Traustir alþjóðlegir fjárfestar

Þó svo Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hafi á sínum tíma haft forystu um stofnun Verne Holding er það félag nú að stærstum hluta í eigu tveggja traustra erlendra fjárfestingasjóða, – General Catalyst Partners og Wellcome Trust. Það er mikill ávinningur fyrir íslenskt atvinnulíf að tekist hafi að fá jafn öfluga og virta alþjóðlega fjárfesta til að taka þátt í uppbyggingu nýrra atvinnugreina á Íslandi.

General Catalyst

Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn General Catalyst Partners lagði fé í leikjafyrirtækið CCP árið 2006. Reynslan af þeim viðskiptum og samstarfi við Björgólf Thor Björgólfsson leiddi til þess, að sjóðurinn ákvað að fjárfesta einnig í fyrirhuguðu gagnaveri Verne Global í Reykjanesbæ. David Fialkow, forstjóri fjárfestingarsjóðsins, sagði í samtali við Boston Business Journal  hinn 6.mars á síðasta ári að hann reiknaði með að gagnaverið yrði eitt stærsta fjárfestingarverkefni sjóðsins. Þá sagði hann í samtali við DV í desember 2009 að hann liti á gagnaverið sem langtímafjárfestingu, þrátt fyrir að höfuðáhersla General Catalyst beinist að skammtímafjárfestingum.

Fjárfestingarsjóðurinn var stofnaður fyrir tíu árum og er fjárfestingargeta hans nú talin nema um 234 milljörðum króna. Af þeim verkefnum, sem sjóðurinn hefur lagt til fé, hafa mörg náð að blómstra og orðið að öflugum fyrirtækjum. Fyrir utan CCP leikjafyrirtækið má nefna ferðasíðuna kayak.com, myndbandasíðuna brightcove.com,  Hands-On Mobile, sem framleiðir leiki og afþreyingu fyrir farsíma, ýmis fyrirtæki sem huga að vistvænum orkugjöfum,  og fyrirtæki á sviði fjarskipta, netmiðlunar og hugbúnaðar, svo dæmi séu nefnd. Sjóðurinn getur þannig státað af að hafa stutt við bakið á mörgum áhugaverðum sprotafyrirtækjum og aðstoðað þau við að komast á legg.

General Catalyst Partners keypti hlut  í leikjafyrirtækinu CCP árið 2006, eins og áður sagði. Þá var Novator, félags Björgólfs Thors, þegar orðinn stór eigandi í CCP. Þessir tveir eigendur ákváðu svo að hrinda í framkvæmd þeirri hugmynd að koma upp gagnaveri á Suðurnesjum. Í fyrstu átti Novator um 40% hlut í félaginu á móti 60% hlut General Catalyst, en sá hlutur minnkaði mjög með aðkomu breska fjárfestingarsjóðsins Wellcome Trust og er nú um fimmtungur. Alls er reiknað með að heildarfjárfesting eigenda í álverinu verði um 700 milljónir dala þegar það verður fullbúið árið 2016, eða um 90 milljarðar króna. Það fé kemur allt frá útlöndum, dýrmætur, erlendur gjaldeyrir, til atvinnuuppbyggingar á því landsvæði þar sem atvinnuleysi er hvað mest. Búist er við að um 100 manns fái vinnu í gagnaverinu.

Bandarískir fjölmiðlar hafa reglulega sagt fréttir af General Catalyst Partners. Í mars árið 2009 vakti sérstaka athygli þegar einn stofnenda Facebook, Chris Hughes, gekk til liðs við fjárfestingarsjóðinn. Hlutverk hans er að laða ungt fólk með sprotahugmyndir til sjóðsins.

Wellcome Trust

Í janúar 2010 var greint frá því að Verne Holdings ehf., móðurfélag Verne Global, hefði undirritað endanlegan samning um hlutafjárframlag frá Wellcome Trust. Í samkomulaginu felst að Wellcome Trust fjármagnar fyrsta hluta gagnavers á Keflavíkurvelli. Vart hefði verið völ á öflugri hluthafa, því Wellcome Trust er annar stærsti bakhjarl rannsókna í líf- og læknisfræði í heimi.

Wellcome Trust var komið á laggirnar árið 1936, sem góðgerðarsjóði á sviði heilbrigðisrannsókna. Eignir hans eru að andvirði 21 milljarður Bandaríkjadala og lánshæfismatið er AAA/aaa. Í tilkynningu vegna undirritunarinnar sagði Dominic Ward hjá fjárfestingadeild Wellcome Trust, að stórir viðskiptavinir sæu brýna nauðsyn á að draga verulega úr orkukostnaði og koltvísýringslosun gagnavera.  „Verne Global ryður nýjar brautir með því að nýta náttúrulegar og vistvænar orkulindir Íslands, í því skyni að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda og vaxandi orkukostnað.“

Með aðkomu Wellcome Trust gátu eigendurnir, breski góðgerðarsjóðurinn, General Catalyst Partners og Novator, haldið áfram uppbyggingu fyrsta heildsölugagnaversins sem veldur engri losun koltvísýrings.

Wellcome Trust leitar sífellt nýrra leiða til að láta að sér kveða í samfélaginu. Í febrúar 2010 var leikritið Pressure Drop , m.a. með hinum kunna róttæka breska tónlistarmanni Billy Bragg, frumsýnt í London, en uppsetning þess var styrkt af sjóðnum. Fyrirhugað er að framhald verði á slíkum verkefnum, svo framarlega sem efni leikrita telst hafa mikilvæga, samfélagslega skírskotun.