Þjóðnýting Glitnis felldi kerfið

BGS

„Ákvörðun um að þjóðnýta Glitni var kornið sem fyllti mælinn og verður íslenska bankakerfinu að falli,“ segir fyrrum viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson í nýútkominni bók sinni Stormurinn. Helstu skýringar bankaráðherrans á hruni bankakerfisins virðist vera of stórt bankakerfi fyrir lítið þjóðarbú, of lítil og  veik sjálfstæð mynt og röng viðbrögð stjórnvalda við greiðsluerfiðleikum Glitnis í lok september 2009. Í bókinni eru ekki lagðar fram neinar upplýsingar um á hvaða efnislegum forsendum um stöðu fjármálakerfisins mikilvægar ákvarðanir ríkisvaldsins voru teknar. Hvorki um að þjóðnýta Glitni, né að styðja ekki með lánum eða hlutfjárgreiðslum sameiningu banka, né að veita ekki Landsbankanum  lán til að koma Icesave í skjól, né að veita Kaupþingi lán upp á 500 milljónir evra né afhverju leið neyðarlaga var valin umfram aðrar.

Bók Björgvins G. Sigurðssonar er heiðarleg og sanngjörn. Hann ætlar ekki neinum þeirra sem voru þátttakendur í hruni íslenska fjármálakerfisins neitt annað en góðan vilja til að gera það sem þeir töldu rétt á hverjum tíma. Sjálfur sér hann ekki að embættisfærslur sínar hafi getað verið aðrar en þær voru en á hinn bóginn játar hann ýmis stjórnmálaleg mistök eins og að bera of mikið lof á bankaútrásina og að segja ekki af sér strax eftir að hann sem bankamálaráðherra stóð frammi fyrir orðnum hlut varðandi ákvörðun ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands um þjóðnýtingu Glitnis. Hann telur hins vegar að sú afstaða sín að tala frekar fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu fremur en að flytja bankana til útlanda hafi verið réttlætanleg.

Bók Björgvins er um pólitík og dregur upp mynd af ósamstæðri ríkisstjórn sem nær ekki að vinna saman vegna nærveru fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi bankastjóra Sjálfstæðisflokksins, Davíðs Oddssonar. Bókin gefur innsýn inn í átök í Samfylkingunni þar sem deilt er um hvort slíta eigi stjórnarstarfi sem formaður flokksins hafði stofnað til en sá hinn sami lá á sjúkrabeði í New York þessa dagana fjarri vopnabraki stjórnmála á Íslandi. Það voru því margt annað sem leitaði á ráðherra þessa dagana en hvernig ríkisvaldið ætti að bregðast við óvæntum og örlagaríkum atburðum á fjármálamarkaði. Bókin veitir litlar sem engar upplýsingar um efnisatriði eða staðreyndir sem lágu til grundvallar þeim lykilákvörðunum sem stjórnvöld tóku eða tóku ekki frá fimmtudeginum 25. september 2008 að telja þegar forsvarsmenn Glitnis greina Seðlabanka Íslands frá greiðsluvanda sínum og þar til allt er um garð gengið með setningu neyðarlaga og síðan laga um gjaldeyrishöft fáeinum vikum síðar. Teymi sérfræðinga frá JP Morgan virðist hafa miklu ráðið og ekki er að sjá að ríkisvaldið hafi leitað í önnur hús eftir ráðum eða farið yfir og kannað áreiðanleika gagna og ályktana teymisins með skipulögðum hætti. Í bókinni segir:

 

„Í tæplega klukkutíma langri yfirferð sinni rammaði talsmaður hópsins frá J.P. Morgan stöðuna inn: Bankakerfið var að falla. Það er of seint að bjarga því:

Ákvörðunin um að þjóðnýta Glitni var kornið sem fyllti mælinn og verður íslenska bankakerfinu að falli. …

Afdráttarlaust mat þeirra var, að þjóðnýting Glitnis hefði fellt kerfið og gert vonina um að bjarga því nánast að engu. Nú er bara eitt að gera, bættu þeir við: Setja neyðarlög um yfirtöku ríkisins á innlendri starfsemi bankanna.

Við sátum agndofa undir þessari ræðu. Myndin sem þeir drógu upp var svo skörp, afdráttarlaus og sannfærandi að enginn vafi lék lengur á hvað var að gerast. Þessi kafli Íslandssögunnar var á enda.“

Svona lýsir bankaráðherra fundi sem haldinn er eftir miðnætti 6.október – viku eftir ákvörðun stjórnvalda um þjóðnýtingu Glitnis og rúmri klukkustundu eftir að forsætisráðherra hafði sagt við þjóðina á tröppum Ráðherrabústaðarins að ekki væri þörf á neinum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnar vegna aðsteðjandi vanda á fjármálamörkuðum. Ekki er annað að sjá að en að þessi fyrirlestur JP Morgan mannanna hafi ráðið ákvörðun stjórnvalda þar sem ekki kemur fram að stjórnvöld hafi kallað eftir öðru mati eða sjónarmiðum þarna um nóttina heldur í beinu framhaldi tekið ákvörðun um setningu neyðarlaganna og jafnframt að veita Landsbankanum ekki lán til að greiða fyrir flutningi Icesave-reikninganna í breskt dótturfélag og að veita Kauþingi lán upp á 500 milljónir króna. Þar sem gögn og kynningar JP Morgan liggja ekki fyrir opinberlega er erfitt að meta ráðgjöf þeirra en eins og bent hefur verið á þá er ljóst að mat þeirra á stöðu eigna bankanna var rangt ef marka má upplýsingar  rannsóknarnefndar Alþingis. JP Morgan-mennirnir halda því fram að staða Kauþings hafi verið sterkust en í gögnum rannsóknarnefndarinnar segir að niðurfærsluþörf eigna Kaupþings hafi í nóvember 2008 verið 69%, 65% hjá Glitni en 54% hjá Landsbankanum.

Við lestur bókar Björgvins G. kemur vel í ljós hversu fáliðuð og veikburða íslensk stjórnsýsla er og höllum fæti hún stendur gagnvart þeim alþjóðlegu kröftum sem eru í dag nauðsynlegur hluti af íslensku viðskipta- og menningarlífi. Björgvin er afdráttarlaus Evrópusinni og telur að innganga í Evrópusambandið svari flestum spurningum um hvernig íslenskt samfélag á að laga sig að hinu alþjóðlega umhverfi. Hvort það séu endanlega réttu svörin skal ósagt látið en hins vegar eru spurningarnar mikilvægar og þeim þurfa Íslendingar að svara fyrr en seinna því stormar að utan gera ekki alltaf boð á unda sér.