Aðdróttanir og rangfærslur ekki brot á siðareglum

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur fjallað um erindi sem ég sendi henni í kjölfar umfjöllunar RUV um aflandsfélög Landsbankans þar sem dróttað var að því að eitt þeirra félaga væri  „samslungið Samson, eignarhaldsfélagi feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors.“ Byggði sú ályktun ríkisfjölmiðilsins á rangfærslum og misskilningi á upplýsingum sem finna má í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þrátt fyrir að RUV væri bent á rangfærslur, bæði í tölvusamskiptum og hér á þessum vef, fékkst miðillinn ekki til að leiðrétta umfjöllunina og var því erindi sent Siðanefndinni sem hefur nú úrskurðað á þá leið að ég verði að una umfjöllun sem byggi á þessum vinnubrögðum. Svo virðist sem að stutt athugasemd sem RUV hnýtti aftan í pistilinn á vef sínum eftir að erindi mitt var sent Siðanefndinni hafi haft verulega áhrif á niðurstöðu nefndarinnar.

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að Fréttastofa Ríkisútvarpsins, Óðinn Jónsson fréttastjóri og Sigrún Davíðsdóttir fréttamaður hafi ekki brotið gegn siðareglum blaðamanna með umfjöllun Sigrúnar í fréttaþættinum Speglinum um aflandsfélög Landsbankans. Siðanefndin kemst að þeirri niðurstöðu að ég verði að una því að um mig sé fjallað „í þessu samhengi“.

Í pistli Sigrúnar, sem hún flutti í Speglinum 22. október sl., var nafn mitt tengt rannsókn sérstaks saksóknara á meintri markaðsmisnotkun fyrrverandi stjórnenda Landsbankans. Eignarhaldsfélag mitt og föður míns, Samson, var tengt einu aflandsfélaga Landsbankans í umfjölluninni og dregnar ályktanir af ályktunum rannsóknarnefndar. Ein tengingin var sú, að Björgólfur Guðmundsson hefði tekið þátt í að breyta samþykktum Empennage og þaðan tekið það stökk að álykta að þar með tengdist Empennage Samson. Talsmaður minn, Ragnhildur Sverrisdóttir, benti Sigrúnu á að hún hefði mislesið skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, enda hefði ljóslega verið vísað í breytingar á samþykktum Landsbankans vegna hlutafjáraukningar. Sigrún viðurkenndi þau mistök, en fréttastofan neitaði samt að birta leiðréttingu og bar fyrir sig að röksemdafærsla Sigrúnar í pistlinum byggðist ekki á þessu atriði.

Eftir að ég kærði málið til Siðarnefndar Blaðamannafélagsins birti RÚV athugasemd við pistil Sigrúnar á netinu þar sem rangfærslurnar voru viðurkenndar. Í þeirri athugasemd er því hins vegar haldið fram að Empennage hefði keypt hlutinn í Landsbankanum, en þó var fréttamaðurinn með opinberar upplýsingar um að Empennage hefði ekki eignast hlut í Landsbankanum frá því á miðju ári 2006 og að hlutafjáraukningin var gerð vegna kaupa á breska verðbréfafyrirtækinu Bridgewell, eins og skýrt hafði verið frá í fréttum.

Siðanefnd Blaðamannafélagsins virðist hins vegar telja athugasemd Sigrúnar fullnægjandi og að ég verði að sæta því að um mig sé fjallað „í þessu samhengi“, þ.e. að ég sé meðsekur í meintum lögbrotum stjórnenda bankans. Siðanefndin tekur einnig fram, að ég sé ekki nefndur í sambandi við rangfærslurnar um hlutafjáraukninguna, heldur Björgólfur Guðmundsson og Samson. Í sama úrskurði sömu nefndar er hins vegar vísað í þau ummæli Sigrúnar í pistlinum að Empennage hafi verið „samslungið Sanson eignarhaldsfélagi í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors.“ Og virðist nú hægri höndin ekki vita hvað sú vinstri gerir.

Siðanefnd Blaðamannafélagsins var við afgreiðslu þessar erindis skipuð þeim Hirti Gíslasyni, Jóhannesi Tómassyni, Ásgeiri Þór Árnasyni, Friðriki Þór Guðmundssyni og Valgerði Önnu Jóhannsdóttur.

Talsmaður minn hefur óskað eftir að fá greinargerð hinna kærðu til Siðanefndar afhenta, enda nauðsynlegt að sjá hvaða rök Ríkisútvarpið og starfsmenn þess færa fyrir vinnubrögðum sínum.