4G og netsími hjá Nova

Símafyrirtækið Nova sem er í eigu fjárfestingafélags míns, Novators, hefur ávallt verið í fararbroddi tækninýjunga á farsímamarkaði. Fyrirtækið hefur nú, fyrst íslenskra símafyrirtækja, hafið prófanir á 4G, fjórðu kynslóð farsímanetkerfa. Þá kynnti fyrirtækið nýlega nýja þjónustu, Nova netsímann, sem virkar ekki ósvipað Skype. Hægt er að hringja úr netsímanum í öll símanúmer, innanlands og utan, en símtöl á milli tveggja Nova netsíma eru alltaf ókeypis.

 

Nova hefur sótt í sig veðrið jafnt og þétt frá því að fyrirtækið tók til starfa og ánægja viðskiptavina var augljós í niðurstöðum Íslensku ánægjuvogarinnar í byrjun þessa árs, þegar Nova fékk hæstu einkunn allra þeirra fyrirtækja sem ánægjuvogin náði til. Áður hafði Nova hlotið hæstu einkunn allra farsímafyrirtækja á Íslandi og verið valið markaðsfyrirtæki ársins. Þá var fyrirtækið tilnefnt til markaðsverðlaunanna í ár. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingu félagsins frá stofnun þess í maí 2006. Starfsmenn eru nú hátt í eitt hundrað og þar er valinn maður í hverju rúmi.

Nova hefur nú hafið prófanir á 4G farsíma- og netþjónustu, en fyrirtækið sótti fyrst íslenskra fjarskiptafyrirtækja um 4G tilraunaleyfi í maí sl. Nú nær 3G farsímakerfi Nova til yfir 90% landsmanna og allra bæjarfélaga með 500 eða fleiri íbúa. Nova hefur verið í fararbroddi í 3G þjónustu á Íslandi með áherslu sinni á netið í farsímann og punginn í fartölvuna.