Samið um uppgjör allra skulda
Í dag greindi ég frá því að fjárfestingarfélag mitt, Novator, og ég hefðum náð samkomulagi við alla lánardrottna, – innlenda jafnt sem erlenda, um uppgjör skulda Novators og minna eigin. Með þessu samkomulagi vonast ég til að geta greitt allar mínar skuldir en það kann að taka nokkur ár. Á meðan verð ég að mestu í vinnu fyrir lánardottna mína. Þetta er að sjálfsögðu veigamikill áfangi í endurreisninni eftir hrun fjármálakerfisins á Vesturlöndum haustið 2008.
Fréttatilkynningin sem fór út í dag vegna uppgjörs skulda Novators og minna var svohljóðandi:
Björgólfur Thor Björgólfsson og fjárfestingarfélag hans, Novator, hafa nú gengið frá samkomulagi um heildaruppgjör við erlenda og innlenda lánardrottna sína.
Samkvæmt samkomulaginu munu skuldir verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Allar eignir Björgólfs Thors og Novators liggja til grundvallar uppgjörinu, en á þeim var gerð ítarleg úttekt og mat af hálfu alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis. Björgólfur Thor verður áfram hluthafi í félögum á borð við Actavis, Play, CCP og Verne Holding. Arðurinn af þessum eignarhlutum og verðmæti, komi til sölu þeirra, munu hins vegar ganga til uppgjörs skuldanna, ásamt ýmsum persónulegum eigum hans. Þar á meðal eru húseign í Reykjavík og sumarhús við Þingvelli.
Samhliða þessu skuldauppgjöri hefur náðst samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu lyfjafyrirtækisins Actavis.
Við gerð samkomulagsins nutu Björgólfur Thor og Novator liðsinnis tveggja alþjóðlegra fyrirtækja, hinnar virtu lögmannsstofu Linklaters og ráðgjafarfyrirtækisins AlixPartners, sem er eitt þekktasta fyrirtæki heims á sviði fjárhagslegrar endurskipulagningar.
Með þessar tilkynningu var einnig send eftirfarandi yfirlýsing mín:
Við hrun íslenska fjármálakerfisins haustið 2008 féllu á mig miklar persónulegar ábyrgðir vegna lánsviðskipta. Ég hef alltaf litið svo á þegar ég hef höndlað með háar fjárhæðir í eigin þágu að ég geti ekki gengið frá viðskiptunum án nokkurra persónulegra eftirmála ef og þegar allt fer á versta veg. Annað finnst mér óeðlilegt. Föstudaginn 3. október 2008 voru skráðar eignir mínar í fjármálafyrirtækjum á Íslandi metnar á um 60 milljarða króna. Við fall Landsbankans og Straums Burðaráss urðu þær eignir að engu, en umtalsverðar skuldir sátu eftir. Allt frá hruninu hef ég unnið hörðum höndum að því að gera upp við lánardrottna mína og það uppgjör er loks í höfn. Vissulega hefur það í för með sér að umsvif mín verða mun minni en áður og ég mun verja næstu árum í störf í þágu þessara lánardrottna, en ég fagna því að hafa náð þessari niðurstöðu. Ég hef ávallt stefnt að því að ljúka uppgjöri við lánardrottna mína með sóma.
Liður í skuldauppgjörinu eru samningar um fjárhagslega endurskipulagningu Actavis. Ég verð áfram leiðandi hluthafi í félaginu og sit í stjórn þess. Ég hef komið að uppbyggingu Actavis allar götur frá 1999 og félagið hefur vaxið mjög og dafnað í minni eigu, en það er nú eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Verðmæti eignarhlutar míns í Actavis gengur til uppgjörs á skuldum mínum við lánardrottna, sem hafa nú eignast hlut í fyrirtækinu og munu njóta góðs af vexti þess til framtíðar.
Eftir hrunið stóð ég um tíma frammi fyrir persónulegu gjaldþroti og bankarnir hefðu mögulega getað knúið það fram. Gjaldþrot hefði án efa þýtt að eigur mínar hefðu verið seldar með miklum afföllum á skömmum tíma og með því móti hefði ekki verið hægt að gera upp við lánardrottna. Með samningum við bankana um uppgjör er tryggt að hægt verði að byggja upp og selja eignirnar á eðlilegu og sanngjörnu verði þegar fram líða stundir. Ég bind til dæmis miklar vonir við að sá eignarhlutur í Actavis, sem nú rennur til lánardrottna minna, muni ekki aðeins greiða allar skuldbindingar mínar við þá að fullu, heldur vaxa umfram það.
Á undanförnum árum tók ég margar ákvarðanir sem ég taldi skynsamlegar og réttar á þeim tíma. Ég vísa til þess að enn hefur ekkert það komið fram sem gefið hefur tilefni til málshöfðunar gegn mér eða leitt hefur til riftunar samninga sem ég er aðili að. Þvert á móti hefur komið fram í fjölmiðlum að engin tilefni séu til slíks hvorki hjá Landsbanka né Straumi. Ég er þess fullviss að ekkert slíkt tilefni gefst, enda tel ég mig engin lög hafa brotið.
Ég hef beðið Íslendinga afsökunar á augljósum mistökum mínum í aðdraganda hruns íslenska bankakerfisins. Þá afsökunarbeiðni ítreka ég.
Með þessu skuldauppgjöri er staða mín ljós. Ég bý enn að traustu viðskiptasambandi við öfluga erlenda banka og hef allt frá hruni lagt áherslu á að byggja upp á nýjan leik, til dæmis með því að laða erlent fjármagn að íslensku atvinnulífi. Starfsemi mín mun, hér eftir sem hingað til, einkennast af raunverulegum viðskiptum með raunverulegar eignir, en ekki málamyndaviðskipti með ímyndaðar eignir, sem því miður voru of ríkjandi í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum.