Stefni að því að gera upp mínar skuldir

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er greint frá skuldum mínum í þeim íslensku bönkum sem ég var stór hluthafi í fram að yfirtöku ríkisins á þeim í október 2008 og mars 2009, – þ.e. Landsbankanum og Straumi. Vegna þessara umfjöllunar tel ég rétt að gera opinberlega grein fyrir lánum mínum í þessum bönkum og þá um leið leiðrétta rangfærslur sem finnast í skýrslunni en  nefndin óskaði hvorki eftir upplýsingum frá mér, né kallaði mig til viðtals og gaf mér því ekki kost á að svara þeim aðfinnslum eða rangfærslum sem að mér beinast. Þess vegna sendi ég í dag frá mér yfirlýsing og greinargerð til fjölmiðla þar sem kemur m.a. fram að ég stefni að því að gera upp mínar skuldir.

Yfirllýsing mín vegna umfjöllunar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um lán mín í Landsbankanum er svohljóðandi:

Lánin verða gerð upp að fullu

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er á nokkrum stöðum fjallað um lán mín og tengdra aðila. Eins og fram kom í grein sem ég skrifaði og birt var í Fréttablaðinu 15. apríl sl. eru heildarniðurstöður skýrslu rannsóknarnefndarinnar óvéfengjanlegar og í greininni bað ég Íslendinga afsökunar á mínum hlut í hruni fjármálakerfisins.

Eitt af því sem er ámælisvert og fram kemur í skýrslunni eru miklar lántökur stærstu eigenda bankanna. Ég er þar ekki undantekning. Umsvif mín sem alþjóðlegs fjárfestis hafa undanfarin ár verið mikil og lengi vel mjög farsæl. Sem lið í því átti ég viðskipti við lánastofnanir, sem í mörgum tilvikum sóttust eftir þeim viðskiptum að fyrra bragði. Þrátt fyrir að stærsti hluti lánaviðskipta minna hafi verið við erlendar fjármálastofnanir, þá sé ég núna að eðlilegra hefði verið fyrir mig sem alþjóðlegan fjárfesti að beina lánaviðskiptum mínum enn frekar frá Íslandi. Eftir stendur að þessi lán voru veitt og vil ég hér greina frá því hvert þessir peningar fóru.

Í greinargerð sem fylgir þessari yfirlýsingu geri ég grein fyrir þessum lánum, tilurð þeirra, verkefnum sem fjármunirnir runnu til og stöðu þeirra í dag. Þá leiðrétti ég jafnframt rangfærslur sem finnast í rannsóknarskýrslunni en nefndin óskaði hvorki eftir upplýsingum frá mér, né kallaði mig til viðtals og gaf mér því ekki kost á að svara þeim aðfinnslum eða rangfærslum sem að mér beinast. Sem dæmi má nefna fullyrðingar um að ég hafi tekið lán hjá Landsbankanum vegna Actavis örfáum dögum fyrir fall Landsbankans. Ég hef áður lýst því, að dregið var á þetta lán í áföngum frá apríl fram í september 2008. Fyrir láninu voru fullkomlega eðlilegar viðskiptalegar forsendur, tryggingar voru öruggar og lánið verður gert upp að fullu, líkt og önnur lán mín.

Eins og stendur á ég í viðræðum við lánardrottna og stefni ég að því að gera upp allar mínar skuldir við íslenskar lánastofnanir sem og erlendar. Eigur mínar standa að baki því uppgjöri og hef ég afhent lánardrottnum mínum ítarlegt yfirlit allra minna eigna. Ég einbeiti mér að þessu skuldauppgjöri á næstu árum og vil ljúka því með sóma.

Björgólfur Thor Björgólfsson

Hér má síðan lesa yfirlýsinguna og greinargerðina

í heild sinni.