Að spara eyrinn en kasta krónunni

Ýmsu er enn ósvarað um hvers vegna ríkið ákvað að leggja sumum fjármálafyrirtækjum til fé, en hunsa önnur, sem þó stóðu mun betur. Tugir milljarða runnu til sparisjóða og fyrirtækja á borð við Saga Capital og VBS – að ógleymdum nær 12 milljörðum í Sjóvá, – en öðrum var meinað um aðstoð í tímabundnum lausafjárvanda.

 

Pétur Blöndal alþingismaður benti á óútskýrt misræmi í fyrirspurnartíma á Alþingi 2. mars sl. Hann gerði þar að umtalsefni lán til Saga Capital sem og til VBS, sem voru á mun betri kjörum en almennt buðust, eða 2% vöxtum og því í raun ríkisstyrkur. Saga Capital fékk þannig 15 milljarða lán og VBS fjárfestingarbanki heila 26 milljarða, en sá síðarnefndi er nú gjaldþrota og ljóst að þessi upphæð er glötuð. Um þessar lánveitingar sagði þingmaðurinn Pétur Blöndal, samkvæmt frétt mbl.is:

„Þessi meðferð, annars vegar á Sögu Capital og VBS og hins vegar á nokkrum sparisjóðum, Sparisjóði Þórshafnar þar á meðal, stangast mjög á við það hvernig farið var með önnur fjármálafyrirtæki. Má þar nefna Straum-Burðarás, sem ekki þurfti eiginfjárinnspýtingu heldur var vandi hans lausafjárvandi. Þá var SPRON látinn fara á hausinn, en fimm smærri sparisjóðir, sem voru með neikvætt eigið fé, fengu eiginfjárframlag frá ríkinu.“ 

Að því er fram kemur í fréttinni á mbl.is svaraði fjármálaráðherra því til að úr málum Sögu og sparisjóðanna hefði verið unnið algerlega sjálfstætt og óháð öðru.

Það væri athyglisvert að sjá skjalfestar röksemdir ríkisvaldsins fyrir jafnt inngripum sínum sem afskiptaleysi. Þær röksemdir hefur oft skort og ekki verður séð að innan stjórnsýslunnar hafi verið farið kerfisbundið yfir þá kosti sem í boði voru, áður en ráðist var í aðgerðir. Þar virðast tilviljanir og stefna eða stefnuleysi einstakra manna hafa ráðið mestu.

Það er dæmigert fyrir íslenska stjórnsýslu, að ekki liggja fyrir gögn um hvernig sú ákvörðun var tekin að beita neyðarlögunum til að fella fjárfestingarbankann Straum-Burðarás. Í lokakafla sagnfræðilegrar samantektar um fall Straums kemur skýrt fram að ráðuneyti og stofnanir hafa ekki hirt um að rita eða geyma minnisblöð, fundargerðir eða bréf um þá órökstuddu aðgerð. Straumur hafði þegar samið við lánardrottna sína um að fresta afborgunum og náð að selja eignir. Stefnt var að frekari sölu eigna fyrir 200 milljónir evra á næstu mánuðum, en farið var fram á 100 milljónir evra að láni frá Seðlabankanum til að brúa bilið. Með fyrirgreiðslunni hefði bankinn getað greitt allar skuldir sem fyrirsjáanlegt var að standa þyrfti skil á.

Þegar ljóst var að Straumur fengi ekki fyrirgreiðslu ákváðu stjórnendur hans að óska eftir greiðslustöðvun. Fjármálaeftirlitið greip hins vegar inn í atburðarásina með því að beita neyðarlögunum og setja skilanefnd yfir bankann. Sú ákvörðun var tekin í sama mánuði og ríkið taldi rétt að leggja VBS til 26 milljarða og ber vott um „margt það versta sem einkennt hefur íslenska stjórnsýslu,“ eins og það er orðað í tilvitnaðri sagnfræðilegri samantekt.