Rætur Actavis liggja á Íslandi

Ég hef séð í fjölmiðlum að einhver misskilningur er á sveimi um heimilisfesti Actavis eftir að félagið greindi frá því í gær að það kanni hvort ekki sé heppilegra fyrir fyrirtækið að flytja höfuðstoðvar þess til meginlands Evrópu. Átta af 13 yfirmönnum fyrirtækisins búa nú utan Íslands.Hvað sem höfuðstöðvum Actavis líður þá er öruggt að Actavis verður áfram á Íslandi þar sem rætur þess liggja. Verið er að stækka verksmiðjuna í Hafnarfirði, rannsóknar og þróunarstarf og aðrir mikilvægir þættri verða áfram á Íslandi og fyrirtækið mun áfram veita yfir 500 manns störf á íslandi. Þá sé ég að einnig að einhverjir sem fylgjast grannt með mér snúa fyrri ummælum mínum gjörsamlega á haus og fá blaðamenn sem lítið þekkja til mála í lið við sig til að rægja mig.

Í fréttatilkynningu sem send var vegna ráðningar Dr. Claudio Albrecht sem forstjóra Actavis kom fram að hafin væri leit að hentugum stað á meginlandi Evrópu fyrir sameinaða yfirstjórn félagsins en af 13 stjórnendum eru 8 búsettir utan Íslands. Í tilkynningunni segir: „Eftir margar yfirtökur og hraðan vöxt undanfarinna ára er yfirstjórn Actavis staðsett í fimm löndum, víða um Evrópu og í Bandaríkjunum. Ákveðið hefur verið að sameina æðstu stjórnendur félagsins á einum hentugum stað á meginlandi Evrópu. Leitað er að réttu staðsetningunni. Engin breyting verður á starfsemi Actavis á Íslandi að öðru leyti. Hér á landi verður áfram miðpunkturinn í þróunarstarfseminni ásamt því sem verksmiðjan í Hafnarfirði mun áfram gegna lykilhlutverki í framleiðslu og markaðssetningu nýrra lyfja. Dótturfélaginu Medis, sem sér um sölu til þriðja aðila, verður áfram stýrt frá Íslandi. Eins og fram hefur komið er verið að stækka verksmiðjuna í Hafnarfirði um 50% og er sem fyrr gert ráð fyrir að starfsemi í nýja hlutanum hefjist um áramót. Auglýst verður eftir starfsfólki vegna þessa á haustmánuðum.“ Sumir fjölmiðlar gerðu úlfalda úr mýflugu og fullyrtu að Actavis væri að leið úr landi. Það er rangt eins og lesa má í fréttatilkynningunni frá félaginu.

Á www.dv.is birtist síðan undaleg frétt sem skrifuð er af blaðamanni sem aldrei áður svo vitað sé skrifað um málefni Actavis. Þar eru rifjuð upp svör mín við spurningum Illuga Jökulssonar um að ég vilji reyna að nota krafta mína til þess að koma að uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi og þá helst með því að vekja áhuga erlendra fjárfesta á verkefnum á Íslandi. Í frétt dv.is  er sagt að ég sé að ganga á bak þessara orða minna þar sem Actavis sé að leið úr landi. Raunar er fullyrt í fyrirsögn að ég persónulega sé að flytja höfuðstöðvar Actavis úr landi. Mér finnst að þarna sé skrattinn að reyna að lesa og skilja biblíuna. Einhver sem vill koma á mig óorði hefur fengið blaðamann sem ekki þekkir vel til mála til liðs við sig og týnt til gömul ummæli mín og snúið þeim á haus.  Það er tvennt sem er rétt að hafa í huga hér til viðbótar við það sem fram er komið um áframhaldandi starfsemi Actavis hér á landi. Í fyrsta lagi voru svör mín við spurningum Illuga gefin þegar ég var að reyna að fá nýja erlenda fjárfesta að uppbyggingu gagnavers á Miðnesheiði. Það tókst. Hinn virti fjárfestingasjóður Wellcome Trust var á endanum fáanlegur til að fjárfesta í verkefni í sveitarfélagi þar sem atvinnuleysi er hvað mest og taka þátt í að búa til yfir 100 gjaldeyrisskapandi framtíðarstörf.  Það má því segja að ég hafi staðið við þau orð mín og til viðbótar tók ég á mig auknar byrðar umfram mína meðfjárfesta, eins og fjallað hefur verið um, til að mæta kröfum stjórnmálamanna um einhverskonar uppgjör við hrun fjármálakerfisins. Mér er ekki kunnugt um að aðrir hafi gert það. Í öðru lagi er rétt að halda því til haga sem ég hef sagt frá sumrinu 2008 að eigendur eru alls ekki einráðir um framvindu fyrirtækja því kröfuhafar ráða miklu um hvernig mál þróast. Ég hef í nærri tvö ár átt í umfangsmiklum viðræðum við Deutsche Bank og aðra lánardrottna Actavis um stöðu mála en skuldir félagsins nema hundruðum milljörðum íslenskra króna á sama tíma og óvissa er um verðmæti hlutabréfa í félaginu. Öllum má ljóst vera að við þessar aðstæður er ég ekki einráður í Actavis þó svo félög mín fari með meirhluta og ég gegni starfi stjórnarformanns. Í þessari grein gerir dv.is alltof mikið úr mætti mínum þegar það segir að ég sé að flytja höfuðstöðvar félagsins. Slíkar ákvarðanir eru ekki eins manns.