„Samslungnar“ ályktanir á RÚV hrein firra

Í pistli í fréttaskýringaþættinum Speglinum í Ríkisútvarpinu föstudaginn 22. október fullyrðir Sigrún Davíðsdóttir fréttamaður að tengsl séu á milli kaupréttarfélaga starfsmanna Landsbankans og kjölfestufjárfesta í Landsbankanum og reynir þannig að tengja rannsókn sérstaks saksóknara á málefnum félaganna fyrrum eigendum Landsbankans. Hinn reyndi fréttamaður mistúlkar upplýsingar í lánayfirliti Kaupþings og segir að eitt af kaupréttarfélögunum sé „samslungið Samson“. Þetta er hrein firra. Tilefni ályktana fréttamannsins er að í bókum Kaupþings er áhættan af lánum til þessara tveggja félaga sögð  sú sama. Skýringin er væntanlega sú að hlutabréf í Landsbankanum voru einu veðin á bak við þessi lán og því áhættan sú sama.   Þessi „fréttaflutningur“ er forkastanlegur og hér með fer ég fram á að fréttamaðurinn dragi meiðandi ummæli sín til baka.

 

Tilgangur pistilsins á RÚV virðist sá einn að tengja eigendur Samson, Björgólf Thor Björgólfsson og Björgólf Guðmundsson, við rannsókn á meintri markaðmisnotkun fyrrverandi stjórnenda Landsbankans. Með glannalegum og órökstuddum ályktunum sínum virðist fréttamaðurinn þannig kominn langt fram úr Fjármálaeftirlitinu og sérstökum saksóknara og byggir þar helst á mistúlkun á upplýsingum í lánayfirliti Kaupþings frá 2008 og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Fjármálaeftirlitið sent sérstökum saksóknara mál sem lýtur að meintri markaðsmisnotkun fyrrverandi stjórnenda Landsbankans. Þá staðreynd fer fréttamaðurinn reyndar rétt með, en bætir svo strax við:  „Skýrsla rannsóknarnefndarinnar gefur tilefni til að álíta að félög í þeim fléttum tengist líka þáverandi kjölfestufjárfestum Landsbankans.“ Rétt eins og Fjármálaeftirlitið hafi ekki kynnt sér efni þeirrar skýrslu, eða hreinlega ekki skilið hana jafn vel og fréttamaðurinn.

Fréttamaðurinn segir kjarnann í meintri markaðsmisnotkun Landsbankans „að öllum líkindum“ aflandsfélög sem áttu „að því er virtist“ að halda utan um kauprétti starfsmanna.

Rétt er að ítreka, að fyrirkomulag kaupréttar starfsmanna Landsbankans  var í föstum farvegi áður en Samson kom að bankanum, enda kerfinu komið á árið 2000 þegar ríkið var enn ráðandi hluthafi. 

Sigrún Davíðsdóttir hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni að  rannsóknarnefnd Alþingis hafi skoðað aflandsfélög um kauprétti starfsmanna rækilega, „en á endanum í raun ekki vitað nákvæmlega hvernig þau voru notuð“. Það virðist hins vegar þessi heimildarmaður vita og „bendir á að alveg frá 2006 hafi félögin verið notuð til að bjarga málum eða svindla með eigið fé, allt eftir því hvernig á það er litið.”

Það er með ólíkindum að reyndur fréttamaður skuli fela sig að baki ónafngreindum heimildarmanni til að varpa fram svo alvarlegum fullyrðingum.  Þar virðast helstu rökin vera þau, að í lánabók Kaupþings virðist eitt aflandsfélaganna, sem fréttamanninum verður tíðrætt um, talið með Samson. Hugsanleg skýring á því gæti verið sú, að undirliggjandi áhætta í báðum tilvikum er hlutabréf í Landsbankanum. Það hvernig Kaupþing flokkar áhættu í sínum bókum getur hins vegar ekki verið grundvöllur alvarlegra ásakana á hendur eigendum Samson um lögbrot. Rétt er að benda á að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ekki litið svo á að kjölfestufjárfestar í Landsbankanum hafi átt aðild að umræddum kaupréttarfélögum. Pistlahöfundur Ríkisútvarpsins telur sig vita betur og hikar ekki við að bera á borð fyrir alþjóð rakalausan óhróður.

Samson og eigendur þess, Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson, tengjast rannsókn á meintri markaðsmisnotkun Landsbankans ekki með nokkrum hætti. Hér með er skorað á Sigrúnu Davíðsdóttur að draga meiðandi ummæli sín til baka.