Afskriftir Landsbankans vegna DV
DV fór mikinn í skrifum sínum í gær, miðvikudag. Þar var
fjallað um nauðsynlegar afskriftir á lánum, sem veitt höfðu verið í
Landsbankanum á meðan hann var enn ríkisbanki og reynt að gera tortryggilegt að
nýir eigendur bankans fengu kaupverð hans leiðrétt vegna þessa. Þar voru aðeins nefnd lán vegna sprotafyrirtækisins OZ. DV nefnir hins
vegar ekki einu orði, að afskrifaþörfin var að stórum hluta til komin vegna
mikilla skulda DV við bankann. Alls skuldaði
DV Landsbankanum 5-600 milljónir og þar af voru veðkröfur um 300 milljónir.
Við kaup Samsonar á stórum hlut í Landsbankanum í árslok 2002 var ljóst, að bankinn hafði ekki fært nægileg framlög á reikning vegna fyrirsjáanlegra afskrifta. Meðal þeirra skuldara, sem fjölmargar fréttir hermdu að ætti í miklum erfiðleikum, var dagblaðið DV. Ljóst var að bankinn yrði að afskrifa hundruð milljóna árið 2003 vegna lána til blaðsins. Landsbankinn átti alls 5-600 milljón króna kröfur á DV og þar af námu veðkröfur um 300 milljónum, að því er fram kom í fréttum á þessum tíma. Heildarskuldir DV námu um 1.100 milljónum, en eignir voru hátt í 800 milljónir og þar af var viðskiptavild blaðsins metin á 500 milljónir.
Ætli risaskuld DV, sem stofnað var til á meðan bankinn var ríkisbanki, hafi ekki átt sinn þátt í mikilli afskriftaþörf bankans? Hefðu nýir eigendur bankans átt að sitja uppi með þann skell? Fróðlegt væri að sjá nánari umfjöllun um það á síðum DV. Og þá að sjálfsögðu undir fyrirsögninni „Fékk afslátt út á afskriftir DV“!