Að lokum

Við lestur bókar Árna Mathiesen fást ekki svör við því af hverju stjórnvöld tóku þrjár mikilvægar ákvarðanir daga 28. september til  7. október 2008 og af hverju öðrum kostum var hafnað.

1

Í fyrsta lagi liggur engin raunveruleg greining fyrir á valkostum við úrlausn vanda Glitnis í lok september og því fást ekki svör við spurningunni af hverju hann sem vörslumaður fjár ríkisins samþykkir að ráðstafa um 84 milljörðum króna til að kaupa 75% í Glitni. Eina skýringin sem sett er fram er að Seðlabankinn hafi verið með þessa hugmynd og að hún var „afar einföld í grunninn“ (Bls. 22.) Síðan réttlætir ráðherra gjörninginn með vísun í eitthvað sem sagt var eftirá.

2

Í öðru lagi varpar bók Árna Matt litlu ljósi á þá spurningu af hverju ríkisvaldið brást ekki við með neinum hætti vikuna eftir yfirtöku Glitnis. Bókin staðfestir hins vegar aðgerða- og ráðaleysi ríkisstjórnar því þá viku afgreiðir bókaritari á tveimur blaðsíðum (bls. 26-28.) með lýsingum á atburðum eins og t.d. hruni  á lánshæfismati ríkisins rétt eins og málið hefði lítið með Árna Matt að gera.

3

Í þriðja lagi er fjármálaráðherra með getgátur um einhvern „undarlegasta og óskiljanlegasta gjörning hrunsins,“ þegar að Kaupþingi voru lánaðar 500 milljónir evra aðfaranótt 6. október en Landsbankanum hafnað um lán að svipaðri upphæð til að reyna að liðka fyrir flutningi á Icesave í breska lögsögu.  Ráðherra segir um lánveitinguna til Kaupþings „… en ég vissi ekki smáatriðin í þessu. Ákvörðunin var ekki borin undir mig.“ (Bls. 48.) Það að reyna að rökstyðja síðan þennan gjörning með því að von var á „einhverjum peningum“ inn í Kaupþing er grátlegt.

Af þessu er ljóst að sá sem áhuga hefur á að komast að því hvernig ákvarðanir voru teknar á ríkisstjórnarheimilinu þessar örlagaríku vikur og hverjir tóku þær og á hvaða forsendum þarf að leita lengra en í bók Árna Matt. Hafi einhver áhuga á vörn Árna við kærum og ásökunum um vanrækslu er bók þessi mikilvæg. Það sem mér finnst fróðlegast við lestur þessarar bókar er að sjá hversu íslensk stjórnvöld byggja ákvarðanir sínar á veikum grunni, virkja seint sérfræðinga, samhæfa illa stjórnsýslustofnanir, leita lítið eftir ólíkum sjónarmiðum, kanna lítt áreiðanleika upplýsinga sem þau byggja mikilvægar ákvarðanir á og síðast en ekki síst hvað þau skynjuðu vandamál þröngt og einangrað. Einnig kemur það mér á óvart að í uppgjörsbók eins og þessari bók Árna Matt virðist þróun mála á Íslandi  ekki sett í samhengi við það sem var að gerast annars staðar, einkum á Bretlandi og í Bandaríkjunum. Besta dæmið er frásögn Árna Matt af samskiptum sínum við bresk stjórnvöld þann 8. október 2008 þar sem viðbrögð Breta eru ekki sett í samhengi við það sem síðar hefur komið fram, að þann dag hékk breska fjármálakerfið á bláþræði og jafnvel fjármálakerfi heimsins og bresk stjórnvöld tóku ákvörðun um að styðja kerfið um 500 milljarða sterlingspunda og bandarísk yfirvöld voru að ganga frá áætlun um stuðning við sína banka upp á 700 milljarða bandaríkjadala[1].

Það er enn langt í land með greininguna á því að íslenska bankakerfið óx eins hratt og raun ber vitni og afhverju það hrundi þegar hvessa tók á hinum alþjóðlegu mörkuðum. Greining á því hvar og hvernig hinar ytri aðstæður hins hnattvædda fjármálakerfis knúðu þannig á að heimatilbúnar aðstæður á Íslandi mögnuðu upp vandann – hvenær athafnir eða athafnaleysi bankanna urðu vandi stjórnvalda og hvenær aðgerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda urðu vandi bankakerfisins – og hvernig vandi viðskiptavina bankanna varð vandi bankanna og öfugt.  Eins er þeirri spurningu ósvarað hvort sú ákvörðun ríkisvaldsins að reyna að styðja veikasta bankann hafi ekki í raun smitað allt kerfið. Og jafnframt hvort hrun fjármálakerfisins hafi orðið vegna þess að persónur og leikendur gengu lengra en lög og reglur leyfðu eða hvort allt hrundi þrátt fyrir að allir hafi reynt að gera sitt besta og lagt sig fram um að spila eftir settum reglum. Ekki er varpað ljósi á þá staðreynd, að þrír bankar leituðu eftir aðstoð ríkisins og tveir þeirra – Glitnir og Kaupþing, fengu stuðning en einum þeirra – Landsbankanum, var aldrei rétt hjálparhönd og stóð greinilega aldrei til að gera það. Lesendur bókarinnar Árni Matt – Frá bankahruni  til byltingar eru litlu nær um þessi  atriði.[1]Sjá tilvitnun 1 í kaflanum Vanmat á aðstæðum eða vanþekking á viðfangsefninu.