Af snúðum og hrindingum og markvissum vinnubrögðum ríkisvalds

Það segir sýna sögu um glímu stjórnvalda við vandann sem við blasti í Ráðherrabústaðunum sunnudaginn 6.október 2008 að það sem upp úr stendur í frásögn rannsóknarskýrslu Alþingis af því sem þar fór fram er snúðaát Sigurjóns Þ. Árnasonar og meint inngrip mín í þá athöfn. Vinnubrögð rannsóknarnefnar Alþingis eru hér ámælisverð. Í stað þess að reyna að fá fram skýra mynd af því sem fram fór á þessum fundum  með því að ræða við alla þá sem þar voru dregur nefndin t.d. fram frásögn manns sem var fjarri en hefur sögur eftir þriðja manni. Hið sanna er að Sigurjón hafði miklar efasemdir um að Kaupþing væri að segja satt um stöðu sína – sem síðar hefur komið í ljós að full ástæða var til að hafa, en ég taldi ekki rétt að hann viðraði þær á þessari stundu heldur myndum við einblína á málefni Landsbankans og Straums. Þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndar liggur enn ekki fyrir heildstæð frásögn af því sem fram fór í Ráðherrabústaðnum og af hverju stjórnvöld töku þær ákvarðanir sem teknar voru.

Í kafla 20.4 er fjallað um fall Landsbankans. Í almennum upphafskafla 20.4.1. segir á bls  144.

Um kl.16:00 sunnudaginn 5. október 2008 segist Jón Steinsson, hagfræðingur, hafa mætt í Ráðherrabústaðinn og þurft að bíða um stund. Jón segir að á meðan biðinni stóð hafi hann heyrt ýmsar sögur og rakti hann eina sem dæmi: „[…] ein sagan er sú einmitt að Landsbankamennirnir hafi farið inn og lagt eitthvert plan fyrir ríkisstjórnina og að það hafi verið augljóst á látbragði Sigurjóns Árnasonar að hann hafi ekki haft trú á þessu plani og Árni Matt hafi tekið eftir þessu og eftir að fundurinn var að leysast upp hafi Árni Matt komið að máli við Sigurjón og spurt hann eitthvað svona: „Hefurðu trú á þessu?“ Og þá hafi Björgólfur Thor tekið utan um Sigurjón og í rauninni hrint honum út úr herberginu og lokað á nefið á Árna Matt. Þetta var sagan sem ég heyrði.“

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Enn á ný sér rannsóknarnefnd Alþingis ástæðu til að birta frásögn sem höfð er eftir þriðja aðila. Höfð er eftir virtum hagfræðingi saga sem hann heyrir um Björgólf Thor án þess að geta nokkurra heimilda. Í meira en heila öld hafa Íslendingar kennt vitnisburð sem þennan við Gróu á Leiti og hefur hann ekki þótt traustur. Og ekki sér rannsóknarnefndin ástæðu til að ræða við Björgólf Thor sjálfan þótt hún eyði tíma og verðmætum í að rekja kjaftasögur um hann í skýrslu sinni. Hið rétta í þessu máli er, eins og fram kemur hér að ofan, að rætt var á þessum fundi að Landsbankinn og Kaupþing tækju Glitni í sameiningu yfir. Sigurjón Þ. Árnason hafði miklar efasemdir um Kaupþing og var viss um bankinn stæði miklu verr en forsvarsmenn hans héldu fram. Sigurjón hafði því enga trú á að hægt væri að vinna að lausn sem fæli í sér samstarf við Kaupþing. Björgólfur Thor vildi hins vegar kanna málin til hlítar og ekki útiloka neitt.

Á bls. 145 í rannsóknarskýrslu Alþingis segir ennfremur:

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, lýsti þessum atburðum með öðrum hætti við skýrslutöku: „Landsbankamenn voru náttúrulega alltaf að reyna að sannfæra okkur um það [að hægt væri að bjarga Landsbankanum] en svo var það samt svo sérkennilegt að á síðasta fundinum með þeim á sunnudagsmorgninum með Landsbankamönnum, þá voru þarna Björgólfur Thor, Halldór og Sigurjón. Björgólfur var mjög vígreifur og hérna, svo eru þeir að labba út og allir farnir út nema Sigurjón og þá segir hann svona upp úr eins manns hljóði: Þetta er búið. Og þeir eiginlega kippa honum út og Össur segir: Hvað sagðirðu? Og þá segir Árni Matt: Nei, leyfðu honum að fara, leyfðu honum að fara. Ég veit ekki hvort hann sagði þetta óvart en auðvitað vissu þeir, það var að renna upp fyrir þeim líka að þetta væri búið.“

Athugasemdir við þessa málsgrein eru sem hér segir:

Hér er atburðarás í skýrslu rannsóknarnefndar ónákvæm. Mikilvægt er að fundur sá sem hér er vísað til fór fram áður en Seðlabanki Evrópu hafði dregið til baka kröfu um endurgreiðslur og áður en talað var við breska fjármálaeftirlitið um möguleika á hraðflutningi Icesave til Bretlands. Þetta tvennt gjörbreytti stöðu Landsbankans síðar um daginn og sneri slæmri stöðu í viðunandi. Á þessum tilvitnaða fundi var útlitið sem sagt dökkt en það átti eftir að breytast. Eftir að bankastjórar Landsbankans og varaformaður bankaráðsins höfðu átt símafund með forstjóra breska fjármálaeftirlitsins, FSA, Hector Sants þar sem mögulegur hraðflutningur Icesave reikninga yfir í breskt dótturfélag var ræddur, gjörbreyttist afstaða bankastjóranna, sérstaklega Sigurjóns Árnasonar. Upplýsingum um þessar breyttu aðstæður var komið bréfleiðis til Seðlabankans og stefnt var að fundi með ráðherrum um kvöldið til að upplýsa þá en þeir mættu ekki til fundarins.

Þá segir í skýrslu rannsóknarnefndar af vitnisburði iðnaðarráðherra á bls. 145:

Við skýrslutöku lýsti Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, þessum fundi með eftirfarandi orðum: „[Landsbankamenn] [k]omu að kynna okkur eitthvað, frábært tilboð. Og hann [Björgólfur Thor Björgólfsson] sat þarna í sínum flottu fötum, ofsalegur „seller“, að selja eitthvað sem gekk út á það að þeir áttu að fá Glitni ókeypis og fá alla skapaða hluti og síðan allan gjaldeyrisforðann og eitthvert „guarantee“ til viðbótar. Og Halldór Kristjánsson sat þarna svona eins og laminn hundur og tók ekki mikið undir þetta. Svo var þessi fundur búinn, Sigurjón var þarna, það voru snúðar á borðunum, skornir í tvennt, stórir snúðar. Sigurjón er nú munnstór maður og mikill og þegar þeir voru farnir út og hann var einn eftir þá tók hann svona hálfan snúð, tróð honum upp í andlitið á sér og skaut undan snúðnum þessari setningu: Ég hef ekki trú á þessu, ég hef ekki trú á þessu. Þá kom svona hönd með gullúri og kippti honum út.“

Athugasemdir við þennan kafla eftirfarandi:

Athyglisvert hlýtur að telja að rannsóknarnefnd Alþingis sér ástæðu til að birta lýsingar og frásagnir tveggja ráðherra af sama atburði og auk þess endursögn hagfræðings sem hafði atburðalýsingu eftir einhverjum nafnlausum en sjá ekki ástæðu til að ræða við helsta gerandann um viðkomandi atburði. Ummæli um Björgólf Thor í skýrslu rannsóknarnefndarinnar voru aldrei borin undir hann og hann hefur aldrei fengið tækifæri til að segja sína hlið málsins. Það er vísað í hann í einhverri óljósri tengingu, um að hann hafi haft afskipti af bankastjórum og hvað þeir sögðu. Þetta eru hálfkveðnar vísur.

Tíminn var þarna mjög naumur. Bankastjórar Landsbankans voru beðnir um að hitta bankastjóra Kaupþings og stjórnarmenn og menn þurftu að tala við hluthafana til að kanna hvort hægt væri að sammælast um að grípa til einhverra meiriháttar aðgerða til að bjarga kerfinu. Björgólfur Thor var ekki bankamaður eða sérfræðingur um starfsemi banka og hann hafði aldrei verið í bankaráði Landsbankans og var því ekki vel upplýstur um alla þætti í starfi bankans. Hann var kallaður til sem stærsti hluthafinn í bankanum og hann leit á sig sem verkstjóra eða liðsstjóra eins og komið hefur fram hér að framan. Björgólfur Thor vinnur ávallt mjög hratt og ákveðið. Hann gerði sér fullkomlega grein fyrir gildi tímans. Þarna var hver sekúnda mikils virði. Menn höfðu skamman tíma til að reyna að bjarga málum. Hann taldi það ekki þjóna neinum hagsmunum að spjalla yfir kaffi og snúð þegar stóru verkefnin voru óleyst. Að öðru leyti vísast til þess sem áður sagði, að Sigurjón Þ. Árnason hafði ekki trú á að Kaupþingsmenn væru að segja satt og rétt frá stöðu síns banka.

Þá er umhugsunarvert að einn þeirra ráðherra sem var í lykilstöðu þessa helgi, Össur Skarphéðinsson, skuli vitna með þeim hætti um tilboð Landsbankans að ljóst er að hann skildi ekki hvað var um að tefla. Í hans huga var þetta „eitthvað“, „ókeypis og fá alla skapaða hluti“ og „eitthvert „guarantee““. Þýski fræðimaðurinn og fyrrverandi varafjármálaráðherra Þýskaland, Heiner Flassbeck, hefur haldið á lofti áhugaverðum hugmyndum um hversu skilningsleysi stjórnmálamanna og ráðherra á fjármálakerfi samtímans hafi átt mikinn þátt í ákvörðunum sem gerðu illt verra. Vel má vera að það hafi verið rétt af ráðherrum að hafna hugmyndum Landsbankans en heppilegra hefði verið að þeir hefðu sett sig inn í hugmyndirnar og skilið þær áður en þeir höfnuðu þeim.

Þá er rétt að taka fram að Björgólfur Thor var með silfurúr þessa helgi en ekki gullúr. Ljóst er að þó svo ráðherra hafi bersýnilega verið með hugann við aukatriðin þetta kvöld þá tókst honum ekki einu sinni að greina þau rétt.