Samningur um gagnaver í höfn

Alþingi Íslendinga samþykkti með 36 atkvæðum gegn 5 heimild til stjórnvalda um samninga um gagnaver Verne Holdings á Miðnesheiði á Reykjanesi. Samningarnir eiga að byggja á almennum ákvæðum um skattaívilnanir í frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi og sátt virðist ríkja um enda herma fréttir að starfsemi gagnversins geti dregið úr atvinnuleysi á Suðurnesjum um 35%. Engu að síður hefur heimild þessi til Verne Holding verið umdeild vegna þess að ég er í hópi hluthafa. Þar sem ég var í hópi upphafsmanna að þessu verkefni og fékk erlenda meðfjárfesta að þessu verkefni vildi ég ekki að þátttaka mín yrði til þess að valda þeim tjóni. Því sendi ég bréf til iðnaðarnefndar  á meðan málið var í meðförum þingsins þar sem ég bauðst til þess að afsala mér öllum ávinningi af hugsanlegum samningum ríkisins við Verne Holding. Það tilboð mitt er hluti af samningum við ríkið og gleður það mig að mál þetta er nú í höfn og framkvæmdir geta hafist á nýjan leik. Hins vegar er ég enn þeirrar skoðunar að málatilbúnaður ýmissa þingmanna vegna þessa máls sé fyrir neðan alla hellur en sumur þeirra hafa þjófkennt mig í skjóli þinghelgi og siðferðisstefnur heilu stjórnmálahreyfinganna hafa verið rökstuddar með undarlegum ályktunum  um að ég sé ekki traustins verður.

Alþingi Íslendinga samþykkti með 36 atkvæðum gegn 5 heimild til stjórnvalda um samninga um gagnaver Verne Holdings á Miðnesheiði á Reykjanesi. Samningarnir eiga að byggja á almennum ákvæðum um skattaívilnanir í frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi og sátt virðist ríkja um enda herma fréttir að starfsemi gagnversins geti dregið úr atvinnuleysi á Suðurnesjum um 35%.

Eins og stjórnarformaður Verne Holding, Vilhjálmur Þorsteinsson, hefur bent á eru samningar sem þessi bundnir við atvinnuþróunarsvæði og hafa það að markmiði að tryggja til langs tíma viðskiptaumhverfi einkum skatta og gjöld og stuðla þannig að stöðugleika við uppbyggingu nýrra atvinnugreina og fyrirtækja.

Í ljósi áratugalangrar umræðu um umhverfisvæna atvinnustarfsemi sem byggir á nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar og einnig með hliðsjón að erfiðu atvinnuástandi á Suðurnesjum og almennum samdrætti í útflutningstekjum Íslendinga hefði mátt ætla að mál þetta nyti stuðnings fulltrúa almennings á Alþingi. Í blöðum hefur m.a. verið á það bent að með tilkomu gagnavers Verne Holding gæti atvinnuleysi á Suðurnesjum dregist saman um 35%. Það breyttu litlu um að ýmsir sáu tormerki á samvinnu ríkis og Verne Holdings í þessu máli. Umrædd heimild til samninga við Verne Holding hefur verið afar umdeild vegna þess að ég er í hópi hluthafa. Þar sem ég var í hópi upphafsmanna að þessu verkefni og fékk erlenda meðfjárfesta að því vildi ég ekki að þátttaka mín yrði til þess að valda þeim tjóni. Þess vegna sendi ég iðnaðarnefnd Alþingis bréf á meðan málið var í meðförum þings þar sem ég bauðst til þess að afsala mér öllum ávinningi af hugsanlegum samningum ríkisins við Verne Holding. Það tilboð mitt er hluti af samningum við ríkið og gleður það mig að mál þetta er nú í höfn og framkvæmdir geta hafist á nýjan leik.

Engu að síður er ég enn þeirrar skoðunar að málatilbúnaður ýmissa þingmanna vegna þessa máls sé fyrir neðan allar hellur en sumur þeirra hafa þjófkennt mig í skjóli þinghelgi og siðferðisstefnur heilu stjórnmálahreyfinganna hafa verið rökstuddar með undarlegum ályktunum um að ég sé ekki traustins verður.

Einkum eru það þingmenn Hreyfingarinnar sem gagnrýnt samninginn. Þeir hafa m.a. í skjóli þinghelgi þjófkennt mig og í yfirlýsingu vegna afgreiðslu málsins segja þeir að meirihluti Alþingis eigi að taka siðferðilega forystu og hafna viðskiptum við mig vegna þess að ég sé ekki traustsins verður.

Í fyrsta lagi rökstuður Hreyfingin að ég sé ekki traustins verður með tilvísun í kaup Samsonar á hlut ríkisins í Landsbankanum og greiðslur fyrir hann. En hvað sem ályktunum Hreyfingarinnar líður þá stóð Samson við alla skilmála kaupsamningsins um eiginfjarframlag og seljendur bankans gerðu aldrei neinar kröfur um erlendan uppruna eiginfjárframlagsins eins og lesa má hér. Eigendur Samson geta ekki borið ábyrgð á orðum eða gerðum stjórnvalda í tengslum við einkavæðinguna og þá er ekki hægt að segja að ég sé ekki traustins verður vegna þess að ég hafi ekki staðið við skilyrði sem á sínum tíma voru aldrei sett. Íslenska ríkið fékk greiddar inn á reikning sinn í Seðlabanka Bandaríkjanna í New York 139 mílljónir bandaríkjadala fyrir hlut sinn í Landsbankanum eins og um var samið. Ég stóð við mitt þó svo ríkisvaldið hafi alltaf verið að breyta leikreglum.

Þá vísar Hreyfingin í yfirlýsingu sinni í eftirfarandi kafla í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leggur síðan útaf lestri skýrslunnar að áhætta fylgi viðskiptum við mig:

 „Stærstu eigendur allra stóru bankanna fengu óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé hjá þeim banka sem þeir áttu, að því er virðist í krafti eignarhalds síns (…) Við fall Landsbankans voru Björgólfur Thor Björgólfsson og félög tengd honum stærstu skuldarar bankans. Björgólfur Guðmundsson var þriðji stærsti skuldari bankans. Samtals námu skuldbindingar þeirra við bankann vel yfir 200 milljörðum króna. Það var meira en sem nam eigin fé Landsbankasamstæðunnar. Björgólfur Thor var einnig stærsti hluthafi Straums-Burðaráss og hann var stjórnarformaður þess banka. Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson voru hvor um sig, ásamt tengdum aðilum, meðal stærstu skuldara bankans og saman mynduðu þeir stærsta lántakendahóp hans.“

Allir þeir sem þekkja til rökhyggju og fjármála sjá í hendi sér að ekki er hægt að draga þá ályktun að áhætta fylgi viðskiptum við mig vegna þess að ég hafi fengið „óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé“ og við fall Landsbankans hafi félög sem tengdust mér vegna yfirtökunnar á Actavis verið stærstu skuldarar bankans, en umrædd viðskipti eru stærstu viðskipti Íslandssögunnar.  Eina ályktunin sem hægt er að draga af þessum kafla er sú að óæskilegt var að einn stærsti eigandi bankans hafi jafnframt verið stærsti viðskiptavinur hans. Undir það sjónar mið get ég tekið upp að vissu marki. Ég sé það núna að æskilegra hefði verið að eiga í lánaviðskiptum við ýmsa erlenda banka vegna kaupanna á Actavis sem eftr því óskuðu en ég og samstarfsmenn mínir tókum Landsbankann framyfir í þeim tilgangi að styrkja þann banka. Ég hefði átt að dreifa þeirri áhættu sem tengdist Landsbankanum frekar en að auka hana.  Þá hefðu skuldir mínar við bankann og íslensk fjármálafyrirtæki verið minni en ég er ekki eins viss um að innheimtur skilanefndar Landsbanakans af útlanum væru betri því þegar þetta er skrifað eru góðar horfur á að Landsbankinn fái þessi lán sín greidd í fyllingu tímans. Hver er þá áhættan af viðskiptunum við mig? Þegar endanlegt svar við þeirri spurningu fæst efast ég um að Hreyfingin hafi áhuga á því þ.e. a.s. ef það stjórnmálaafl verður þá til. En þangað til hvet ég þingmenn Hreyfingarinnar til að skoða hver framlög Actavis hafa verið til þjóðarhags og ríkissjóðs á þeim áratug sem ég hef notið traust sem stjórnarformaður. Þau eru talin í hundruðum milljörðum króna.