi, þrátt fyrir þetta, samþykkt að heimila Landsbankanum að færa þessar skuldbindingar aðgreint við skýrsluskil miðað við 31. mars 2007. Fram kemur að slíkt verði ekki samþykkt við næstu skýrsluskil þar á eftir.

Á bls. 128 í sama kafla segir jafnframt:

Stærsti liðurinn í ágreiningi Fjármálaeftirlitsins og Landsbankans fjallaði um hvort skilgreina ætti skuldbindingar Actavis Group hf. við bankann með áhættu á BTB og ýmis félög sem óumdeilt var að væru fjárhagslega tengd honum. Á þessum tíma nam áhætta bankans vegna Actavis Group hf. 10,2% af eigin fé bankans. Af hálfu Fjármálaeftirlitsins var litið svo á að BTB og tengdir aðilar færu með raunveruleg yfirráð í Actavis Group hf. og því bæri að skilgreina skuldbindingarnar sem eina áhættu. Á þeim tíma fór BTB með 38,84% eignarhlut í Actavis Group hf.Taldi FME að tengsl BTB við Landsbankann og Burðarás hf. (síðar Straum-Burðarás) sem fóru þá samtals með 8,5% eignarhlut í Actavis Group hf. væru svo mikil að skilgreina bæri eignarhluti þeirra saman með BTB. Þá leit Fjármálaeftirlitið jafnframt til þess að aðrir hluthafar Actavis færu með smáa eignarhluti og því yrði að leggja til grundvallar að um yfirráð BTB væri að ræða í skilningi reglna um stórar áhættur. Þessari túlkun hafnaði Landsbankinn í sérstöku fylgibréfi dags. 30. apríl 2007. Þar er því haldið fram að BTB og tengdir aðilar hafi ekki farið með yfirráð í Actavis Group hf. og að ekki væri hætta á smiti á fjárhagslegum erfiðleikum milli þessara aðila vegna sterkrar fjárhagslegrar stöðu BTB og tengdra aðila að öðru leyti. Er þar sérstaklega vísað til fylgibréfs frá Novator dags. 18. apríl 2007 sem skrifað var af þessu tilefni þar sem nánari rök eru færð fyrir þessari túlkun. Eins og fyrr er rakið var Fjármálaeftirlitið ekki búið að beita valdheimildum sínum þegar Actavis Group hf. var yfirtekið og endurfjármagnað síðari hluta árs 2007.

Athugasemdir við þennan kafla rannsóknarskýrslu Alþingis eru eftirfarandi:

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að FME hafi komist á fyrri hluta árs 2007 að „gagnstæðri niðurstöðu“ við Landsbankann sem skilgreindi Actavis Group hf. ekki sem fjárhagslega tengdan Björgólfi Thor Björgólfssyni. Það er að líkindum full mikið sagt að tala um gagnstæða niðurstöðu. FME hafði ekki komist að skýrri niðurstöðu – eftirlitið var ósammála bankanum um áhættuflokkun og  gerði eftirlitið alvarlegar athugasemdir við þessa skilgreiningu bankans. Í hönd fóru síðan skoðanaskipti FME og stjórnenda bankans sem er réttur og eðlilegur farvegur ágreiningsmála sem þessara. Ágreiningur var leystur með samkomulagi – stjórnvöld beittu engum refsiheimildum. Skýr efnisleg niðurstaða þess ferlis lá ekki fyrir fyrr en breytingar voru orðnar á eignarhaldi Actavis og breytti hún því engu. Raunar er þversögn í skrifum rannsóknarnefndar því einnig kemur fram í ofangreindum texta að FME hafi „samþykkt að heimila Landsbankanum að færa þessar skuldbindingar aðgreint við skýrsluskil miðað við 31.mars 2007.“ Skýrslan segir því annars vegar að FME hafi komist að niðurstöðu um að skilgreina Actavis Group hf. og Björgólf Thor sem eina áhættu og síðan hins vegar að FME hafi heimilað að færa þessar skuldbindingar aðgreint. Ekki er ljóst hvers vegna svona miklu munar í framsetingu rannsóknanefndar á þessum mikilvægu efnisatriðum nema ef vera skyldi til að tortryggja samskipti bankans og eftirlitsins.

Það er verkefni banka og bankastjóra að túlka reglur um fjármálafyrirtæki. Samskipti Landsbankans við FME voru á forræði bankastjóra og framkvæmdastjóra bankans. Grundvallaratriði var að stjórnendur bankans  tækju ákvarðanir um útlán og útlánaáhættu á eigin forsendum einkum og sér í lagi þegar um lán til stórra hluthafa í bankanum var að ræða.

Björgólfur Thor sat aldrei í bankaráði Landsbankans en hann var formaður stjórnar Samson eignarhaldsfélags ehf. og var Björgólfur Guðmundsson fulltrúi þess félags í bankaráði Landsbankans. Bankastjórar Landsbankans eða aðrir stjórnendur hans gerðu bankaráði ekki reglulega grein fyrir samskiptum bankans við FME en yfirlit yfir athuganir og fyrirspurnir FME var að jafnaði lagt tvisvar á ári fram á fundum endurskoðendanefndar. Bréf FME frá 22. mars 2007 var ekki til umfjöllunar í bankaráði fyrr en 10. mars 2008 eða eftir að lokaskýrsla FME barst 20. febrúar. Á þeim fundi er lagt fram svarbréf Landsbankans frá því í desember sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs bankans hafði undirritað. Þar segir m.a.:

„Samkomulag var gert við FME í mars 2007 um að tengja BTB og Actavis ekki saman. Skyldi bankinn senda með skýrslunni um stórar áhættuskuldbindingar m.v. 31.03.2007 röksemdir sínar fyrir aðskilnaði áhættuskuldbindingar þessara aðila. Þeim röksemdum myndi FME svara. Þar sem svar FME við röksemdum bankans hafði ekki borist þann 30.6.2007 hélt bankinn umræddum áhættum áfram aðskildum. Í framhaldi af þessu yfirtók BTB Actavis og síðan þá hefur bankinn tengt þessar áhættuskuldbindingar saman. Bankinn er algjörlega ósammála því að fyrir hafa legið afstaða FME um að tengja hafi átt saman áhættuskuldbindingar þessara aðila m.v. 30.6.2007.“

Í samantekt sem unnin var fyrir bankaráð og send rannsóknarnefnd Alþingis um starfsemi bankaráðs er gerð grein fyrir samskiptum bankaráðs við FME. Þá samantekt er ekki að finna í þeim gögnum rannsóknarnefndarinnar sem gerð voru opinber við birtingu skýrslu nefndarinnar.