Áburður og uppspuni tekinn gildur
„Af óskiljanlegum ástæðum var margvíslegur áburður og uppspuni tekinn gildur af höfundum rannsóknarskýrslu Alþingis,“ sagði Samfylkingarkonan Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður efnahags- og viðskiptaráðherra, á fundi stuðningsmanna Geirs H. Haarde í gær. Til skamms tíma var það svo, að vart mátti hallmæla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en nú er vonandi komið að því að skýrslan fái þá málefnalegu umfjöllun, sem eðlileg er. Ég hef lagt mitt af mörkum og bent á ótalmörg atriði þar sem aðferðafræði rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstöður hennar orka vægast sagt tvímælis og eru stundum beinlínis rangar.
Ég tók ekki þátt í opinberri umræðu um einstök atriði skýrslunnar fyrsta árið eftir útkomu hennar, þótt þar hafi margt komið fram sem full ástæða var til að útskýra og leiðrétta. Ég taldi það allra hag að láta kyrrt liggja. Mikilvægara væri að þjóðinni tækist að gera skýrsluna, þó gölluð væri, að upphafsreit uppbyggingar en að ég sendi frá mér leiðréttingar við rangfærslur viðmælenda nefndarinnar og skýrsluhöfunda sjálfra. Því miður varð mér ekki að ósk minni. Skýrslan hefur enn engin áhrif haft til góðs á íslenskt samfélag, eins og ég lýsti yfir í grein í Fréttablaðinu 13. apríl sl.
Á starfstíma sínum leitaði nefndin aldrei til mín eftir neinum upplýsingum eða athugasemdum, en hikaði þó ekki við að birta ýmsar staðhæfingar, rangfærslur og óburðugar ályktanir, sem að mér lutu. Ég lét því vinna fyrir mig samantekt á öllum þeim atriðum í skýrslunni sem mig varða og þær athugasemdir er að finna hér á vefnum.
Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra var einna fyrstur manna til að orða gagnrýni á rannsóknarskýrsluna þegar hann sagði í ræðu á ársfundi Seðlabanka Íslands í apríl sl.: „Rannsóknarnefnd Alþingis stillti orsökum falls íslensku bankanna upp í 68 mismunandi atriðum án orsakasamhengis, án alþjóðlegs samanburðar og án greiningar á sögulegu samhengi.“ Í Viðskiptablaðinu var þessi gagnrýni ráðherrans hugsanlega talin marka tímamót og ritað að hún ætti að verða fræðimönnum hvatning. Enn fer þó lítið fyrir að sú hvatning hafi brýnt fræðimenn til verka. En dropinn holar steininn og kannski verða orð Kristrúnar Heimisdóttur til þess að menn skoði vinnu rannsóknarnefndarinnar, aðferðafræði hennar og niðurstöður af fræðilegri gagnrýni.